Ég hitti konu á dögunum í mjólkurkæli í Bónus á Grandanum. Ég tek það fram að við vorum ekki ein. Þar var fleira fólk á ferli og hún Hrefna var þar með syni sínum, en þegar hún sá mig, varð hún svo glöð, sem hún er reyndar að eðlisfari, og fagnaði mér innilega og sagðist bara fá óvænta blessun frá prestinum í Bónus! Ég hló og signdi yfir hana og það var ekki bara í einhverju kæruleysislegu gamni heldur einnig í gleðilegri alvöru.
Ég hrósaði gleði hennar og björtu brosi og minnti á hve miklu máli skiptir að fólk efli góð og gleðileg samskipti. Það er nefnilega svo, að samfélagið er í grunninn heilandi og líknandi í sjálfu sér, þegar fólk gefur af sér í kærleika og með gleði. Við ræddum þennan heilandi og líknandi þátt þjóðfélagsins í stuttu samtali.
Það að hitta fólk er okkur öllum nauðsyn. Við erum félagsverur og ófáar sögurnar höfum við heyrt meðan Kófið hefur staðið yfir og valdið því að margir hafa einangrast og misst af svo mörgu sem heilbrigt samfélag getur veitt í erli daganna.
Stórkostleg kvikmynd um uppvöxt skáldkonunnar, Astrid Lindgren, ungligsár og fram yfir tvítugt, sem nýlega var sýnd á Rúv, endar á þessu ljóði:
Stökkva,
þora að stökkva,
gegnum dauðann,
inn í lífið,
stökkva,
þora að stökkva,
gegnum myrkrið,
inn í ljósið,
muna að lifa,
að njóta þess,
finna að sumarið er þitt,
muna að lifa,
taka eitt skref áfram,
eða afturábak ef þú vilt,
nananana, nanannannana,
nananana, nanannannana.
Í köldum mjólkurkæli var pláss fyrir hlýtt viðmót, bjart bros og heilandi orð sem yljuðu mér á leiðinni heim á hjólhesti mínum í 10 gráðum plús og vindi sem mældist 5 metrar á sekúndu.
Búðarferð þessi varð mér til mikillar blessunar, sem ég þakka Guði fyrir og auðvitað einnig, guðsbarninu, henni Hrefnu.
Höfundur er fv. sóknarprestur.