Átján aðildarfélög Bandalags háskólamanna eiga nú að baki kostnaðarsama kjarabaráttu við ríkið. Þungar verkfallsaðgerðir taka að sjálfsögðu sinn toll og sá kostnaður verður ekki allur metinn í krónum. Félögin mættu hins vegar gagnaðila við samningaborðið sem hvorki var reiðubúinn að hlusta á þeirra viðhorf, né heldur setja á borð annað en afarkosti.
Upphafið
Þegar samningaviðræður við ríkið hófust lögðu viðsemjendur fram hugmyndir sínar um nýjan kjarasamning. Hugmyndir ríkisins voru mjög á lágu nótunum eins og búist var við enda litið á þær sem upphafstilboð sem gert var ráð fyrir að yrði sá samningsgrundvöllur sem lagður yrði til grundvallar samningaviðræðunum. Fljótt kom í ljós að ríkið leit ekki svo á að nýr kjarasamningur yrði byggður á hugmyndum viðsemjendanna beggja um efni, heldur einungis á sínum hugmyndum. Tilboð ríkisins var sem sagt ekki samningsgrundvöllur heldur lokatilboð og í því ljósi með öllu óaðgengilegt.
Verkföll
Svo ótrúlegt sem það hljómar, þá virðist sem viðsemjandi BHM hafi ætlað að neyta aflsmunar til að þvinga fram nýjan kjarasamning sem var bersýnilega afar ósanngjarn en um leið var auðvitað jafnólíklegt að hann hefði verið samþykktur af félagsmönnum aðildarfélaganna. Aðeins eitt var til ráða, að láta reyna á samningsréttinn með aðgerðum. Verkfallsaðgerðirnar sem ráðist var í, voru því ekki valkvæðar heldur voru félögin í raun þvinguð til þeirra og þá um leið til að bera kostnaðinn af þeim á einn veg eða annan.
Nú er það svo að hefðbundnar verkfallsaðgerðir felast að jafnaði í allsherjarvinnustöðvun þess hóps sem leitað er samninga fyrir og þá greiðslu á verkfallsbótum að því marki sem sjóðir félaga leyfa. Oftar en ekki eru þessar bætur aðeins hluti þess tekjutaps sem félagsmenn verða fyrir. Kostnaðurinn lendir að verulegu leyti á einstaklingunum beint. Allsherjarverkfall gagnvart ríkinu hefði þannig óhjákvæmilega þýtt umtalsverða röskun á högum fjölmargra fjölskyldna á meðan stórir hópar s.s. allir starfsmenn stjórnarráðsins hefðu þurft að sitja hjá vegna þess að þeir hafa ekki verkfallsrétt. Þetta þótti því ekki ásættanlegt og fljótlega var farið að leita óhefðbundinna leiða. Reynt að finna aðgerðir sem gætu valdið truflunum á starfsemi ríkisins, með minnstu mögulegu áhrifum á hagsmuni skjólstæðinga þess, og með sem minnstum áhrifum á kjör félagsmanna.
Niðurstaðan varð sú að velja staka hópa, stakar stofnanir, þar sem verkföll voru boðuð ýmist tímabundið eða ótímabundið. Þessi leið hafði það í för með sér að tiltölulega fámennur hópur fór í verkfall fyrir alla heildina og því þurfti að finna leið til að bæta hópnum tekjutapið. Það var gert þannig að öll átján félögin greiddu jafn mikið hlutfallslega í verkfallssjóð BHM eftir hlutfalli ríkisstarfsmanna í viðkomandi félagi. Það fyrirkomulag lagðist auðvitað mjög misþungt á félögin og varð t.d. til þess að Félag háskólamenntaðra starfsmanna stjórnarráðsins, FHSS þurfti þegar upp var staðið og vegna lengdar verkfallanna að taka lán til að standa við skuldbindingar sínar við verkfallssjóðinn og að hækka félagsgjöld tímabundið til að geta greitt lánið til baka.
Sá fórnarkostnaður var þó smávægilegur miðað við þann ávinning sem fékkst þegar málið var endanlega leitt til lykta. Verkföllin hófust og samningaviðræður héldu áfram, nú undir verkstjórn sáttasemjara ríkisins, og hvað gerðist? Ekkert, nema að með hverjum deginum varð skýrara að ríkið ætlaði ekki að semja. Eðlilegt er að velta fyrir sér hvaða hugsun getur legið að baki slíkri afstöðu af hálfu ríkisins. Var ætlunin virkilega sú að svelta BHM félögin þar til samstaða þeirra rofnaði eða þar til þau kæmust í þrot fjárhagslega og neyddust til að aflýsa aðgerðum sínum og þiggja þann samning sem ríkið bauð?
Hvað gátu BHM félögin gert í þessari stöðu?
Aðeins eitt, þ.e. að þétta raðirnar, efla samstöðuna, láta enga bilbug á sér finna og þrauka í von um að ríkið sæi að sér og byrjaði að semja. Hinn kosturinn var í raun óhugsandi, þ.e. að gefast upp og þiggja það hraksmánarlega tilboð sem var á borðinu því það var svo lágt að það hefði aldrei verið samþykkt af félagsmönnum. Þetta gekk eftir, samstaðan rofnaði aldrei, efldist frekar, en eftir því sem áhrif verkfallanna urðu meiri jókst þrýstingur frá þeim sem þau bitnuðu á eins og t.d. LSH og eftirlitsaðila með öryggi á sjúkrahúsum og raddir urðu háværari um að binda yrði enda á verkfallið.
BHM félögin svöruðu með því að segja að öryggi væri tryggt og sú trygging væri innbyggð í kerfið með undanþágunefndum sem hefðu beinlínis það hlutverk að tryggja að hvergi kæmu brestir í öryggi á sjúkrahúsum. Allt kom fyrir ekki og þar kom að ríkið, viðsemjandi BHM ákvað að láta Alþingi banna verkfallið með lögum og skipa gerðardóm til að kveða upp úrskurð í deilunni.
Gerðardómurinn
Gerðardómurinn kvað upp úrskurð sinn hinn 14. ágúst s.l. Í honum er rakið hver hafi verið fyrirmæli laganna um verkefni hans og þar kemur m.a. fram að hann skyldi hafa hliðsjón af kjörum þeirra sem sambærilegir geta talist að menntun, störfum, vinnutíma og ábyrgð og, eftir atvikum kjarasamningum sem undirritaðir hefðu verið frá 1. maí 2015 og almennri þróun kjaramála hér á landi. Við ákvarðanir skyldi jafnframt gæta að stöðugleika efnahagsmála.
Í úrskurðarorðum segir síðan að launahækkanir skuli vera 7,2% sbr. útfærslu í launatöflum í fylgiskjölum og taka gildi frá og með 1. mars 2015. Þá skuli launahækkanir vera 5,5% frá 1. júní 2016 og jafnframt 1,65% til útfærslu menntunarákvæða frá sama tíma. Hinn 1. júní 2017 skuli koma til sérstök eingreiðsla að fjárhæð 63.000 kr.
Rannsóknir á launaþróun
Gerðardómurinn birtir með úrskurði sínum niðurstöðu rannsókna sinna á launaþróun sambærilegra stétta og því er ljóst að hann er að úrskurða sambærilegar hækkanir eins og honum var lögskylt að gera. Hverjar eru þá hækkanirnar sem úrskurðaðar voru og hvað segir það okkur um tilboð ríkisins og um framgöngu fulltrúa þess? Í úrskurði gerðardómsins er kveðið á um leiðréttingu á hlutföllum milli launaflokka og þrepa í launatöflu og það veldur því að launahækkanir frá 1. mars 2015 eru mismunandi eða frá 7,2% og til 12,3%. Launahækkanirnar 1. júní 2016 eru 5,5% á alla launaflokka. Þetta gerir uppsafnað 13,1% til 18,5% launahækkanir og þá á eftir að bæta við 1,65% menntunarálaginu.
Tilboð ríkisins
Svo ótrúlegt sem það kann að hljóma þá lagði samninganefnd ríkisins aldrei fram neitt formlegt tilboð heldur aðeins hugmyndir. Þær kváðu á um 3,5% launahækkun við undirritun samnings og ígildi sömu hækkunar ári seinna. Þegar nær dró samningum Samtaka atvinnulífsins, SA, við sína viðsemjendur breyttust hugmyndir ríkisins yfir í „það sama og SA myndi semja um“ án þess þó að það væri neitt nánar skilgreint. Það er því ljóst að himinn og haf er á milli þess sem ríkið bauð og þess sem gerðardómur úrskurðaði á grundvelli rannsóknar á launaþróun sambærilegra stétta. Það er jafnframt ljóst að gerðardómur leit ekki svo á að úrskurður hans hefði neitt að gera með stöðugleika efnahagsmála enda mátti hann ekki gera neitt til að raska honum.
Kjaftshögg
Ég kann ekki betri lýsingu á þessari niðurstöðu fyrir viðsemjanda okkar. Hann er búinn að koma sér í þá makalausu stöðu að trúverðugleiki hans er enginn lengur og vinnubrögðin þannig að ekki er hægt að líkja þeim við neitt annað en tilraun til valdníðslu þar sem hinn sterkari neytir aflsmunar til að reyna að þvinga hinn veikari til að ganga að tilboði sem nú er í ljós leitt að var afar ósanngjarnt. Hann er jafnframt búinn að afreka það að slíta asnaeyrun af viðsemjanda sínum og hann verður því ekki dreginn á þeim framar.
Höfundur er sérfræðingur í innanríkisráðuneytinu og situr í stjórn Félags háskólamenntaðra starfsmanna stjórnarráðsins.