Í nýútkominni skýrslu Fjölmenningarseturs um tölfræðilegar upplýsingar um erlenda ríkisborgara og innflytjendur á Íslandi er að finna áhugaverðar upplýsingar um íslenskt samfélag og þróun þess s.l. tíu ár. Skýrslan sýnir meðal annar að innflytjendum á Íslandi fer nú fjölgandi eftir að hafa fækkað nokkuð á eftirhrunárunum og töldu þeir í ársbyrjun 22. 744 einstaklinga. 30.979 ef önnur kynslóð er meðtalin. Önnur kynslóð er skilgreind sem börn innflytjenda sem fædd eru á Íslandi af foreldrum sem báðir eru innflytjendur. Um 9.5% íbúa á Íslandi teljast þannig til innflytjenda af fyrstu og annarri kynslóð.
Eitt af því sem vekur athygli í skýrslunni er að fækkun innflytjenda á Íslandi varð minni í kjölfar hrunsins en margir ætla. Fjöldinn var 24.379 þegar mest var í ársbyrjun 2009 en tæplega 21.000 í ársbyrjun 2012 þegar fæst var.
Tölfræði
Í skýrslu Fjölmenningarseturs er einnig að finna tölfræðilegar upplýsingar sem sýna að þó svo að innflytjendum hafi fækkað minna eftir hrund en margir héldu hefur samsetning hópsins breyst verulega. Til að byrja með voru flestir innflytjendur á Íslandi karlmenn sem komu til Íslands til að vinna, farandverkamenn. Árið 2008 voru karlmenn í hópi innflytjenda um 5000 einstaklingum fleiri en konur, sex árum síðar er kynjahlutfallið nánast jafnt. Tölurnar sýna líka mikla fjölgun innflytjendabarna á Íslandi. Á tíu ára tímabili, 2004 – 2014, fjölgaði innflytjendabörnum á leikskólum á Íslandi um 52% og börnum með annað móðurmál en íslensku í grunnskólum landsins fjölgaði um 49%. Þá eru flest þeirra barna sem teljast til annarar kynslóðar fædd árið 2009 eða síðar –eftir hrun.
Ein skýring á þessu er sú, að þegar þeim störfum sem farandverkamenn sinntu fækkaði mikið í kjölfar efnahagskreppunnar 2008 héldu margir verkamannanna á nýjar slóðir og til nýrra starfa. Þeir sem eftir urðu létu margir hverjir senda eftir fjölskyldum sínum, enda gengi og aðrar aðstæður á fjármálamarkaði þá með þeim hætti að erfitt var að senda peninga heim til að sjá fyrir fjölskyldunni, einsog og margir þeirra höfðu gert. Önnur skýring er sú að hér höfðu innflytjendur verið partur af íslenskum vinnumarkaði árum saman og unnið sér inn réttindi, t.d. til atvinnuleysisbóta, sem þeir nutu hvorki í heimalandinu né annar staðar. Þá sat hluti innflytjenda á Íslandi eftir í eins konar eignarfjötrum eftir hrun, til dæmis með fasteignir eða bíla sem ekki gekk að selja.
Það er því ljóst að eftir 2008 urðu málefni innflytjenda enn meiri áskorun en á uppgangsárunum sem leiddu til hrunsins. Fjölskyldur er þjónustuþyngri hópur en verkamenn sem eru þurftarlitlir í þeim efnum. Það var því afar óhepplileg þróun að eftir því sem áskorununum fjölgaði minnkaði fjármagn og áhersla á að byggja upp á Íslandi farsælt fjölmenningarsamfélag þar sem íbúar njóta jafnra tækifæra og lífskjara. Stjórnsýslan á báðum stjórnsýslustigum gaf sér að svo margir innflytjendur hefðu snúið aftur til síns heima að réttlætanlegt væri að draga verulega úr fjármagni og vinnu að málaflokknum. Sem var kolrangt mat. Síðan hefur ekki tekist að snúa þeirri óheillaþróun við og málefni innflytjenda hafa ekki verið í brennidepli á Íslandi einsog þau hefðu þurft að vera á þessum mótunarárum hins íslenska fjölmenningarsamfélags.
Byrjendamistök fjölmenningar
Á Íslandi hefur verið tækfiæri til þess að læra af því sem við getum kallað byrjendamistök fjölmenningarinnar. En blikur eru á lofti um að við séum að glutra tækifærinu niður og endurtaka mistök Evrópu nánast óbreytt: hverfi þar sem meira en fjórðungur íbúa er innflytjendur er að myndast í Breiðholti, rannsóknir benda til þess að innflytjendur hafi að meðal tali um þriðjungi lægri laun en Íslendingar, atvinnuleysi meðal innflytjenda er mun meira en meðal innfæddra, innflytjendum sem hljóta refsidóma fjölgar hlutfallslega, önnur kynslóð innflytjenda er ólíklegri til þess að mennta sig. Í stuttu máli sagt; innflytjendur á Íslandi njóta lakari lífskjara og færri tækifæra en almennt gerist meðal innfæddra og félagsleg vandamál virðast fara vaxandi í þeirra hópi. Þá bendir ýmislegt einnig til þess að fordómar í garð innflytjenda fari vaxandi (sjá t.d. skýrslu Rauða krossins á Íslandi – Hvar þrengir að?).
Það er villandi að ræða um þetta sem innflytjendavanda, þó vissulega séu margar áskoranir sem við stöndum frammi fyrir að leysa þegar málefni innflytjenda eru annars vegar. Nær væri að lýsa því sem við erum gjörn á að lýsa sem vanda tengt nnflytjendum sem nýrri stéttskiptingu sem grundvallast á uppruna og/eða þjóðerni. Stéttskipting er vandi samfélagsins alls, ekki bara þeirrar stéttar sem höllustum fæti stendur. Sömu þróun má rekja í öðrum Evrópulöndum þar sem vandinn hefur undið upp á sig og má segja að sé nú kominn úr böndunum þar sem ofbeldi, átök og sundrung er því miður daglegt brauð.
Ein ástæða þess að okkur hefur ekki lánast að læra af því sem miður fór í Evrópu er að við höfum ekki farið í djúpa hugmyndafræðilega samræðu um hvert við stefnum með fjölmenningarsamfélagið, áskoranirnar sem við stöndum frammi fyrir og hvernig við getum raunverulega stýrt þróuninni til að auka líkurnar á því að við náum settu markmiði. Í Evrópu „bara gerðist það“ að fjölmenningarprójektið fór úr böndunum sem leiddi til átaka og sundrungar. Á Íslandi höfum við sem áður segir tækifæri til að nýta okkur rannskónir og greiningu á því sem miður fór (fræðimenn hafa legið yfir þeim rannsóknum í að minnsta kosti tuttugu ár) og einbeita okkur að því að gera hlutina öðruvísi, beita því sem við getum kallað fjölbreytileikastjórnun til þess að vinna jafnóðum úr þeim málum sem koma upp og fyrirbyggja að vandamálin vaxi okkur yfir höfuð.
Nýjar lausnir krefjast samtals og samvinnu
Því miður erum við ekki að nýta þetta tækifæri nógu vel, einsog tölfræðin úr skýrslu Fjölmenningarseturs sýnir. Í stað þess að marka okkur skýra sýn um hvert við stefnum erum við of mikið að bregðast við vanda og þá gjarnan með því að nýta okkur aðferðir Evrópu. Auðvitað getum við ýmislegt sótt til Evrópu, ekki síst lærdóm af því sem miður fór. En við verðum að hafa hugfast að þær aðferðir sem hafa þróast í Evrópu eru viðbrögð við vanda sem hefur byggst upp á löngum tíma (saga fjölmenningar í Evrópu hófst eftir seinni heimsstyrjöldina) og þarfnast því allt annarar nálgunar en verkefni fjölmenningar á Íslandi sem eru á byrjunarstigi (varð knýjandi viðfangsefni á fyrsta áratug 21. aldarinnar). Ég ítreka að við getum margt lært af Evrópu, en með því að beita þessari aðferðarfræði erum við því miður allt eins líkleg til þess að flytja inn vanda einsog að koma í veg fyrir hann. Í stað þess að einbeita okkur að því að málefni innflytjenda verði ekki vandamál erum við þannig að beina athyglinni að því að takast á við innflytjendavandann þegar hann hefur þróast og gefum okkur að sömu áskoranir hlaðist upp á Íslandi og Evrópa glímir nú við. Sem er alls ekki sjálfgefið.
Ein ástæða þess að við á Íslandi erum að beita þessari takmörkuðu nálgun, sem kemur í veg fyrir að við nýtum okkur fyllilega reynslu annarra landa er sú að sjónarhornið sem höfum á málefni innflytjenda er of þröngt og samvinnu skortir, ekki síst við innflytjendur sjálfa. Ef okkur á að takast nýta tækifærið til fulls verðum við að nálgast fjölmenningu bæði sem hugmyndafræðilegt viðfangsefni og praktískt úrlausnarefni á sviði stjórnsýslu og samfélags. Þar skiptir sköpum að efla samvinnu og samræðu, finna skapandi lausnir í einlægri og eiginlegri samvinnu við þá sem lifa hinn fjölmenningarlega veruleika.
Höfundur er heimspekingur.