Nú í kjölfar þingkosninganna hefur sprottið upp umræða um kosningakerfið, en einkum þó eftir endurtalningu atkvæða í Norðvesturkjördæmi sem olli því að nokkrir tugir atkvæða færðust til. Við þetta fóru fimm jöfnunarsæti á flakk. Það er vel að umræðan er farin af stað þótt tilefnið hefði mátt vera annað.
Margir býsnast yfir því að kosningakerfið sé allt of flókið. Hlutfallskosningakerfi getur aldrei verið einfalt þegar í senn er keppt að því að sætum sé rétt skipt á milli flokka miðað við landsfylgi en um leið fái kjördæmin sín sæti og engar refjar. Fyrir því eru einfaldlega stærðfræðileg rök. Kosningakerfi með þetta tvennt að markmiði eru á öllum Norðurlöndunum nema í Finnlandi, þar sem ekki eru nein jöfnunarákvæði og þar með nokkurt ójafnvægi milli flokka.
Norska kerfið er mjög líkt því íslenska. Það sænska er síst einfaldara en það íslenska en þingkosningakerfi Dana er miklu flóknara en okkar. Og svo mætti lengi telja. Einu kosningakerfin sem eru einfaldari eru þau engilsaxnesku, eins og í Bretlandi og Bandaríkjunum; svokölluð Westminster-kerfi. Þingmenn eru þar allir kosnir í einmenningskjördæmum og jöfnunarákvæði eru engin. Við það festast tveir flokkar í sessi. Ekki er pláss fyrir aðra. Eina leiðin til að hasla sér völl er að brjótast inn í annan flokkinn eins og Trump gerði – og var hann þó lengi í vafa hvor þeirra væri auðveldari bráð. Er þetta lýðræðislegt fyrirkomulag?
Kjarni málsins í íslenska kosningakerfinu er jöfnuður á milli flokka. Það er búið að vera meginmarkmiðið við allar grunnbreytingar á kosningalögum í nær níutíu ár. Með kosningalögunum frá 1987 og aftur þeim sem gilt hafa frá aldamótum náðist fullur jöfnuður milli þingflokka allt þar til í síðustu fernum kosningum – að þeim nýafstöðnu meðtöldum. Í þrjú skipti hefur Framsóknarflokkurinn fengið mann um of en í einum þeirra Sjálfstæðisflokkurinn. Þetta kann að þykja bitamunur en ekki fjár, en þó hvíldi meirihluti ríkisstjórnar þeirrar sem mynduð var eftir kosningarnar 2017 á slíku aukasæti. Og nú er eitt af þeim fimm sætum sem Framsókn bætti við sig af sama toga.
Þrennt kemur að mínu mati einkum til álita og þá í róttækniröð:
1. Jöfnunarsæti
Hér er átt við sama fyrirkomulag og nú, en með endurbótum á því hvernig jöfnunarsætum er útdeilt til kjördæmislista. Í þeim efnum er í raun aðeins til ein leið sem uppfyllir allar gæðakröfur. Hún er stærðfræðilega einföld en lögfræðilega flókin og kemur því vart til greina. Hún er þó notuð í sumum kantónunum í Sviss.
Einföld leið er sú að úthluta öllum sætum í fyrstu sem væru þau kjördæmissæti. Þá kemur að jafnaði í ljós að sætum er ekki rétt skipt milli flokka miðað við landsfylgi þeirra. Jöfnunin felst þá í því að færa sæti frá listum ofhaldinna flokka til lista hinna vanhöldnu og þá vitaskuld þar sem minnstu munar á fylgi þeirra. Þetta mætti kalla víxljöfnunaraðferð. Til fróðleiks má geta þess að formenn „fjórflokksins“ náðu samkomulagi 1. des. 1982 um að minni tillögu að taka upp þess reglu. Hún varð síðan fórnarlamb hrepparígs. Afleiðingin varð klúðurslegt kerfi sem náði þó megintilgangi sínum, jöfnuði á milli flokka. Svíar uppgötvuðu þessa víxljöfnunaraðferð nýlega og innleiddu hana 2014, en þó í skötulíki. Mikill áhugamaður um kosningamál, Kristinn Lund, hefur líka fundið hana upp og hampað henni og það með réttu.
Eins og fyrr segir hefur ekki náðst jöfnuður á milli flokka síðan 2013. Til þess eru jöfnunarsætin of fá. Best er að hætta að gera greinarmun á kjördæmis- og jöfnunarsætum. Hvort tveggja næðist með víxljöfnunaraðferðinni.
2. Landslisti
Í stað jöfnunarsæta bundnum kjördæmum væru ígildi þeirra færð á sérstakan landslista. Kjördæmin gætu áfram verið sex, eða fleiri, en þó með færri sætum samtals en nú, helst ekki fleirum en sem nemur helmingi allra sæta, þ.e. 33 sæti. Hin 30 sætin væru þá á þessum landslista. Frambjóðendur á honum mættu að hluta eða að öllu leyti vera þeir sömu og eru í framboði í kjördæmunum. Landslistasætunum væri skipt á milli flokkanna nákvæmlega eins og jöfnunarsætunum nú. Það sem væri til bóta er að þessum ígildum jöfnunarsæta, landssætunum, þyrfti ekki að troða inn í kjördæmin og vera síðan á flakki milli þeirra. Önnur útfærsla væri sú að kjósendur fengju tvö atkvæði, annað til að kjósa í kjördæmi og hitt til að krossa við landslista. Þannig er fyrirkomulagið sem notað hefur verið í Þýskalandi nær óslitið frá stofnun Sambandslýðveldisins. Eftir fall kommúnismans breiddist kerfið út til flestra austantjaldsríkjanna, en líka til Nýja-Sjálands sem hvarf þá frá Westminster-kerfinu.
Landslistar hafa komið við sögu hér á landi. Frá 1915 til 1933 var viðhaft sérstakt landskjör, en eftir það og allt til fyrri kosninganna 1959 gátu flokkar boðið fram sérstaka landslista. Landslistasætin komu þó ekki í stað jöfnunarsæta (sem kölluðust þá uppbótarsæti). Kerfið var því óþarflega flókið. Viðreisnarstjórnin svokallaða skipaði fjóra mæta menn í nefnd til að gera tillögur um breytt kosningakerfi. Þeir stungu upp á þýska kerfinu.
3. Landið eitt kjördæmi
Sé vilji til að ganga enn lengra væri langeinfaldast að gera landið að einu kjördæmi, að hafa allsherjar landskjör. Svo er í sumum ríkjum og það fjölmennari en okkar, t.d. í Ísrael, en líka í Hollandi, með afbrigðum þó. Sama má segja um það hvernig kosið er innan amtanna til danska þjóðþingsins, en hvert þeirra er vitaskuld margfalt fjölmennara en Ísland allt. Færeyingar og Grænlendingar kjósa líka landskjöri til sinna sérþinga.
Landskjör hlýtur að kalla á persónukjör í einhverjum skilningi. Það er vart boðlegt kjósendum að krossa við lista með 126 nöfnum án þess að fá nokkru um það ráðið hverjir skipa þingsætin. Fara má þá millileið, eins og gert er í Hollandi og í Danmörku, að gera flokkunum heimilt að stilla upp mismunandi listum sem væru að einhverju leyti breytilegir eftir landssvæðum, þ.e. ígildum kjördæma.
Rök fyrir uppskiptingu í kjördæmi byggja beint eða óbeint á einhvers konar hagsmunagæslu eftir því hvar kjósendur búa. En þá má spyrja hvort slík hagsmunagæsla eigi ekki enn frekar við eftir öðrum kennimörkum? Hvort t.d. fatlaðir ættu ekki að fá að kjósa sérstaklega í „kjördæmi“ fatlaðra. Eða barnafólk í sínum hópi, svo ekki sé minnst á okkur gamalmennin! Eru ekki landfræðileg kjördæmi úrelt í heimi rafrænna samskipta? Allir geta náð til þingmanna óháð búsetu.
Við í Stjórnlagaráði lögðum til leiðir 2 og 3. Í kosningalögum mætti velja þar á milli. Á hinn bóginn settum við víðtækt persónukjör sem skilyrði.
Lengi getur gott batnað
Kosningakerfi okkar má bæta verulega. Kosningalög hafa verið endurskoðuð á u.þ.b. tveggja áratuga fresti. Nú er kominn tími á næstu endurskoðun. Búið er að færa umgjörð kosninga til nútímahorfs með nýjum kosningalögum sem taka gildi um næstu áramót. En stóru málunum, kjördæmaskipan og úthlutun þingsæta, var slegið á frest. Nú þarf að taka til hendinni.
Hinn mikli spænski hugsuður José Ortega y Gasset ritaði í bók sinni Uppreisn fjöldans sem birtist á millistríðsárunum þessi viturlegu orð:
„Heill lýðræðisríkja, hverrar gerðar eða máttar sem þau eru, hvílir á lítilfjörlegu tæknilegu atriði: Fyrirkomulagi kosninga. Allt annað er aukaatriði.“
Höfundur er fyrrv. prófessor.