Fyrst á réttunni, svo á röngunni
27. nóvember 2010, eða fyrir nær réttum 11 árum gengum við til kosninga til stjórnlagaþings. Framkvæmd kosninganna var kærð og Hæstiréttur úrskurðaði kosningarnar ógildar þann 25. janúar 2011.
Rétt upp hönd sem finnst fyndið hvað þurfti lítið til að ógilda kosningar til stjórnlagaþings sem fóru fram 27. nóv. 2010 en hvað það virðist þurfa mikið núna til að ógilda alþingiskosningar eða hluta þeirra. Hart hefur verið barist við að réttlæta, breiða yfir meiriháttar fúsk og ólöglegt athæfi við meðferð kjörgagna í NV til að alþingiskosningarnar 2021 teljist gildar. Þegar það er augljóst að agnúarnir eru mun fleiri og alvarlegri nú en í stjórnlagaþingskosningunum og t.d. búið að dæma ólöglegt athæfi yfirkjörstjórnar sem neitar að verða við dómi og greiða sekt.
Mér finnst þetta eilítið fyndið en á sama tíma grátlegt. Og margir hafa skipt um lið varðandi ógildingar kosninga. Sem segir okkur að sérhagsmunir trompa of oft sjálfsagðar grundvallarreglur lýðræðis- og réttarríkisins.
Agnúar, annmarkar, lögbrot, fúsk og koningasvindl
Hæstaréttardómararnir sem ógiltu stjórnlagaþingskosningarnar í janúar 2011 dæmdu kosningarnar ógildar á fimm annmörkum, þar af voru tveir verulegir annmarkar.
Annmarkarnir sem voru taldir verulegir náðu annars vegar til strikamerkinga kjörseðla sem voru með númerum í samfelldri, hlaupandi töluröð. Þetta var talið brjóta í bága við ákvæði laga um leynilegar kosningar sbr. stjórnarskrá. Hins vegar átti landskjörstjórn að kveða til „valinkunna menn“ til að fylgjast með framkvæmd kosninganna og sinna skyldum umboðsmanna frambjóðenda. Á 13-15% atkvæðaseðla kom upp vafi um hvernig bæri að skilja skrift á þeim og því sérstök þörf á umboðsmönnum frambjóðenda til að gæta réttinda þeirra.
Hinir þrír annmarkarnir voru pappaskilrúmin en lögin gera ráð fyrir kjörklefum, að kjörseðilinn þyrfti ekki að brjóta saman. En samanbrotinn kjörseðill þykir tryggja leynd. Og að lokum að kjörkössunum var ekki hægt að læsa og að auðvelt væri að taka þá í sundur og komast í kjörseðla. Þetta dregur úr öryggi og leynd.
Það var engin sönnun á ásetningi eða skýrum vilja til kosningasvindls sem margir telja nú forsendu þess að ógilda kosningar. Þetta voru þrír annmarkar og tveir verulegir annmarkar. Og mest af þessum annmörkum fylgja hverjum einustu Alþingis- og sveitarstjórnarkosningum á Íslandi og aldrei hefur verið gert veður út af nema í hnausþykkum skýrslum kosningaeftirlits Pírata frá árinu 2012.
Alþingiskosningarnar 2021 og aðkoma Landskjörstjórnar
Þá að landskjörstjórn sem hefur sloppið vel fyrir óvandaða framgöngu og jafnvel ólöglega. Höfum það hugfast að landskjörstjórn hefur ekkert umboð eða vald yfir yfirkjörstjórnum kjördæmanna.
Það var með eindæmum hvernig landskjörstjórn fór að skipta sér af NV og Suðurkjördæmi með orðsendingum að morgni hins 26.sept. um að það muni mjög litlu á jöfnunarmönnum. Svör yfirkjörstjórna til landskjörstjórnar hefðu í báðum kjördæmum átt að vera: „Hvað með það? Það munar oft litlu. Við töldum rétt. Við tví- og þrítöldum og allt stemmir. Farið að sofa.“
En í stað þess fer Ingi Tryggvason í eitthvert óskiljanlegt leikrit og ákveður að endurtelja þrátt fyrir engar óskir þar um. Ólögleg endurtalning þar sem hún var ekki fyrir opnum dyrum, umboðsmenn ekki boðaðir osfrv. Fer svo að tjá sig opinberlega um hefðir, að innsiglin séu drasl, enginn hefði getað nálgast kjörgögnin og fleiri óvönduð og röng ummæli. Hann hefur einn og sér endurtalningu um hádegisbil. Og skemmtileg tilviljun að hann fann villur í fyrsta bunkanum.
Þórir, formaður yfirkjörstjórnar Suðurkjördæmis má eiga það að hann sýndi yfirvegaðri og vandaðri orðræðu og stóð rétt og vel að endurtalningu. Sem vel að merkja var kallað eftir af stjórnmálaframboðum en ekki með hálfkveðnum vísum landskjörstjórnar. Ég vil hins vegar taka það fram að kjörgögnin þar voru ekki innsigluð fyrr en á sunnudeginum en salurinn var innsiglaður og talið var í framhaldsskólanum – engir nemendur, eða starfsmenn. Einu sinni var talið á Hótel Selfossi en hótel eru ekki góðir talninga- eða geymslustaðir fyrir kjörgögn. Engum dytti í hug að telja og geyma kjörgögn á Kaffibarnum.
Þá aftur að landskjörstjórn sem varð aftur á stórkostleg handvömm. Eftir þá fyrstu með afskiptasemi þrátt fyrir að hafa enga lögsögu yfir yfirkjörstjórnum. Í annan stað gaf hún út kjörbréf sem hún skýrði sjálf frá í skýrslu að væru ekki trygg. Það er stórfurðulegt.
Lausnirnar – Veljum aðeins það versta
Það voru engar góðar lausnir á þessu klúðri. En við gátum ekki látið þetta óátalið. Og alls ekki ekki láta Birgi Ármanns segja okkur að það aðeins hafi verið tvær lausnir á borðinu. Þær voru fleiri.
- Uppkosning í NV.
- Fyrri talning gildir.
- Seinni talning gildir.
- Endurteknar Alþingiskosningar um allt land.
Ég er á því að uppkosning í NV komi ekki til greina. Kjósendur í einu kjördæmi eru með upplýsingar sem kalla á strategískar kosningar. Það er ekki lýðræðislegt.
Seinni talningin getur ekki gilt þar sem kjörgögnin voru ótryggð um langa hríð og því hætta fyrir hendi að átt hafi verið við þau.
Ég hef hallast því að því að fyrri talningin gildi – ellegar Alþingiskosningar endurteknar á landsvísu. Það eru þó samt báðir slæmir kostir.
Það er engin stemning fyrir Alþingiskosningum. Lýðræði er vesen. Þjóðin er búin að kjósa. Það er aldrei stemning fyrir veseni. En megum við eða getum gefið afslátt af lýðræðinu þegar sýnt hefur verið fram á fúsk, verulega annmarka og lögbrot.
Ég tel því að fyrri talningin hefði átt að gilda. Ég skal færa rök fyrir því. Ég hef tekið þátt í talningu, sinnt kosningaeftirliti og verið umboðsmaður og þekki því ágætlega hvernig kaupin gerast á eyrinni. Kjörgögn í NV voru óspillt við fyrstu talningu.
Nú er hefðin sú að þegar lokatölur eru kynntar, allt fullstemmt, gengið frá kjörgögnum, allir umboðsmenn sáttir og ef ekki þá bóka þeir í gerðabók, talningafólk, umboðsmenn, almenningur sem fylgdist með talningu og yfirkjörstjórn yfirgefur talningastað þá er talningu lokið. Allur orðhengilsháttur um að talningu sé ekki lokið fyrr en yfirkjörstjórn kemur saman eftir smáblund til að fylla inn eyðublöð til landskjörstjórnar er fyrirsláttur. Í fyrsta lagi eru þeir ekki að telja, þeir eru að taka saman tölur og skýrslu fyrir landskjörstjórn. Það er ekki talning. Það er samantekt og skil á gögnum.
En fyrri talningunni var aldrei skilað til landskjörstjórnar og því erfitt að gefa út kjörbréf á niðurstöður sem aldrei skiluðu sér.
Alþingi valdi verstu lausnina á fimmtudagskvöldið. Lukashenkolýðræði. Hér þurfti engin vettlingatök, heldur vandaða málsmeðferð, aðkomu kjósenda og ásættanlegar lausnir. Lýðræðið og virðing þingsins er í veði. Því var fórnað á fimmtudagskvöldið var.
Höfundur er stjórnmálafræðingur.