Lýðræði er aðferð til að skipta um leiðtoga og fulltrúa á löggjafarþing án þess að þurfa að stinga þeim sem fyrir eru í fangelsi, senda í útlegð eða taka af lífi. Til þess að þetta gangi snurðulaust fyrir sig eru settar ákveðnar reglur. Þeir sem sjá um kosningar gera það af samviskusemi og sjá um að það sem er talið upp úr kjörkössunum sé í samræmi við það sem var látið ofan í þá.
Allt þetta er vandlega kveðið á um í lögum og ef þeim er fylgt hafa kjósendur sem frambjóðendur sjaldnast út á framkvæmdina að setja. Þeir sem fá flest atkvæði eru kjörnir, hinir bíða annars færis eða leita sér að öðru starfi.
Lögin eru þó engan veginn nægilegt skilyrði fyrir því að lýðræðislegt stjórnmálakerfi virki, né heldur að allir embættismenn sem koma að framkvæmd kosninga geri það af samviskusemi. Heiðarleiki frambjóðenda og virðing þeirra fyrir lýðræðislegum leikreglum er frumskilyrði þess að kerfið virki.
Það er ekkert í lögum sem bannar þingmönnum að segja skilið við flokk sinn. Það væri heldur ekki eðlilegt að setja slík ákvæði í lög. Kjósendur þurfa þess í stað að treysta á að frambjóðendurnir séu heiðarlegir og beri virðingu fyrir leikreglunum. Í lögum er gert ráð fyrr að þeir sem eru á tilteknum lista hafi samþykkt að vera þar listaðir, en kjósendur eiga kröfur á því þegar þeir greiða atkvæði að viðkomandi ætli sér að öllu óbreyttu að vera í félagi með þeim sem þar eru fyrir. Hið fyrra er staðfest með undirskrift frambjóðandans, en hið síðara ákvarðast af heiðarleika hans.
Birgir Þórarinsson féll á heiðarleikaprófinu. Þingflokkur Sjálfstæðisflokksins sýndi líka að honum er sama um slíkar lýðræðislegar leikreglur.
Fyrirsögn þessarar greinar er vægasta hugtakið sem ég fann og nær yfir háttsemi Birgis Þórarinssonar og þingflokks Sjálfstæðisflokksins.
Höfundur er hagskýrslugerðarmaður.