Hvernig mælir maður velgengni þjóðar? Hvað er ábyrg efnahagsstjórnun? Að mínu viti er það ábyrg efnahagsstjórnun að allir geti lifað mannsæmandi lífi. Fátækt, húsnæðisskortur, slæm meðferð á launafólki, öryrkjum og fátæku eftirlaunafólki er dæmi um mjög óábyrga landsstjórn og afspyrnu lélegan árangur. Sama á við um sveltistefnu í heilbrigðis-og menntamálum.
Í landi sem er svo ríkt af auðlindum eins og Ísland er, eiga allir að geta lifað góðu lífi ef kökunni væri jafnar skipt. En það er ekki vilji fyrir því hjá forystumönnum þjóðarinnar sem fyrst og fremst eru fastir í tölum á blaði, summunni af því sem gengur kaupum og sölum deilt með fjölda landsmanna, eða hinum fræga “Hagvexti”. Ábyrg efnahagsstjórnun og stöðugleiki í augum þessa fólks er án alls þess sem skiptir mestu máli, eða líðan fólks, velsæld og kærleika. Og þessi áhersla á hagsvaxtarformúluna er algjöra án kærleika til náttúrunnar því hún gerir ekkert annað enn að auka á níðingsskapinn í umhverfismálum og til aukinnar hamfarahlýnunar. Af hverju? Jú í stuttu máli vegna þess að aukinn hagvöxtur krefst aukinnar neyslu sem aftur leiðir til aukins ágangs á náttúruna.
Alþjóðasamtök verkalýðsfélaga hafa kallað eftir splunkunýrri formúlu fyrir hagvöxt sem lýsir raunverulegri hagsæld almennings. Það er langt síðan sú krafa kom fram en ennþá gerist ekkert. Þetta er rætt á alþjóðlegum þingum verkalýðsfélaga og ráðstefnum en enginn árangur orðið. Þetta lýsir vel hversu staða verkalýðsfélaganna í heiminum hefur veikst. Þeir sem eiga peningana og alþjóðleg stórfyrirtæki sem ráða leynt og ljóst öllu í heiminum, vilja ekki koma á einhverju nýju kerfi sem getur hamlað vaxandi gróða þeirra og yfirráðum. Þar liggur hundurinn grafinn. Og ég fullyrði að engin stjórnmálaflokkur á Alþingi Íslendinga í dag vill gera þær breytingar sem þarf á hagvaxtarformúlunni til þess að hægt sé að skapa manneskjulegt samfélag: Kærleikshagkerfi með fyrrnefndum áherslum. Jú menn tala um aukin jöfnuð, bætt kjör aldraða og eftirlaunafólks en berjast ekki fyrir breytingum á kerfunum sem skapa misréttið og stuðla að því að kjör þessara hópa eru ekki betri.
En hvernig er formúla alþjóðasambanda verkalýðsfélaga um ábyrga hagstjórn og mælikvarða á velgengi? Formúlan er á mannamáli og hljómar í aðalatriðum einhvern veginn svona: Þróunarmódel sem byggir á mannréttindum, heilbrigðum vinnuskilyrðum, jöfnuði, þátttökulýðræði, jafnrétti kynjanna, félagslegu réttlæti og umhverfisvernd.
Höfundur er atvinnulífsfræðingur og félagi í Sósíalistaflokki Íslands.