Um langt skeið höfðu Bandaríkjamenn og fleiri varað Úkraínumenn og aðrar Evrópuþjóðir við yfirvofandi innrás Rússlands. Því miður tóku fæstir þessum viðvörunum nógu alvarlega. Bæði fyrir stríð og nú þegar stríð er hafið virðist skilningur margra vera takmarkaður á því hver tilgangur stjórnarherra í Kreml raunverulega sé. Ekki ætla ég að setjast þar í dómarasæti en þegar sagan er skoðuð er þó flestum ljóst að þar virðast draumar um endurreisn fyrrum áhrifasvæða vera undirliggjandi.
Stefnan gjaldþrota
Það er kannski skiljanlegt að fæstum hafi órað fyrir þeim hildarleik sem nú á sér stað, enda mótast hugsunarháttur margra íbúa í Evrópu af langtíma friði með fáum undantekningum. Um margra ára skeið byggðu stóru Evrópuþjóðirnar, Frakkar og Þjóðverjar ásamt fleirum, gríðarleg viðskiptatengsl við Rússland sem byggðust meðal annars á orkukaupum og jafnframt þeirri von að viðskipti og aukin samskipti gætu einnig haft þau áhrif að stuðla að friði fyrir vikið. Segja má að þessi tilraun sé nú gjaldþrota. Þjóðir sitja uppi með þann klafa að þurfa að halda áfram að fjármagna stríðsrekstur Rússlands með kaupum á orku þar sem önnur leið er ekki í færi sem stendur. Fordæmalausar viðskiptaþvinganir hafa verið lagðar á Rússland frá upphafi stríðsins og líklegt er að þær eigi eftir að harðna. Stríðið heldur þó áfram með þeim hræðilegu hörmungum sem því fylgir og enn bætist í hóp þeirra milljóna sem nú eru á flótta í nágrannaríkjum eða eigin landi.
Rauð flögg í aðdraganda stríðsins
Þegar aðdragandi stríðsins er skoðaður er ekki hægt að segja annað en að rauð flögg hafi blasað við. Eftir fall múrsins lögðu þau lönd sem næst voru frjálsri Evrópu mikla áherslu á að komast undir verndarvæng NATO þar sem hræðsla þeirra og vantraust í garð Rússa var algjört. Eystrasaltslöndin, Pólland og fleiri tilheyra þeim hópi. Segja má að þær áhyggjur séu á rökum reistar í ljósi sögunnar. Í kalda stríðinu minnast margir ítrekaðra viðbragða Sovétríkjanna við tilraunum um lýðræðisumbætur í sjálfstjórnarríkjum þar sem rauði herinn barði niður andóf af miklum þunga. Er Rússland réðst inn í Georgíu voru viðbrögð takmörkuð. Þegar Rússland hertók Krímskaga var viðskiptaþvingunum beitt, en svo virðist sem þær hafi borið takmarkaðan eða nánast engan árangur. Viðvarandi stríðsátök milli þjóðanna kölluðu ekki á afgerandi viðbrögð vesturlanda gegn Rússlandi fyrr en allsherjar innrás hófst.
Umræða um Evrópusambandsaðild og varnarhagsmuni
Þrátt fyrir þá staðreynd að Evrópusambandið hafi sofið á verðinum gagnvart ógnartilburðum Rússlands hefur heyrst sá tónn að nú sé mikilvægt að Ísland endurveki aðildarferli að Evrópusambandinu. Látið er að því liggja að innganga tryggi varnir okkar enn frekar þrátt fyrir þá staðreynd að Íslands sé bæði stofnaðili að NATO og einnig með varnarsamning við Bandaríkin, sem er án nokkurs vafa stærsta hernaðarveldi heims. Ég hef furðað mig á þeirri umræðu enda sýnist mér að það meinta friðarbandalag sem ESB sannarlega telur sig vera hafi algjörlega brugðist í nálgun sinni.
Fyrst ber að nefna að orkukaup ESB ríkja hafa stórlega eflt getu Rússlands til hernaðarumsvifa en á sama tíma hafa þjóðir eins og Þýskaland komist upp með að leggja mun minna til sinna varna í skjóli NATÓ aðildar. Í umræðunni hefur verið bent á að Evrópusambandsaðild innihaldi skuldbindingu ríkja til sameiginlegra varna. Í því samhengi má nefna að Finnland og Svíþjóð róa nú öllum árum að NATÓ aðild. Bæði þessi ríki eru í miklu samstarfi við NATÓ og báðar þjóðir vitaskuld í Evrópusambandinu. Þær þjóðir telja að minnsta kosti ekki raunhæft að láta ESB aðild duga enda hernaðarmáttur NATÓ borinn uppi af stærstum hluta af þeim öflugu ríkjum sem ekki standa innan Evrópusambandsins.
ESB ríkin héldu áfram að selja Rússlandi vopn
Nú kemur í ljós samkvæmt upplýsingum frá blaðamönnum Telegraph að minnst tíu ríki ESB seldu Rússum áfram vopn eftir innrás þeirra inn í Krímskaga á meðan blátt bann ESB átti að koma í veg fyrir það. Samkvæmt fréttinni nýttu aðilar smugu í regluverki ESB til þess að halda áfram að mata rússneska stríðsvél. Varla finnst ESB sinnum þetta í lagi. Hagsmunamatið er í hið minnsta vart í takt við gildismat Íslendinga. Það kemur á óvart að umrædd frétt fari ekki hærra enda nokkuð sláandi.
Ég skil vel þá sem telja að Ísland eigi að vera í Evrópusambandinu út frá viðskiptalegum sjónarmiðum þó svo ég sé þeim ekki sammála. Nú þegar stefna stóru ESB ríkjanna gagnvart Rússlandi hefur hlotið skipbrot og í ljósi ofangreindra þátta stendur eftir stóra spurningin. Kallar stríðið í Úkraínu á inngöngu í ESB út frá varnarhagsmunum Íslands? Svarið er þvert NEI.
Höfundur er þingmaður Framsóknar og nefndarmaður í utanríkismálanefnd Alþingis