Kosningakerfið þarf að bæta

Þorkell Helgason fyrrverandi prófessor segir að íslenska þingkosningakerfið þurfi að bæta og leggur fram þrjár hugmyndir að breytingum, sem hann telur helst koma til greina.

Auglýsing

Nú í kjöl­far þing­kosn­ing­anna hefur sprottið upp umræða um kosn­inga­kerf­ið, en einkum þó eftir end­ur­taln­ingu atkvæða í Norð­vest­ur­kjör­dæmi sem olli því að nokkrir tugir atkvæða færð­ust til. Við þetta fóru fimm jöfn­un­ar­sæti á flakk. Það er vel að umræðan er farin af stað þótt til­efnið hefði mátt vera ann­að.

Margir býsnast yfir því að kosn­inga­kerfið sé allt of flók­ið. Hlut­falls­kosn­inga­kerfi getur aldrei verið ein­falt þegar í senn er keppt að því að sætum sé rétt skipt á milli flokka miðað við lands­fylgi en um leið fái kjör­dæmin sín sæti og engar refj­ar. Fyrir því eru ein­fald­lega stærð­fræði­leg rök. Kosn­inga­kerfi með þetta tvennt að mark­miði eru á öllum Norð­ur­lönd­unum nema í Finn­landi, þar sem ekki eru nein jöfn­un­ar­á­kvæði og þar með nokk­urt ójafn­vægi milli flokka.

Norska kerfið er mjög líkt því íslenska. Það sænska er síst ein­fald­ara en það íslenska en þing­kosn­inga­kerfi Dana er miklu flókn­ara en okk­ar. Og svo mætti lengi telja. Einu kosn­inga­kerfin sem eru ein­fald­ari eru þau eng­il­sax­nesku, eins og í Bret­landi og Banda­ríkj­un­um; svokölluð West­min­ster-kerfi. Þing­menn eru þar allir kosnir í ein­menn­ings­kjör­dæmum og jöfn­un­ar­á­kvæði eru eng­in. Við það fest­ast tveir flokkar í sessi. Ekki er pláss fyrir aðra. Eina leiðin til að hasla sér völl er að brjót­ast inn í annan flokk­inn eins og Trump gerði – og var hann þó lengi í vafa hvor þeirra væri auð­veld­ari bráð. Er þetta lýð­ræð­is­legt fyr­ir­komu­lag?

Auglýsing

Kjarni máls­ins í íslenska kosn­inga­kerf­inu er jöfn­uður á milli flokka. Það er búið að vera meg­in­mark­miðið við allar grunn­breyt­ingar á kosn­inga­lögum í nær níu­tíu ár. Með kosn­inga­lög­unum frá 1987 og aftur þeim sem gilt hafa frá alda­mótum náð­ist fullur jöfn­uður milli þing­flokka allt þar til í síð­ustu fernum kosn­ingum – að þeim nýaf­stöðnu með­töld­um. Í þrjú skipti hefur Fram­sókn­ar­flokk­ur­inn fengið mann um of en í einum þeirra Sjálf­stæð­is­flokk­ur­inn. Þetta kann að þykja bita­munur en ekki fjár, en þó hvíldi meiri­hluti rík­is­stjórnar þeirrar sem mynduð var eftir kosn­ing­arnar 2017 á slíku auka­sæti. Og nú er eitt af þeim fimm sætum sem Fram­sókn bætti við sig af sama toga.

Þrennt kemur að mínu mati einkum til álita og þá í rót­tækniröð:

1. Jöfn­un­ar­sæti

Hér er átt við sama fyr­ir­komu­lag og nú, en með end­ur­bótum á því hvernig jöfn­un­ar­sætum er útdeilt til kjör­dæm­is­lista. Í þeim efnum er í raun aðeins til ein leið sem upp­fyllir allar gæða­kröf­ur. Hún er stærð­fræði­lega ein­föld en lög­fræði­lega flókin og kemur því vart til greina. Hún er þó notuð í sumum kantón­unum í Sviss.

Ein­föld leið er sú að úthluta öllum sætum í fyrstu sem væru þau kjör­dæm­is­sæti. Þá kemur að jafn­aði í ljós að sætum er ekki rétt skipt milli flokka miðað við lands­fylgi þeirra. Jöfn­unin felst þá í því að færa sæti frá listum ofhald­inna flokka til lista hinna van­höldnu og þá vita­skuld þar sem minnstu munar á fylgi þeirra. Þetta mætti kalla víxl­jöfn­un­ar­að­ferð. Til fróð­leiks má geta þess að for­menn „fjór­flokks­ins“ náðu sam­komu­lagi 1. des. 1982 um að minni til­lögu að taka upp þess reglu. Hún varð síðan fórn­ar­lamb hrepp­ar­ígs. Afleið­ingin varð klúð­urs­legt kerfi sem náði þó meg­in­til­gangi sín­um, jöfn­uði á milli flokka. Svíar upp­götv­uðu þessa víxl­jöfn­un­ar­að­ferð nýlega og inn­leiddu hana 2014, en þó í skötu­líki. Mik­ill áhuga­maður um kosn­inga­mál, Krist­inn Lund, hefur líka fundið hana upp og hampað henni og það með réttu.

Eins og fyrr segir hefur ekki náðst jöfn­uður á milli flokka síðan 2013. Til þess eru jöfn­un­ar­sætin of fá. Best er að hætta að gera grein­ar­mun á kjör­dæm­is- og jöfn­un­ar­sæt­um. Hvort tveggja næð­ist með víxl­jöfn­un­ar­að­ferð­inni.

2. Lands­listi

Í stað jöfn­un­ar­sæta bundnum kjör­dæmum væru ígildi þeirra færð á sér­stakan lands­lista. Kjör­dæmin gætu áfram verið sex, eða fleiri, en þó með færri sætum sam­tals en nú, helst ekki fleirum en sem nemur helm­ingi allra sæta, þ.e. 33 sæti. Hin 30 sætin væru þá á þessum lands­lista. Fram­bjóð­endur á honum mættu að hluta eða að öllu leyti vera þeir sömu og eru í fram­boði í kjör­dæm­un­um. Lands­lista­sæt­unum væri skipt á milli flokk­anna nákvæm­lega eins og jöfn­un­ar­sæt­unum nú. Það sem væri til bóta er að þessum ígildum jöfn­un­ar­sæta, lands­sæt­un­um, þyrfti ekki að troða inn í kjör­dæmin og vera síðan á flakki milli þeirra. Önnur útfærsla væri sú að kjós­endur fengju tvö atkvæði, annað til að kjósa í kjör­dæmi og hitt til að krossa við lands­lista. Þannig er fyr­ir­komu­lagið sem notað hefur verið í Þýska­landi nær óslitið frá stofnun Sam­bands­lýð­veld­is­ins. Eftir fall komm­ún­ism­ans breidd­ist kerfið út til flestra aust­an­tjalds­ríkj­anna, en líka til Nýja-­Sjá­lands sem hvarf þá frá West­min­ster-kerf­inu.

Lands­listar hafa komið við sögu hér á landi. Frá 1915 til 1933 var við­haft sér­stakt lands­kjör, en eftir það og allt til fyrri kosn­ing­anna 1959 gátu flokkar boðið fram sér­staka lands­lista. Lands­lista­sætin komu þó ekki í stað jöfn­un­ar­sæta (sem köll­uð­ust þá upp­bót­ar­sæt­i). Kerfið var því óþarf­lega flók­ið. Við­reisn­ar­stjórnin svo­kall­aða skip­aði fjóra mæta menn í nefnd til að gera til­lögur um breytt kosn­inga­kerfi. Þeir stungu upp á þýska kerf­inu.

3. Landið eitt kjör­dæmi

Sé vilji til að ganga enn lengra væri langein­fald­ast að gera landið að einu kjör­dæmi, að hafa alls­herjar lands­kjör. Svo er í sumum ríkjum og það fjöl­menn­ari en okk­ar, t.d. í Ísra­el, en líka í Hollandi, með afbrigðum þó. Sama má segja um það hvernig kosið er innan amt­anna til danska þjóð­þings­ins, en hvert þeirra er vita­skuld marg­falt fjöl­menn­ara en Ísland allt. Fær­ey­ingar og Græn­lend­ingar kjósa líka lands­kjöri til sinna sér­þinga.

Lands­kjör hlýtur að kalla á per­sónu­kjör í ein­hverjum skiln­ingi. Það er vart boð­legt kjós­endum að krossa við lista með 126 nöfnum án þess að fá nokkru um það ráðið hverjir skipa þing­sæt­in. Fara má þá milli­leið, eins og gert er í Hollandi og í Dan­mörku, að gera flokk­unum heim­ilt að stilla upp mis­mun­andi listum sem væru að ein­hverju leyti breyti­legir eftir lands­svæð­um, þ.e. ígildum kjör­dæma.

Rök fyrir upp­skipt­ingu í kjör­dæmi byggja beint eða óbeint á ein­hvers konar hags­muna­gæslu eftir því hvar kjós­endur búa. En þá má spyrja hvort slík hags­muna­gæsla eigi ekki enn frekar við eftir öðrum kenni­mörk­um? Hvort t.d. fatl­aðir ættu ekki að fá að kjósa sér­stak­lega í „kjör­dæmi“ fatl­aðra. Eða barna­fólk í sínum hópi, svo ekki sé minnst á okkur gam­al­menn­in! Eru ekki land­fræði­leg kjör­dæmi úrelt í heimi raf­rænna sam­skipta? Allir geta náð til þing­manna óháð búsetu.

Við í Stjórn­laga­ráði lögðum til leiðir 2 og 3. Í kosn­inga­lögum mætti velja þar á milli. Á hinn bóg­inn settum við víð­tækt per­sónu­kjör sem skil­yrði.

Lengi getur gott batnað

Kosn­inga­kerfi okkar má bæta veru­lega. Kosn­inga­lög hafa verið end­ur­skoðuð á u.þ.b. tveggja ára­tuga fresti. Nú er kom­inn tími á næstu end­ur­skoð­un. Búið er að færa umgjörð kosn­inga til nútíma­horfs með nýjum kosn­inga­lögum sem taka gildi um næstu ára­mót. En stóru mál­un­um, kjör­dæma­skipan og úthlutun þing­sæta, var slegið á frest. Nú þarf að taka til hend­inni.

Hinn mikli spænski hug­s­uður José Ortega y Gas­set rit­aði í bók sinni Upp­reisn fjöld­ans sem birt­ist á milli­stríðs­ár­unum þessi vit­ur­legu orð:

„Heill lýð­ræð­is­ríkja, hverrar gerðar eða máttar sem þau eru, hvílir á lít­il­fjör­legu tækni­legu atriði: Fyr­ir­komu­lagi kosn­inga. Allt annað er auka­at­rið­i.“

Höf­undur er fyrrv. pró­fess­or.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Þorbjörn Guðmundsson
Er íslenska velferðarkerfið ekki lengur griðarstaður þeirra sem minnst hafa?
Kjarninn 11. janúar 2023
Takk fyrir og sjáumst á nýjum miðli á föstudag
Bréf frá ritstjóra Kjarnans vegna sameiningar við Stundina og þess að nýr framsækinn fréttamiðill verður til í lok viku.
Kjarninn 11. janúar 2023
Sverrir Albertsson
Vatn á myllu kölska
Kjarninn 11. janúar 2023
Lögreglumenn standa vörð um gröfurnar í námunni.
Berjast fyrir þorpi á barmi hengiflugs
Lítið þorp í Rínarlöndum Þýskalands er allt komið í eigu kolarisa. Fyrirtækið ætlar sér að mylja niður húsin og stækka kolanámu sína sem þegar þekur um 80 ferkílómetra. Þetta þykir mörgum skjóta skökku við í heimi sem berst við loftslagsbreytingar.
Kjarninn 10. janúar 2023
Arnþrúður Karlsdóttir, útvarpsstjóri Útvarps Sögu.
Útvarp Saga telur fjölmiðlastyrki skapa tortryggni og bjóða upp á frændhygli
Fjögur fjölmiðlafyrirtæki hafa til þessa skilað inn umsögnum um frumvarp Lilju Alfreðsdóttur menningar- og viðskiptaráðherra, sem mun að óbreyttu framlengja núverandi styrkjakerfi til fjölmiðla.
Kjarninn 10. janúar 2023
Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar.
Viðræðum slitið og Efling undirbýr verkfallsaðgerðir
Samtök atvinnulífsins hafa hafnað gagntilboði Eflingar um skammtímakjarasamning, sem kvað á um meiri launahækkanir en SA hefur samið um við aðra hópa á almennum vinnumarkaði til þessa. Efling undirbýr nú verkfallsaðgerðir.
Kjarninn 10. janúar 2023
Palestínski fáninn á lofti í mótmælum í Reykjavík. Ísraelskri lögreglu hefur nú verið fyrirskipað að rífa fánann niður á almannafæri.
Fánabann og refsiaðgerðir í Palestínu í kjölfar niðurstöðu Sameinuðu þjóðanna
Degi eftir að ný ríkisstjórn tók við völdum í Ísrael samþykkti allsherjarþing Sþ að fela Alþjóðadómstólnum í Haag að meta lögmæti hernáms Ísraelsríkis á Vesturbakkanum. Síðan þá hefur stjórnin gripið til refsiaðgerða og nú síðast fánabanns.
Kjarninn 10. janúar 2023
Gríðarlega mikil dæling á sandi á sér stað í Landeyjahöfn á hverju ári. Markarfljótið ber hundruð þúsunda tonna af jarðefnum út í sjó og það á til að safnast upp í mynni hafnarinnar.
Vilja sjúga sand af hafsbotni í stórum stíl og flytja út
Eftirspurn eftir íslenskum jarðefnum er gríðarleg ef marka má framkomin áform erlendra stórfyrirtækja um nýtingu þeirra. Vinsældir hafnarinnar í Þorlákshöfn eru samhliða mjög miklar.
Kjarninn 10. janúar 2023
Meira úr sama flokkiAðsendar greinar