Ef þið eigið leið um kirkjugarð þann 24. október og heyrið djúpa skruðninga, þá viljum við að þið vitið að það er ekkert að óttast. Þetta eru bara konurnar sem gengu út á kvennafrídaginn 1975 og hafa síðan þá yfirgefið vistarverur þessa heims, að snúa sér í gröfinni yfir því að hingað séum við komin, 47 árum síðar, og launamunur kynjanna sé enn til staðar.
Það er kannski engin ástæða til að óttast, en það er ástæða til að vera reið. Jafnvel bálreið. Það er óásættanlegt hve hægt gengur að uppræta kynbundið launamisrétti. Hið sama má segja um aðrar áskoranir í jafnréttismálum, eins og ójafna umönnunarábyrgð kynjanna og heilsubrest kvenna tengdan sérstöku álagi í starfi og einkalífi, sem og kynjaðri hlutdrægni í heilbrigðiskerfinu þar sem ákveðnir sjúkdómar kvenna mæta algerum afgangi. Þessi vandamál verða ekki slitin úr samhengi við hvert annað - samfélag sem skammtar sjálfu sér ríflegan afslátt þegar kemur að launasetningu kvennastétta beitir sama skeytingarleysi þegar að kemur að því að jafna umönnunarábyrgð kynjanna og veita fullnægjandi heilbrigðisþjónustu til fólks af öllum kynjum, svo nokkuð sé nefnt. Launamisréttið er beintengt, ýtir undir og viðheldur öðru misrétti og það er enn ein ástæðan til að uppræta það.
Kynbundið launamisrétti má rekja að mestu leyti til kynbundinnar skiptingar í störf og atvinnugreinar. Í jafnlaunaákvæði jafnréttislaga, sem tók í gildi árið 2021, er kveðið á um að konum, körlum og fólki með hlutlausa skráningu kyns skulu greidd laun og njóta sömu kjara fyrir sömu eða jafn verðmæt störf. Jafnvirðisnálgun jafnlaunaákvæðisins felur í sér þörf á að leiðrétta virðismat hefðbundinna kvennastarfa. Við bindum miklar vonir við störf aðgerðahóps um launajafnrétti og jafnrétti á vinnumarkaði og að lagðar verði fram lausnir sem bindi enda á hið vandræðalega tímabil grasserandi launamunar kynja í jafnréttisparadísinni Íslandi.
Við í félaginu Femínísk fjármál höfum áhyggjur af fjármögnun þeirra aðgerða sem óhjákvæmilegt mun verða að ráðast í ef leiðrétta á virðismat kvennastarfa. Það hefði verið ákjósanlegt að sjá þess ítarlegri merki að stjórnvöld undirbúi þessa leiðréttingu með tilliti til tekjuöflunar, líkt og við bendum á umsögn okkar um fjárlagafrumvarp fyrir árið 2023. Fyrirhyggjuleysi getur skapað kerfislæga áhættu fyrir ríkissjóð. Kostnaðurinn vegna afturvirkrar launaleiðréttingar ef til dómsmáls kæmi, sem ríkið ætti á hættu að tapa, gæti numið milljarða króna fyrir ríkissjóð sbr. alþjóðlega þróun og dómaframkvæmd. Á Nýja-Sjálandi leiddi dómsmál árið 2013 til 14-49% launaleiðréttingu heillar starfsstéttar og nam kostnaður u.þ.b. 180 ma. kr. Það er ekki aðeins réttlætismál að ráðast strax í aðgerðir til að leiðrétta verðmætamat kvennastarfa, heldur einnig skynsamleg efnahagsstjórnun að atvinnurekendur hætti að veita sjálfum sér afslátt við launasetningu kvenna eins og viðgengist hefur áratugum saman.
Það er óskynsamlegt og ósjálfbært að fjárfesta í menntun lækna, hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða en hlúa svo illa að stéttunum að fólkið sem þar starfar treystir sér ekki til að sinna störfum vegna starfsaðstæðna, líkamlegs og andlegs álags og streitu. Í október 1975 gengu konur út, en síðustu misseri höfum við líka séð konur ganga út úr störfum í heilbrigðiskerfinu - og ekki koma aftur.
Óviðunandi aðstæður á vinnumarkaði, auk umönnunarábyrgðar og kynbundins ofbeldis, eru meðal þeirra áhrifaþátta sem hugsanlega skýra mikla fjölgun örorkulífeyrisþega á meðal kvenna 50–66 ára. Á sama tíma og stjórnvöld þurfa að bregðast við áskorunum vegna öldrunar þjóðarinnar, m.a. því að útlit er fyrir mikilli hlutfallslegri fjölgun fólks á eftirlaunaaldri og hlutfallslega minni fjölgun meðal fólks á vinnumarkaði, er verulega óskynsamlegt að fjárfesta ekki í aðgerðum sem geta komið í veg fyrir brotthvarf kvenna af vinnumarkaði langt fyrir aldur fram. Við þurfum á öllum að halda. Þrátt fyrir að aðgerðir til að bregðast við þessu geti verið kostnaðarsamar þá munu þær ekki aðeins leiða til jákvæðra breytinga fyrir stórar kvennastéttir, heldur til lengri tíma einnig til jákvæðra efnahagslegra áhrifa, s.s. aukinna tekna ríkissjóðs vegna aukinnar atvinnuþátttöku og minni útgjalda vegna almannatrygginga og heilbrigðisþjónustu.
Femínísk fjármál hafa bent á að til að ráðast í aðgerðir sem hafa mikið gildi fyrir jafnrétti og samfélagslega velferð, verður fjármögnun að vera fullnægjandi. Í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2023 boðar ríkisstjórnin í reynd niðurskurð næstu árin með áherslu á að stemmt verði stigu við auknum eða nýjum útgjöldum og aðhaldskröfum sem þar koma fram. Ekki sjást merki tekjuöflunar sem leiðtogar tveggja ríkisstjórnarflokka hafa talað fyrir, svo sem hvalrekaskattur, hækkun veiðigjalda og hækkun skatta á fjármagnstekjur. Það er nokkuð sérstakt að stefna forystufólks ríkisstjórnarinnar sé svo fjarverandi í frumvarpinu og að aðal styrking á tekjuhlið frumvarpsins sé hækkun skatta á neyslu einstaklinga, sem óhjákvæmilega mun koma verr við tekjulægri hópa. Stjórnvöld verða að taka verkefnið alvarlega, beita forgangsröðun og sanngjarnri tekjuöflun til að spara sig ekki til tjóns í jafnréttis- og velferðarmálum.
Höfundar eru stjórnarkonur Femínískra fjármála.