Undanfarin ár hefur loksins orðið vitundarvakning í loftslagsmálum um allan heim, þökk sé ötulli baráttu ungs fólks með Gretu Thunberg í fararbroddi. Ungt fólk á Íslandi hefur ekki látið deigan síga í þessari baráttu og krafist miklu róttækari og afdráttarlausari aðgerða í baráttunni gegn hamfarahlýnun.
Því miður hefur ríkisstjórn VG, Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokks ekki hlýtt á þessar raddir og kröfur, heldur orðið sammála um lægsta samnefnarann í loftslagsmálum og ekki komið í gegn stórum umhverfisverndarmálum á borð við miðhálendisþjóðgarð.
Ríkisstjórnin hefur ekki viljað lýsa yfir neyðarástandi í loftslagsmálum, þó að urmull leiðtoga, ríkja, borga og bæja um allan heim hafi gert það til að staðfesta alvarleikann og nauðsyn að bregðast við af festu. Metnaðarleysi Íslands kom líka fram í því að markmið um samdrátt Íslands í útblæstri gróðurhúsalofttegunda eru það lægsta sem ESB-ríkin komu sér saman um og undir 60% samdrætti sem Evrópuþingið vildi.
Næstu ár skipta öllu máli
Það ríður á að við stjórnvölinn á Íslandi verði stjórnmálaflokkar sem segjast ekki bara vilja vel og gera betur, heldur sýni í verki að þeir séu staðráðin í að framfylgja því og geri þær kröfur til samstarfsflokka sinna að enginn afsláttur verði gefin í málefnum loftslagsmála.
Samfylkingin vill alvöru aðgerðir í loftslagsmálum sem kallar á stórtækari aðgerðir strax og nýja, djarfa og róttæka hugsun á öllum sviðum samfélagsins. Þann 3. september kynnti Samfylkingin 50 aðgerðir í loftslagsmálum sem við viljum ráðast strax í, fáum við til þess umboð frá kjósendum um næstu helgi.
Samfylkingin vill að stefnt verði að minnsta kosti 60% samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda fyrir árið 2030, að loftslagsmarkmið okkar verði að fullu lögfest án tafar og að Ísland stefni á að verða kolefnislaust frá og með árinu 2040. Við verðum líka að banna alla leit að olíu og gasi á íslensku yfirráðasvæði.
Samfylkingin vill gera byltingu í almenningssamgöngum. Við viljum flýta Borgarlínu á höfuðborgarsvæðinu og uppbyggingu stofnleiða fyrir hjólreiðar. Koma þarf upp heildstæðu neti almenningssamgangna sem við köllum Landlínu og yrði knúið vistvænum innlendum orkugjöfum.
Samfylkingin vill beita skattalegum hvötum og ívilnunum til að draga úr kolefnisspori atvinnuveganna og tryggja að öll ný skip gangi fyrir endurnýjanlegri orku að fullu eða að hluta. Hættan sem sjávarútvegi okkar stafar af loftslagsbreytingum er mikil, ekki síst vegna súrnun sjávar, og við viljum beita okkur fyrir stórauknum rannsóknum á því sviði.
Samfylkingin vill styðja við þróun loftslagslausna og græns hátækniiðnaðar og auka vægi loftslagsvænnar atvinnuuppbyggingar á Íslandi. Þetta verður meðal annars gert með stofnun græns fjárfestingarsjóðs í samstarfi við einkafjárfesta og sveitarfélög og tekur mið af aðgerðaáætlun stjórnvalda í loftslagsmálum og af vísinda- og tæknistefnu Íslands í allri sinni starfsemi. Með þessu öllu verður til mikill fjöldi af grænum störfum sem skapa munu verðmæti um allt land.
Við viljum líka hætta nýskráningu bensín- og dísilfólksbíla frá og með árinu 2025 og styrkja enn betur við hleðslustöðvar um allt land. Við verðum líka að nýta orkuna í raforkukerfinu betur og styrkja flutnings- og dreifikerfi rafmagns svo það standi undir auknu álagi vegna orkuskiptanna. Þetta hefði núverandi ríkisstjórn getað staðið við eins og lofað var í stjórnarsáttmálanum um innviðauppbyggingu.
Við getum ekki meiri meðalmennsku í loftslagsmálum
Góðu fréttirnar eru þær, að þó tíminn sé að renna okkur úr greipum, er ekki of seint að bregðast við. Með róttækum aðgerðum til að stöðva losun koldíoxíðs og annarra gróðurhúsalofttegunda má enn koma í veg fyrir að hlýnunin verði meiri en þær 1,5 gráður sem að er stefnt í Parísarsamkomulaginu. Við getum ekki fjögur ár í viðbót af aðgerðarleysi og meðalmennsku ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og VG.
Íslensk stjórnvöld eiga að hafa meiri metnað. Til að verða í fremstu röð í loftslags – og umhverfismálum. Það hefur sjaldan verið jafnmikilvægt að kjósa pólitíska forystu sem setur þessi mál á oddinn. Börnin okkar og börnin þeirra eiga það skilið. Tækifærin okkar eru nefnilega ótal mörg til að ráðast í alvöru aðgerðir í loftslagsmálunum.
Samfylkingin er tilbúin og á laugardaginn verður hægt að kjósa um djarfari, róttækari aðgerðir í loftslagsmálum til framtíðar.
Höfundur er þingkona Samfylkingarinnar í 2. sæti í Reykjavíkurkjördæmi suður.