Menntamálaráðherra skipar rektor til fimm ára samkvæmt tilnefningu háskólaráðs að undangengnum kosningum þar sem greidd atkvæði starfsmanna hafa 70% vægi en stúdenta 30%.
Kosið var á milli þriggja rektorsframbjóðenda sl. mánudag en þar sem enginn fékk meirihluta greiddra atkvæða þarf að kjósa aftur nk. mánudag á milli þeirra tveggja sem fengu flest atkvæði.
Jón Atli Benediktsson, aðstoðarrektor vísinda og kennslu, hlaut 48,9% atkvæða sl. mánudag, Guðrún Nordal, forstöðumaður stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum 39,4% og Einar Steingrímsson 9,7%.
En nú komum við að markaðsfræðunum.
Tengsl markaðsstefnu og árangurs?
Markhópar (réttara væri boðmiðlunarhópar) Guðrúnar og Jóns Atla voru fyrst og fremst starfsmenn Háskóla Íslands og stúdentar ( = kjósendur) en boðmiðlunarhópur Einars fólkið í landinu ( = eigendur).
Munurinn á staðfærslunni (hvaða ímynd er verið að reyna að koma á framfæri eða skapa) lá í meginatriðum í því að Einar lagði ekki síður áherslu á að nýta fjármuni eigendanna betur en hinna tveggja í því að reyna, sem rektor, að fá meiri fjármuni frá eigendunum til þess að bæta kjör og aðstæður kjósenda. Hann lá líka í því að Einar kom með útfærðar tillögur að breytingum (eigendum í hag) en hinir tveir (enda hefði það getað fælt frákjósendur).
Í ljósi mismunandi markaðsstefnu (markhópar, staðfærsla) er þá nokkuð skrítið þó úrslit kosninganna hafi orðið þau sem komu á daginn?
Og nú æsast leikar.
Tækifærið og (endur)staðfærslan?
Hvaða tækifæri sér Guðrún svo í seinni umferðinni?
Jú, hún segir að það sé „...augljóst að fólk vill breytingar“ en sjálf hafði hún talað fyrir slíku með tiltölulega óljósum hætti í fyrri umferðinni til þess væntanlega að aðgreina sig aðeins frá Jóni Atla (sem fór mun varlegar í sakirnar).
Og hverju ætlar Guðrún þá að breyta varðandi markaðsstefnuna til að nýta sér þetta tækifæri?
Markhóparnir eru þeir sömu - starfsmenn og stúdentar. Áherslan hjá Jóni er á þá sem eru sáttir við hlutina eins og þeir eru en hjá Guðrúnu frekar á þá sem eru það ekki.
En staðfærslan hefur breyst ( = endurstaðfærsla) enda keppinauturinn nú bara einn.
Hver er þá munurinn á þeim tveimur? „Hann hefur verið aðstoðarrektor í sex ár en ég er að koma utanfrá.“
Með öðrum orðum Jón Atli hafi starfað í stjórnsýslu Háskóla Íslands (sé hluti af núverandi valdastétt og beri þannig ábyrgð á ástandi mála) en ekki hún. Þess vegna hafi hún, „önnur tækifæri til þess að taka til hendinni og breyta hlutum en sitjandi aðstoðarrektor. Og öllum ætti að vera ljóst að breytinga er þörf.“
Hvorugt hefur þó lagt fram nákvæmar tillögur um breytingar enda gæti slíkt fælt kjósendur frá þeim.
Í markaðsfræðunum væri þetta kallað aðgreinandi þættir (Points of Difference) og er annar helmingurinn í staðfærslu.
Hinn helmingur staðfærslunnar, sameiginlegir þættir (Points of Parity) hefur hins vegar ekki breyst.
Stærsta verkefnið, að mati beggja er að tryggja fjármögnun skólans (sem rektor getur síðan ekki haft nema takmörkuð áhrif á því ákvörðunin liggur að mestu hjá Alþingi). Svo eru ýmis atriði tengd kjörum og aðstöðu starfsmanna og nemenda.
Með öðrum orðum sé stærsta verkefni rektors að fá meira fé frá eigendunum. Ekki orð um að nýta fjármuni þeirra betur.
Enda eru eigendurnir ekki á kjörskrá!
Höfundur er rekstrarhagfræðingur.