Fólksfjöldi í Kalmar kommun er um 65.000 manns, eða um helmingur á við Reykjavík. Í Kalmar á og rekur sveitarfélagið 4.700 leiguíbúðir af ýmsum stærðum. Íbúðirnar eru fyrir alla þjóðfélagshópa, óháð aldri, tekjum eða þjóðfélagsstöðu.
Dæmi um verð: eins herbergja, 42 fermetrar: 58.000 ISK (3.700 SEK).
Fjögurra herbergja, 96 fermetrar 118.000 ISK (7.490 SEK).
Hiti er innifalinn í leiguverðinu, tryggingar eða fyrirframgreiðslu er ekki krafist. Leigjandi skal hafa tekjur sem samsvara tvöfaldri leiguupphæð á mánuði. Leigjandi má vera á vanskilaskrá, en má ekki skulda leigu.
Kalmar kommun lítur á rekstur leiguíbúða sem sjálfsagðan hluta af þjónustu við íbúa svæðisins. Þak yfir höfuðið er jú lífsnauðsyn, rétt eins og vatnsveita, sjúkraþjónusta, skólar, vegir osfrv.
Þessar íbúðir eru vinsælar og fá færri en vilja. Kalmar áformar að byggja 75 íbúðir árlega til að halda í horfinu næstu árin.
Fyrir utan ofangreindar íbuðir reka einkaaðilar nokkur þúsund leiguíbúðir í Kalmar. Verðin og skilmálar eru svipað og hjá Kalmarhem, sem ræður ferðinni á þessum markaði í krafti stærðar sinnar. Fjöldi leiguíbúða á svæðinu er því uppundir 10.000.
Ef sama hugsun gilti í reykvískum húsnæðsismálum væru líklega 20.000 leiguíbúðir í Reykjavík reknar með þessum hætti, þar af helmingurinn á vegum borgarinnar.
Í Kalmar þykir leiguverð hátt, og í augnablikinu eru aðeins 3 íbúðir að losna hjá Kalmarhem. Það eru 67 manns á biðlista.
Hvernig væri ástandið í Kalmar ef reykvíska húsnæðisformúlan væri notuð á svæðinu?
Höfundur er sjómaður og áhugamaður um launa- og húsnæðismál íslenskrar alþýðu.