Fyrirkomulag kosninga til Alþingis hefur verið stokkað upp nokkuð reglulega á minna en tveggja áratuga fresti; á árunum 1933-34, 1942, 1959, 1983-1987 og 1999-2000.
Tilefnið hefur að jafnaði verið aðlögun að búsetubreytingum. Upptalningin hefst 1933 þegar gerð varð sú mikla kerfisbreyting að tekin voru upp jöfnunarsæti (þá kölluð uppbótarsæti) til þess að stuðla að jöfnuði á milli flokka, þ.e. hlutfallslegu samræmi milli landsfylgis flokkanna og þingmannatölu þeirra.
Fullyrða má að jöfnuður af þessi tagi hafi verið meginmarkmið löggjafans í öllum breytingum kosningaákvæða á umræddu tímabili. Fullum jöfnuði var þó ekki náð fyrr en með þeirri breytingu sem tók gildi 1987. Uppstokkunin um síðustu aldamót hafði sama markmið. Fullur jöfnuður hélst í öllum sjö þingkosningum frá 1987 til og með þeim 2009. Síðan hefur hallað undan fæti. Í síðustu þrennum kosningum, 2013, 2016 og 2017, hefur eitt sæti lent hjá óverðskulduðum flokki og þá auðvitað á kostnað annars flokks. Þetta er svo sem minni ójöfnuður, en var allan tímann fram til 1987. Engu að síður byggðist þingmeirihluti þeirrar ríkisstjórnar sem tók við eftir kosningarnar 2016 á slíku umframsæti.
Nú eru enn blikur á lofti. Skoðanakannanir og hermdar kosningar á grundvelli þeirra (með svokölluðum Kosningahermi, tæki sem er í lokaþróun) benda til þess að ójöfnuður kunni að verða á milli þingflokka í kjölfar komandi kosninga; að eitt – jafnvel tvö – sæti kunni að lenda hjá flokki eða flokkum sem eigi þau ekki skilið miðað við landsfylgi.
Það er pólitískt matsatriði hvort það sé keppikefli að þingstyrkur flokka endurspegli heildarúrslit kosninga. Þó verður ekki annað séð en að flokkarnir séu einhuga um að svo skuli vera. Sá flokkur, Framsóknarflokkurinn, sem þurfti að fórna þingsætum með breytingunum á níunda áratugnum, studdi breytingarnar þá og um leiðmarkmiðsetningu sem þá var fest í stjórnarskrá að „[v]ið úthlutun þingsæta samkvæmt kosningaúrslitum skal gæta þess svo sem kostur er að hver þingflokkur fái þingmannatölu í sem fyllstu samræmi við heildaratkvæðatölu sína.“
Hver er orsök misvægis milli flokka og hvað er til ráða?
Ein ástæðna flokkamisvægisins er hlutfallslega misjafnt vægi kjördæmanna, sem er hér meira en þekkist í löndunum í kringum okkur. Þó er meginástæða misvægis milli flokka sú að jöfnunarsætin eru of fá, en þau hafa þann beina tilgang að ná umræddum jöfnuði. Þetta má líka orða þannig að of stór hluti þingsæta eru kjördæmissæti. Vandinn er sá að löggjafinn hefur alltaf skorið jöfnunarákvæðin við nögl. Því hefur þurft, og þarf nú, að stokka upp kerfið.
Eina trygga lausnin felst í því er að afmá skilin milli kjördæmis- og jöfnunarsæta, og það helst með öllu. Í þess stað verði kveðið á um að fyrst sé öllum þingsætunum, sem nú eru 63, skipt á milli flokkanna í hlutfallslegu samræmi við landsfylgi þeirra. Ef vill, verði þetta þó einskorðað við þá flokka sem ná 5% landsfylgi, sbr. þröskuldinn núverandi. Að þessu gefnu sé sætunum útdeilt til kjördæmislistanna eftir úrslitum í hverju þeirra eins og frekast er kostur. M.ö.o. að jöfnunin milli flokkanna brengli sem minnst hreina hlutfallsúthlutun í hverju kjördæmi.
Reiknitilraunir með fyrrnefndum kosingahermi sýna að vel má útfæra þetta á þann veg að bæði sjónarmiðin – virðing við vilja kjósenda hvers kjördæmis og um leið við vilja kjósenda í heild sinni – séu í heiðri höfð. Fyrra markmiðið næst ekki síður en með núverandi órökréttu skiptingu sæta í kjördæmis- og jöfnunarsæti. Og seinna markmiðið næst alfarið. Um þetta má t.d. lesa í umsögn höfundar þessa pistils um þingmál á nýliðnu þingi; sjá hér. Ítarlega grein höfundar um umbætur á kosningakerfinu er auk þess að finna í hausthefti tímaritsins Stjórnmál og stjórnsýsla frá 1984; sjá hér.
Höfundur er fyrrverandi prófessor.