Við sem samfélag getum státað okkur af því góða og fjölbreytta íþrótta- og tómstundastarfi sem stendur fólki til boða hér á landi. Rannsóknir hafa sýnt og sannað þá fjölmörgu kosti sem skipulagt frístundastarf býður upp á t.d. varðandi andlegt og líkamlegt heilbrigði. Sérstaklega hefur þátttaka barna í skipulögðu frístundastarfi jákvæð áhrif á þroska barna og félagsfærni og fátt hefur meira forvarnargildi. Þetta á við hvort sem þau æfa körfubolta, á fiðlu, rafíþróttir, ganga í skátana eða hvað annað skipulagt frístundastarf sem stendur barni til boða. Það er mikilvægt að virkja börn til þátttöku í íþrótta- eða tómstundastarfi og tryggja tækifæri allra til að njóta góðs af slíku starfi.
Þörf á vaxtarstyrk
Þó svo að ríkið og sveitarfélög hafa unnið náið með íþrótta- og tómstundahreyfingum landsins til að minnka greiðslubyrði fjölskyldunnar á frístundastarfi barna þá er enn hægt að gera betur. Fyrir margar fjölskyldur er það þungur róður að standa straum af kostnaði við frístundaiðkun barna sinna. Þessi staða getur sérstaklega borið á nú í kjölfar áhrifa COVID-19 veirunnar á efnahag og atvinnumarkað landsins.
Sú staða er erfið og ósanngjörn. Öll börn eiga að fá tækifæri til að blómstra í þeirri íþrótt eða tómstund sem þau hafa áhuga á og finna sig í. Framsóknarflokkurinn vill létta undir með barnafjölskyldum og leyfa börnum landsins að njóta góðs af íþróttum, listum eða öðru tómstundastarfi með árlegum 60 þúsund króna vaxtarstyrk. Styrkurinn er á hvert barn, en sem dæmi myndi þriggja barna fjölskylda fá 180 þúsund króna vaxtarstyrk, 60 þúsund fyrir hvert barn.
Jöfn tækifæri
Með umræddum vaxtarstyrk getum við jafnað tækifæri barna til að blómstra í íþrótt eða tómstund óháð efnahag. Styrkurinn myndi standa hverju einasta barni til boða þvert yfir landið. Að auki getur slíkur styrkur stuðlað að kröftugu og fjölbreyttu frístundastarfi hér á landi. Fyrirkomulag vaxtarstyrksins á margt sameiginlegt með frístundastyrkjunum, sem mörg sveitarfélög bjóða upp á í dag. Tölfræðin innan þeirra sveitarfélaga bendir sterklega til þess að veiting frístundastyrkja og aukning iðkenda haldast í hendur. Við viljum gera enn betur og taka skref í átt að því að bjóða öllum börnum jöfn tækifæri til frístundaiðkunar.
Höfundur er oddviti Skútustaðahrepps og skipar fjórða sæti á lista Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi í komandi kosningum.