Ég vaknaði upp við vondan draum þegar ég sá fréttir af því að Útlendingastofnun hefði ákveðið að breyta úrskurði sínum um að veita Kyana Sue Power varanlegt dvalarleyfi hér á landi. Þessi breyting var byggð á leyfi til að veita fólki dvalarleyfi sem telja má hafa sérfræðiþekkingu í sínum fræðum eða fagi.
Í desember 2021 skrifaði ég dómsmálaráðherra, Jóni Gunnarssyni, opið bréf um ógeðsleg lög sem eru enn í gildi hér á landi. Þessi lög sniðganga börn sem eiga íslenska móður og erlendan föður en þessi börn fengu ekki sjálfkrafa ríkisborgararétt eins og börnin sem fæddust á sama tíma en áttu íslenska feður og erlendar mæður. Sagði einhver drusluskömmun?
Síðan ég skrifaði bréfið hefur fólk með eins bakgrunn og ég verið í sambandi og sagt mér hvernig þau hafi reyndar öðlast sjálfkrafa ríkisborgararétt svo kannski skiptir reyndar líka máli hvort um er að ræða Jón eða Séra Jón, Breta eða Bandaríkjamann. Hver veit? Sagði einhver klíkuskapur?
Ég sendi einnig tölvupóst á Útlendingastofnun vegna þessa en stofnunin svaraði um hæl: „Það er ekki hægt að leiðrétta ríkisborgararéttinn þinn. Lögin sem voru í gildi við fæðingu gilda og segja til um hvort þú hafðir rétt á íslenskum ríkisborgararétti eða ekki.“ Punktur.
Þetta þykir mér áhugavert. Útlendingastofnun sér ekkert að því að breyta úrskurði sínum gagnvart erlendum ríkisborgurum sem eru sterkir fjármagnseigendur en halda áfram að líta framhjá ósk minni um að leiðrétta drusluskömmunarlög sem móðir mín og ég höfum þurft að þola afleiðingar af. Hvers konar siðferði er þetta eiginlega?
En þar sem Útlendingastofnun neitar að veita mér þann breytingarrétt sem þó er hægt að sækja um hjá stofnuninni í svona málum þá hefur það t.d. þær afleiðingar að dóttir mín þarf að hafa mun meira fyrir því að geta verið með mér hér á landi en dóttir manns sem á íslenskan afa en ameríska ömmu. Nema hún reyni fyrir sér í samfélagsmiðlabransanum og verði öflugur landkynnir og fjármagnseigandi – þá á hún kannski séns?
Höfundur er umsækjandi um íslenskan ríkisborgararétt frá Bandaríkjunum, fæddur íslenskri móður og amerískum föður.