Kvóti á lyfjakaup er ekki siðlaus

Gylfi Ólafsson
medications.257344_640.jpg
Auglýsing

yfja­kaup hafa verið til umfjöll­unar í tveimur aðskildum frétta­málum upp á síðkast­ið.

Annað þeirra fjallar um ný lyf við lifr­ar­bólgu C. Þau lyf sem nú eru notuð á Íslandi eru fremur léleg, bæði vegna þess lyfin lækna ekki nærri því alla og vegna þess að auka­verk­anir þeirra eru skelfi­legar. Ný lyf sem komið hafa á mark­að­inn á allra síð­ustu árum—og hafa með tak­mörk­unum verið tekin til notk­unar í nágranna­lönd­um—eru nær laus við auka­verk­anir og lækna nær alla sjúk­linga á tólf vik­um. Vanda­málið er að lyfja­fram­leið­and­inn setur afar háan verð­miða á lyf­ið, rúmar tíu millj­ónir króna fyrir með­ferð. Pró­fessor segir höfnun lyfja­kaupa vera for­dæma­lausa og jaðra við að vera hneyksli. Stöð 2 hefur sagt af mál­inu margar vel unnar fréttir.

Hitt málið fjallar almennt um lyf og neit­anir frá Sjúkra­trygg­ingum og Lyfja­greiðslu­nefnd um greiðslu fyrir lyf. Vanda­málið er þar tví­þætt. Ann­ars­vegar eru lyf sem fá höfnun í umfjöllun Lyfja­greiðslu­nefndar eða Sjúkra­trygg­inga og eru þar með ekki notuð að neinu marki. Hins­vegar eru lyf sem þegar er búið að sam­þykkja að ákveð­inn fjöldi sjúk­linga fái, og sá kvóti er búinn. Innan árs eru þannig sumir sjúk­lingar sem fá með­ferð með ákveðnum lyfj­um, og sumir sem fá ekki.

Auglýsing

Í Kast­ljósi var kvóta­kerfið harð­lega gagn­rýnt. Yfir­læknir krabba­meins­deildar LSH sagði til dæm­is: „Ef þessar áætl­anir eru túlk­aðar sem kvóti er það ekki eitt­hvað sem við getum sætt okkur við og gjör­sam­lega sið­laust í raun­inn­i.“

Í þess­ari grein held ég eft­ir­töldu fram:



  1. fjár­skortur í lyfja­kaupum er kom­inn til að vera, og þó yfir honum geti verið skuggi brost­inna vona kemur hann í raun til af góðu


  2. til að takast á við vanda­mál­in, og þar með að taka upp með­ferð við lifr­ar­bólgu C, þarf gegn­sætt og yfir­vegað kerfi, sem meðal ann­ars inni­felur kvóta á lyfja­kaup.




Til þess að geta und­ir­byggt þessar tvær nið­ur­stöður þarf að fara um víðan völl. Þá er gagn­legt að skipta vand­anum í tvennt;



  1. fjár­hæð heild­ar­út­gjalda


  2. ákvarð­anir um hvernig þess­ari fjár­hæð er var­ið.






  1. Fjár­hæð heild­ar­út­gjalda




Fyrri þátt­ur­inn lýtur þannig að því hversu miklu er sam­tals varið til kaupa á lyfj­u­m—og í þessu til­viki hversu miklu er varið til kaupa á dýrum og vand­með­förnum lyfjum — svoköll­uðum S-lyfj­um.

Ríkið hefur marga kosti til að verja fé á góðan hátt. Það getur varið fé til vega­gerð­ar, menn­ing­ar­mála, eða ann­ars­staðar í heil­brigð­is­kerf­inu. Einnig er hægt að fjár­magna kaupin með ýmsum hætti en þó þannig að ekki sé gengið of hart fram í gjald­töku, skatt­heimtu og lán­töku á kostnað næstu kyn­slóða.

Færa má fyrir því marg­vís­leg rök að útgjöld til lyfja­mála ættu að hækka. Það hafa þau einmitt gert á síð­ustu árum eins og með­fylgj­andi mynd sýn­ir. Hún sýnir að bæði í krónum talið og sem hlut­fall af lands­fram­leiðslu hafa útgjöld hækk­að. Árið 2015 lækkar talan að nokkru marki vegna breyt­inga á lyfja­lögum og greiðslu­þátt­töku sjúk­linga. Hér er ekki rými til að ræða greiðslu­þátt­töku sjúk­linga heldur aðal­málið að útgjöld hafa á síð­ustu árum hækk­að.

Screen.Shot.2015.06.09.at.20.18.31

Fyrir þessu eru margar ástæð­ur. Eftir hrun mynd­að­ist upp­safn­aður halli á upp­töku nýrra lyfja. Ný lyf koma sífellt á markað og banka þar með inn á borð heil­brigð­is­yf­ir­valda . Með hverju árinu sem líður þarf heil­brigð­is­kerfið  að þjón­usta eilítið eldri þjóð sem gerir meiri kröfur um með­ferð og þjón­ustu.

Allt er þetta til kostn­að­ar­auka. Nema þar sem lyf lækka kostnað ann­ars­staðar í rík­is­rekstr­in­um. Rammt kveður að þessum þætti í tengslum við þá kyn­slóð gigt­ar­lyfja sem kom­ist hafa í notkun síð­asta ára­tug­inn eða svo. Mörg þeirra eru fok­dýr, en á móti kostn­að­inum kemur að lyfin geta með litlum auka­verk­unum haldið fólki af bótum og á vinnu­mark­aði. Kostn­að­ur­inn sem er bók­færður sem lyfja­kostn­aður eykst, en annar kostn­aður lækk­ar.

Þetta er til­fellið hjá mörgum með lifr­ar­bólgu C. Kostn­aður innan og utan heil­brigð­is­kerf­is­ins lækkar við það að lækna lifr­ar­bólgu hratt og örugg­lega—og þá er ótal­inn per­sónu­legi þátt­ur­inn af því að losna við þján­ing­ar.



  1. Hvaða lyf á að kaupa?




Hvar sem línan er dregin um hversu miklu er varið til lyfja­kaupa standa heil­brigð­is­yf­ir­völd samt alltaf frammi fyrir sama vanda­mál­inu; hvernig á að for­gangs­raða þeim lyfjum og sjúk­lingum innan fjár­hags­rammans?

Áður en haldið er áfram verður að vera óum­deilt að alltaf verði hægt að nota meiri pen­ing en þörf er á. Í fyrsta lagi eru nýju lyfin dýr. Sum kosta meira en hund­rað millj­ónir á ári per sjúk­ling. Ef fjár­heim­ild­irnar eru háar munu lyfja­fyr­ir­tæki sem eiga lyf sem enn eru vernduð af einka­leyfi auð­veld­lega ganga á lagið og snar­hækka verð­ið. Í mörgum til­vikum eru litlar líkur á að lyf virki, en samt lík­ur, og eftir því sem fjár­heim­ildir eru hærri er hægt að veita lyf sem æ ólík­legri eru til að virka. Mörg lyf, sér­stak­lega krabba­meinslyf, lengja líf um nokkrar vikur eða mán­uði og oft er hægt að auka lyfja­með­ferð gegn von um mis­dýr­mæta leng­ingu lífs. Með orðum Krist­jáns Krist­jáns­sonar heim­spek­ings, þá er bóna­sekk­inn bágt að fylla.

Pen­ing­arnir sem not­aðir eru við lyfja­kaup eru allir eins. Kostir lyfja eru hins­vegar mis­mun­andi. Sum lyf lengja líf, önnur halda fólki meira inni á vinnu­mark­aði og af örorku­bót­um, enn önnur minnka þján­ingu og mörg lækka kostnað ann­ars­staðar í heil­brigð­is­kerf­inu. Að bera saman þessa þætti er eins og að bera saman epli og app­el­sín­ur. Því hafa heilsu­hag­fræð­ingar eytt mik­illi orku við að reyna að skapa eina mæli­ein­ingu sem fangar alla þessa þætti, til að hægt sé að setja hana í sam­hengi við kostnað lyfja. Með þessum aðferðum er hægt finna þær með­ferðir sem gera mest gagn fyrir minnstan pen­ing, og færa sig svo niður stig­ann og velja alltaf hag­kvæm­ustu kost­ina þangað til pen­ing­ur­inn er búinn.

Þetta þýðir að margar með­ferðir eru skildar útund­an; for­gangs­röðun þýðir óhjá­kvæm­lega það að sum útgjöld eru sam­þykkt og önnur ekki. Og ef engin form­leg for­gangs­röðun er notuð er það háð til­vilj­un­um, aðgangi að fjöl­miðl­um, eða hrein­lega frekju, hvaða með­ferðir fá nið­ur­greiðslu og hverjar ekki. Í þessu er alltaf fólgin sorg og brostnar von­ir, en af tvennu illu er þó skárra að ein­hver yfir­sýn og yfir­lega liggi að baki ákvörð­un­um.

Það kerfi sem notað er í dag er afar ógegn­sætt, stöð­ugum breyt­ingum háð og ekki alltaf farið eftir þeim ramma sem lög­gjaf­inn set­ur. Um þetta skrif­aði ég skýrslu á síð­asta ári að beiðni Frum­taka. Vilji lög­gjafans stendur til þess að tryggja að til sé kerfi sem heldur útgjöldum til lyfja­mála innan fjár­heim­ilda, sér til þess að lyf  séu verð­lögð á sann­gjarnan hátt og að lyf séu keypt þar sem hver króna gerir sem mest gagn.

Kvótar eru nauð­syn­legir



Til þess að halda útgjöldum innan fjár­heim­ilda, eru gerðar áætl­anir um það hversu margir sjúk­lingar eru taldir þurfa lyf­ið. Það hefur gerst ítrekað að þegar lyf sem talin eru nýt­ast örfáum kemst í notk­un, birt­ast mun fleiri sjúk­lingar sem þurfa lyf­ið. Þegar það ger­ist er ekk­ert óeðli­legt að fjár­veit­ing­ar­valdið staldri við, tryggi að ekki sé farið fram úr upp­haf­legu áætl­un­unum og end­ur­meti stöð­una. Ef það er ekki gert verður til kapp­hlaup innan kerf­is­ins, þar sem þeir sem eru fyrstir fá lyf, en svo er alger­lega ófyr­ir­sjá­an­legt hvaða sjúk­lingar standa eftir lyfja­lausir þegar pen­ing­ur­inn er búinn.

Ef yfir­völd setja kvóta, geta þau nýtt hann til að knýja fram afslætti frá lyfja­fyr­ir­tækjum — ef upp­sett verð og magn er alltaf greitt óháð aðstæðum er ansi stutt í að lyfja­fyr­ir­tækin gangi á lag­ið. Auk þess stuðla slíkir kvótar að því að lyfjum sé ekki smyglað inn á fjár­veit­ingar með því að segja ein­ungis örfáa sjúk­linga þurfa lyfið þegar fjöldi þeirra er umtals­vert meiri. Að síð­ustu má nefna að kvóta­setn­ing innan lyfja­flokka skapar hvata fyrir lækna til að velja þá sjúk­linga sem mest gagn hafa af lyfj­un­um. Slík for­gangs­röðun þarf því miður oft að fara fram.

Þetta kvóta­kerfi er á engan hátt eins­dæmi. Nær allir þættir rík­is­rekstr­ar­ins eru mark­aðir af kvótum í einni eða annarri mynd. Fjöldi rúma á sjúkra­húsum og fjöldi heil­brigð­is­starfs­fólks marka hversu margir geta fengið með­ferð. Biðlistar eru víða í aðgerðir og með­ferðir ýmiss­kon­ar. Þetta eru ekk­ert annað en kvót­ar. Á sama hátt ákveður ríkið hversu marga kíló­metra má mal­bika, hversu mikið náms­efni er hægt að prenta og hversu margir kom­ast í ákveðnar náms­brautir í háskóla. Þó aðstæður séu ef til vill aðr­ar, er erfitt að sjá að þar sé eðl­is­munur og þar með að einn kvóti sé sið­laus og annar ekki.

Það væri hins­vegar sið­laust ef í gildi væri kerfi þar sem þeir sem greiðastan aðgang hafa að vald­höf­um, þeir sem bestan aðgang hafa að fjöl­miðlum og þeir sem eru með áhuga­verð­ustu sjúk­dómana fengju með­ferð fyrst, á kostnað þeirra málsvara­lausu sem ekki hafa aðgang að fjöl­miðl­um.

Kvóta­kerfi for­senda með­ferðar við lifr­ar­bólgu C



Kvóta­setn­ing er hrein­lega for­senda þess að hægt sé að taka upp nýjar með­ferðir yfir höf­uð. Tökum dæmi. Nokkuð er á reiki hversu margir gætu nýtt sér nýju með­ferð­ina við lifr­ar­bólgu C, en nefnd hefur verið talan 1000, og er kostn­aður við með­ferð 10 millj­ón­ir. Ef lyfið er þannig sam­þykkt án nokk­urra kvóta, fengi heil­brigð­is­kerfið á einu bretti leyfi til að verja 10 millj­örðum króna til með­ferð­ar. Öllum má vera ljóst að yfir­völd munu aldrei veita slíka heim­ild. Þá hlýtur kvóta­setn­ing að vera skárri kost­ur, svo þeim verst stöddu standi að minnsta kosti til boða að fá með­ferð.

Með hlið­sjón af þessu skar­ast hags­munir í mál­unum tveimur sem ég nefndi í upp­hafi. Ef ekki er notað kvóta­kerfi er ljóst að ekki er minnsti séns á að lyfin við lifr­ar­bólgu C verði tekin inn á lista sam­þykktra lyfja. Með öðrum orð­um: ef krabba­meins­lækn­arnir fá sínu fram og kvóta­setn­ing verður bönn­uð, munu lifr­ar­lækn­arnir aldrei fá nýju lyfin í lækna­tösk­una sína.

Lausnin



Lausnin er ekki ein­föld, en hún felst meðal ann­ars í því að færa ákvarð­ana­töku upp á yfir­borð­ið, þar sem sjón­ar­mið fjár­hags og klínískra þátta eru vegin saman af rósemd og fyrir opnum tjöld­um. Núver­andi kerfið er því miður fremur ógegn­sætt og óskil­virkt.

Um það er einnig nokkur óánægja. Læknar eru ósáttir við margar ákvarð­anir sem teknar eru hjá Lyfja­greiðslu­nefnd og Sjúkra­trygg­ing­um, og dæmi eru um að með­ferðir sem fá synjun hjá þessum aðilum séu teknar upp hvort sem er og greiddar með pen­ingum úr öðrum fjár­laga­lið­um. Slík staða er óheppi­leg og að lokum á ábyrgð ráð­herra að sjá til að sæmi­leg sátt sé um kerfið og farið eftir þeim ákvörð­unum sem þar eru tekn­ar.

Ég er fylgj­andi því að útgjöld til lyfja­kaupa verði auk­in. Sama hversu miklu meira fé er varið mun hins­vegar bóna­sekk­ur­inn aldrei fyll­ast og vanda­málin verða svip­uð; sumir munu ekki fá lyf sem gætu gert þeim gott. Til að hafa stjórn á þessu eru kvótar lík­lega nauð­syn­legt stjórn­tæki. Þetta ástand er komið til að vera. Þess vegna mik­il­vægt að tryggja að ákvarð­ana­taka sé gegn­sæ, yfir­veguð og miði að því að gagn­leg­ustu lyfin séu keypt, en hinum sleppt. Þar eru heilsu­hag­fræði­leg sjón­ar­mið verð­mæt.

Þegar yfir­völd hætta eða neita að greiða lyf er það þung­bær ákvörðun fyrir lækna og heil­brigð­is­yf­ir­völd og jafnan áfall fyrir sjúk­ling­inn. Þá getur verið bót í máli að minn­ast þess að ástæðan fyrir fjár­skort­inum er sú að sífellt koma fram nýjar og betri aðferðir til að bæta líf og líð­an. Sá á kvöl­ina sem á völ­ina.

Höf­undur er heilsu­hag­fræð­ing­ur. Greinin er skrifuð að eigin frum­kvæði og er ekki greidd af nein­um. Það er þó vert að taka fram að höf­undur hefur sinnt ráð­gjöf gegn greiðslu fyrir ýmsa innan lands og utan, þ.á.m. lyfja­fram­leið­end­ur, lyfja­inn­flytj­end­ur, sjúk­linga­sam­tök og heil­brigð­is­yf­ir­völd.

 

 

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Þorbjörn Guðmundsson
Er íslenska velferðarkerfið ekki lengur griðarstaður þeirra sem minnst hafa?
Kjarninn 11. janúar 2023
Takk fyrir og sjáumst á nýjum miðli á föstudag
Bréf frá ritstjóra Kjarnans vegna sameiningar við Stundina og þess að nýr framsækinn fréttamiðill verður til í lok viku.
Kjarninn 11. janúar 2023
Sverrir Albertsson
Vatn á myllu kölska
Kjarninn 11. janúar 2023
Lögreglumenn standa vörð um gröfurnar í námunni.
Berjast fyrir þorpi á barmi hengiflugs
Lítið þorp í Rínarlöndum Þýskalands er allt komið í eigu kolarisa. Fyrirtækið ætlar sér að mylja niður húsin og stækka kolanámu sína sem þegar þekur um 80 ferkílómetra. Þetta þykir mörgum skjóta skökku við í heimi sem berst við loftslagsbreytingar.
Kjarninn 10. janúar 2023
Arnþrúður Karlsdóttir, útvarpsstjóri Útvarps Sögu.
Útvarp Saga telur fjölmiðlastyrki skapa tortryggni og bjóða upp á frændhygli
Fjögur fjölmiðlafyrirtæki hafa til þessa skilað inn umsögnum um frumvarp Lilju Alfreðsdóttur menningar- og viðskiptaráðherra, sem mun að óbreyttu framlengja núverandi styrkjakerfi til fjölmiðla.
Kjarninn 10. janúar 2023
Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar.
Viðræðum slitið og Efling undirbýr verkfallsaðgerðir
Samtök atvinnulífsins hafa hafnað gagntilboði Eflingar um skammtímakjarasamning, sem kvað á um meiri launahækkanir en SA hefur samið um við aðra hópa á almennum vinnumarkaði til þessa. Efling undirbýr nú verkfallsaðgerðir.
Kjarninn 10. janúar 2023
Palestínski fáninn á lofti í mótmælum í Reykjavík. Ísraelskri lögreglu hefur nú verið fyrirskipað að rífa fánann niður á almannafæri.
Fánabann og refsiaðgerðir í Palestínu í kjölfar niðurstöðu Sameinuðu þjóðanna
Degi eftir að ný ríkisstjórn tók við völdum í Ísrael samþykkti allsherjarþing Sþ að fela Alþjóðadómstólnum í Haag að meta lögmæti hernáms Ísraelsríkis á Vesturbakkanum. Síðan þá hefur stjórnin gripið til refsiaðgerða og nú síðast fánabanns.
Kjarninn 10. janúar 2023
Gríðarlega mikil dæling á sandi á sér stað í Landeyjahöfn á hverju ári. Markarfljótið ber hundruð þúsunda tonna af jarðefnum út í sjó og það á til að safnast upp í mynni hafnarinnar.
Vilja sjúga sand af hafsbotni í stórum stíl og flytja út
Eftirspurn eftir íslenskum jarðefnum er gríðarleg ef marka má framkomin áform erlendra stórfyrirtækja um nýtingu þeirra. Vinsældir hafnarinnar í Þorlákshöfn eru samhliða mjög miklar.
Kjarninn 10. janúar 2023
Meira úr sama flokkiÁlit
None