Í landi tækifæranna er hægt að kaupa hlutabréf á 20.000 kr. Og selja þau strax á 456.000.000 kr.
Og er virðist, borga litla sem enga skatta.
Það er vandlifað í landi tækifæranna fyrir venjulegt fólk en ekki fyrir forréttindapésa sem fá ótrúleg tækifæri í landi sem tækifærum er almennt ekki dreift til almennings.
En hvernig verða tækifærin til?
Ef þú vilt vita meira þá skaltu ná þér í kaffibolla því það er aldrei að vita nema tækifærin fari að streyma inn.
Grundvallaratriðið í þessu er að vera vel tengdur í pólitík og viðskiptalífinu þó stundum sé erfitt að greina muninn á þessu tvennu.
Svo þarftu almenningshlutafélag, t.d. í eigu lífeyrissjóða, sem er tilbúið að borga yfirverð fyrir hlutabréf í félagi sem þú tengist (ekki endilega eigandi) en hefur milligöngu um að selja „viðskiptahugmynd” fyrir. Ekki skemmir fyrir ef þú þekkir einhvern eða tengist einhverjum í almenningshlutafélaginu t.d. pólitískum flokksböndum.
Síðan eru þóknanir ákveðnar fyrir viðskiptin, á bakvið tjöldin, og því hærra verð sem fæst því hærri verður þóknunin til þín.
Þóknanir eða sölulaun eru virðisaukaskattskyldar og til að losna við virðisaukaskattinn er tilvalið að búa til sýndarviðskipti með hlutabréf og búa þannig til fáránlegan hagnað. Og, er virðist, borga hvorki virðisaukaskattinn eða skatta af hagnaði hlutabréfaviðskiptanna.
Árni Helgason er starfandi lögmaður og stjórnarformaður Lindarvatns. Árni var áður varaformaður Heimdallar og framkvæmdastjóri þingflokks Sjálfstæðismanna.
Árni segir um samfélagsmiðla:
„Lögmálin í þessum nýja veruleika eru að gagnrýni og reiði flýtur ofan á, sópar upp lækum og deilingum, en langloka um að staðan sé nú almennt góð drukknar í hávaðanum, þykir flöt og leiðinleg. Í dag á sæmilega reiður maður á Internetinu ágætis möguleika á að rata í fyrirsagnir netmiðlanna, sé hann bara nógu stóryrtur.
Sá sem ætlar að benda á samhengið – jú, það er vissulega ýmislegt sem má bæta en í það heila er staðan hins vegar mjög góð – er bara hluti af vandamálinu, skilur ekki umræðuna og er ekki með á nótunum.”
En förum aðeins yfir þátt Árna, rödd skynseminnar, í skólabókardæmi um hvernig réttir menn á réttum stað komast yfir mikla fjármuni, í landi tækifæranna, landi þar sem allt gengur svona blússandi vel.
Árni Helgason er eigandi í félagi sem heitir MB2015 ehf.
Í efnahagsreikningi MB2015 ehf. árið 2015 kemur fram að félagið átti engin hlutabréf í byrjun árs og engin hlutabréf í lok árs. Þá segir í skýringum að félagið hafi keypt hlutabréf fyrir 20.000 kr. á árinu 2015 og selt fyrir 456.466.000 kr. á árinu.
Málið snýst um Icelandair, og uppbyggingu á Landssímareitnum, sem keypti hlut í Lindarvatni á tæpa tvo milljarða árið 2015. Icelandair er búið að afskrifa fjárfestinguna að mestu leyti en hefur á sama tíma veitt vel á annan milljarð í neyðarlán til að halda því gangandi. Hótelið átti að opna árið 2017 en framkvæmdir standa enn yfir og ekki liggur fyrir hvenær verklok verða.
HVERT FÓRU MILLJÓNIRNAR 1900 sem Icelandair greiddi fyrir 50% hlut í Lindarvatni?
1.Á síðustu misserum hef ég vakið athygli á ýmsum fléttum úr íslensku viðskiptalífi þar sem tilteknir einstaklingar eða hópur einstaklinga virðast hafa efnast gríðarlega á viðskiptum við félög sem eru í eigu almennings.
2. Í lok júlí 2020 birti ég á Kjarnanum grein sem ég kallaði Staðreyndir og spurningar um Icelandair, Landssímareitinn og Lindarvatn ehf. Áður hafði ég m.a. birt stutta samantekt um sama efni sem ég kallaði Brask og brall á Landssímareitt.
3. Í samantektinni vakti ég athygli á því að birtir ársreikningar sýna hvernig fyrirsvarsmenn Icelandair Group tóku ákvörðun á árinu 2015 um að kaupa 50% á hlut í Lindarvatni ehf. á um 1900 milljónir króna.
4. Sú fjárfesting vakti athygli mína þar sem um 8 mánuðum áður, þ.e. í júlí 2014, hafði seljandi keypt 100% hlut í sama félagi á um 930 milljónir króna.
5. Með öðrum orðum þá var Icelandair tilbúið að greiða 1900 milljónir fyrir 50% hlut í félagi og verðmat þannig Lindarvatn á um 3800 milljónir. Í þessum viðskiptum jókst verðmæti Lindarvatns úr 930 milljónum króna í árslok 2014 í um 3800 milljónir í ágúst 2015.
6. Í ársreikningi seljanda, Dalsnes ehf., fyrir árið 2015 bókfærði seljandi söluhagnað hlutabréfa upp á 1000 milljónir króna fyrir 50% eignarhluta á árinu 2015.
7. Í samantektinni vakti ég athygli á því að engar skýringar væru á því af hverju hagnaður Dalsnes er „aðeins“ 1000 milljónir króna af sölunni en ekki 1900 milljónir. Í sama ársreikningi Dalsness hækkaði bókfært verðmæti 50% hlutarins í Lindarvatni í um 854 milljónir króna. Eftir stendur, hvert fór mismunurinn eða um 900 milljónir króna?
8. Fyrirsvarsmenn Lindarvatns hafa ekki svarað neinum af þeim spurningum sem ég setti fram í grein minni. Þá hafa fyrirsvarsmenn Lindarvatns hvergi bent á rangfærslur í samantektinni og framkvæmdastjóri Lindarvatns, Jóhannes Stefánsson, hefur ekki uppfært færslu sína á Facebook síðu sinni.
9. Þá liggja engar upplýsingar fyrir um að þessi viðskipti hafi verið skoðuð af innri endurskoðendum neinna þeirra aðila sem ég tilgreindi í fyrri samantekt minni. Til dæmis hefur enginn hjá Icelandair útskýrt hver tók ákvörðun um fjárfestinguna? Hvaða Excel skjal hafi verið lagt til grundvallar við ákvarðanatökuna og hver hafi útbúið það skjal?
10. Þannig vekja viðskiptin sjálf upp margar spurningar, bæði hvað varðar aðkomu þáverandi stjórnenda Icelandair að ákvörðun um fjárfestingu í Lindarvatni.
11. Á það ekki síst við nú þar sem á árinu 2015 var formaður stjórnar Lindarvatns sá sami og nýlega fékk verðlaun sem viðskiptamaður ársins af Fréttablaðinu, á sama ári og hann sannfærði ríkisstjórn og meirihluta alþingis um að veita því fyrirtæki sem hann nú veitir forstöðu neyðarábyrgð frá skattgreiðendum á lán frá bönkum í ríkiseigu. Fyrir það var hann kjörinn viðskiptamaður ársins af völdum álitsgjöfum. Við hljótum öll að vera sammála um að rekstur félagsins fari að braggast og gangi vel, þannig að ekki reyni á ríkisábyrgð skattgreiðenda.
12. Frá því að samantektin birtist hef ég haldið áfram gagnaöflun um viðskiptin. Hefur það hjálpað að aðgangur að ársreikningum er nú endurgjaldslaus hjá fyrirtækjaskrá Ríkisskattstjóra.
13. Við skoðunina hef ég spurt mig þessarar spurningar: Hvert fóru þessar 1900 milljónir króna sem Icelandair greiddi Dalsnesi umfram 8 mánaða gamalt markaðsverð fyrir 50% hlut? Hagnaðist Ólafur Björnsson sjálfur, í gegnum félag sitt Dalsnes, eða nutu aðrir óútskýrðs ábata í kjölfar viðskiptanna?
Bandamenn
14. Við skoðun opinberra gagna sést að á hluthafafundi 3. september 2015, eftir kaup Icelandair á 50% hlut í félaginu, var kosin ný stjórn í Lindarvatni og þar koma ótengdir aðilar inn í stjórn félagsins, þ.e. Árni Helgason, Haukur Guðmundsson og Ari Guðjónsson. Árni er í dag formaður stjórnar félagsins og Ari varamaður í stjórn. Þá tekur Elín Ólafsdóttir síðar sæti sem varamaður í stjórn félagsins.
15. Árni Helgason er starfandi lögmaður. Árni var áður varaformaður Heimdallar og framkvæmdastjóri þingflokks Sjálfstæðismanna. Ari Guðjónsson er nú yfirlögfræðingur Icelandair Group. Elín Ólafsdóttir er fjármálastjóri Dalsnes ehf.
16. Við uppflettingu í opinberum gögnum má finna upplýsingar um félagið MB2015 ehf. Félagið var í eigu félagsins 061319 ehf. (50%), Bandamanns ehf. (25%) og Árna Helgasonar (25%). Bandamenn er svo 100% í eigu Árna Helgasonar.
17. 061319 ehf. er í eigu Hildar Gunnlaugsdóttur (100%). Hildur er eiginkona Arnars Sölvasonar fasteignasala. Arnar er stjórnarmaður í 061319 ehf.
18. Félagið MB2015 ehf. starfar við eignaumsýslu. (Félagið MB2015 ehf. hét á árinu 2015 FS53 ehf. Þá var félagið 100% í eigu Lágafellsbygginga ehf. Lágafellsbyggingar ehf. er svo í eigu HGN ehf., Gilá ehf., Bandamanns, Sverris Pálmasonar og Jóhannesar Árnason. Enginn rekstur virðist í félaginu árið 2014. Skýrsla stjórnar í ársreikningi Lágafellsbygginga er undirrituð af Árna Helgasyni og Ólafi Björnssyni. Tilgangur félagsins er að vinna að skipulagi Lágafellslandsins með það að markmiði að selja það sem byggingarlóðir. Engin skýring er af hverju Lágafellsland seldi hluti í MG2015 til núverandi hluthafa á árinu 2015).
Í ársreikningi fyrir árið 2015 kemur fram að félagið hafi hagnast um 415 m.kr. á árinu. Í rekstrarreikningi er gefin sú skýring að félagið hafi hagnast á sölu hlutabréfa um 412 m.kr. á árinu.
Í efnahagsreikningi kemur fram að félagið átti engin hlutabréf í byrjun árs og engin hlutabréf í lok árs. Þá segir í skýringum að félagið hafi keypt hlutabréf fyrir 20.000 kr. á árinu 2015 og selt fyrir 456.466.000 kr. á árinu.
Á sama ári keypti félagið MB2015 ehf., sem er í 50% eigu stjórnarmanns í Lindarvatni og 50% eigu fasteignasala sem er í samstarfi með Ólafi Björnssyni, eiganda Dalsnet, þannig hluti/hlutabréf á 20.000 kr. og seldi sömu hluti/hlutabréf á sama ári fyrir 456.000.000 kr.
Er von að maður spyrji hvernig hægt sé að komast í svoleiðis díl?
Árið 2016 var greidd arðgreiðsla upp á 200 m.kr. til hluthafa og ársreikningur 2017 gefur til kynna arðgreiðslu upp a 240 m.kr. til hluthafa MB2015 ehf.
Þannig hafa raunverulegir hluthafar MB2015, þ.e. stjórnarmaðurinn Árni Helgason og Hildur, eiginkona Arnars Sölvasonar fasteignasala, fengið tvær arðgreiðslur vegna viðskipta með 20.000 kr. hlutabréf á einu rekstrarári upp á um 440.000.000 samtals eða um 220.000.000 kr. hvor aðili.
Félagið, MB2015 ehf., skilaði svo 46 milljón króna hagnaði árið 2016 og óverulegum hagnaði árin 2017 og 2018 og skilaði tapi árið 2019. Ekki verður annað séð en að hagnaður ársins 2016, þ.e. 46 milljónir króna, hafi einnig verið greiddar út í arð til hluthafa.
19. Félagið Fellasmári ehf. er í eigu Hauks Guðmundssonar sem var í varastjórn Lindarvatns.
Í ársreikningi fyrir árið 2015 kemur fram að félagið hafi hagnast um 228 milljónir króna. vegna sölu hlutabréfa á árinu 2015. Félagið er eigandi að hlutum í tveimur félögum á árinu 2015 og engin breyting er á eignarhaldi á árinu 2015. Þannig virðist félagið, eins og MB2015 ehf., keypt og selt hluti/hlutabréf á árinu 2015 með 228 milljón króna hagnaði.
Í báðum tilvikum er um að ræða viðskipti innan ársins og því kemur eignarhald í árslok ekki fram í ársreikningum.
20. Félagið EH fjárfestingar ehf. er í eigu Elínar Ólafsdóttir sem er fjármálastjóri Dalsnes og í varastjórn Lindarvatns.
Í ársreikningi fyrir árið 2015 kemur fram að félagið hafi hagnast um 103 milljónir króna með sölu hlutabréfa. Félagið er eigandi að hlutum í tveimur félögum á árinu 2015 og segir að félagið eigi B-hluti Lindarvatn ehf. að nafnverði 5000 kr.
Í ársreikningi fyrir árið 2016 kemur fram að félagið hafi hagnast um 125 milljónir króna með sölu hlutabréf á árinu. Enginn eignarhlutur í Lindarvatni er skráður í ársreikningi.
Á árunum 2015 og 2016 hagnaðist félagið þannig um 225 milljónir króna með sölu hlutabréfa.
Óþarfi er að benda á að samþykktir Lindarvatns gefa hvergi til kynna að einhverjir B-hlutir hafi verið gefnir út.
21. Samantekið högnuðust þessi 3 félög á árunum 2015 og 2016 um 900 miljónir króna þar sem hver aðili er að hagnast um 220-230 milljónir fyrir skatt; en það er einmitt sú fjárhæð sem vantar í söluhagnað Dalsnes af viðskiptum með hluti í Lindarvatni til Icelandair.
22. Þegar þetta hefur verið dregið saman þá vakna ýmsar spurningar:
- Hvaða viðskipti áttu sér stað á árinu 2015 hjá MB2015 ehf. þar sem félagið keypti hluti á 20.000 kr. og selur á sama ári sömu hluti fyrir 456 milljónir króna? Hvenær áttu viðskiptin sér stað innan ársins 2015? En hjá EH fjárfestingum og Fellasmára?
- Hvaða B-hluti átti EH fjárfestingar ehf. í Lindarvatni?
- Getur verið að Ólafur Björnsson, eigandi Dalsnes, hafi greitt ráðgjöfum, sem síðar komu m.a. í stjórn Lindarvatns, þ.e. Árna Helgasyni, Elínu Ólafsdóttur, Arnari Sölvasyni og Hauki Guðmundssyni, þóknun sem nemi samtals um 900 m.kr.?
- Þóknun sem er tilkomin vegna þess að Icelandair Group keypti 50% hluti í Lindarvatni af Dalsnesi þannig að Dalsnes seldi hluti/hlutabréf í Lindarvatni á 1800 til 1900 milljónir króna?
- Getur verið að um sé að reiða greiðslu þóknunar til ráðgjafa þannig að hver hafi fengið um 230 m.kr. af kaupverði Icelandair Group í gegnum félög sín?
- Getur verið að um ráðgjöf hafi verið að ræða og að ráðgjafar hafi átt að gefa út reikning fyrir sinni vinnu með virðisaukaskatti? Hins vegar hafi verið, til að auka ábata, hafi verið ákveðið að kaupa og selja hlutabréf innan ársins með fyrirfram ákveðnum hagnaði?
- Getur verið að Dalsnes hafi með þessu lækkað hagnað ársins um 700-900 m.kr. með tilheyrandi áhrifum á skattgreiðslur?
Höfundur er formaður VR og reiður maður á Internetinu.