VG hefur uppfært sína stefnu nú korter eða e.t.v. hálftíma fyrir kosningar. Ný stefna í umhverfis-og loftslagsmálum er mikill texti enda málefnið brýnt, en það er ekki alveg víst að margir hafi tíma eða þolinmæði til að lesa þetta allt, með öllu öðru. Einnig má efast um að allt komist til framkvæmda. Hér verður aðeins tæpt á því helsta.
Í loftslagsmálum er talað um losun vegna landnotkunar og að gera sérstaka landnýtingaráætlun. Hér er mikilvægt atriði sem ætti að tryggja að aðgerðir verði ekki verri en aðgerðaleysi.
Skýr markmið og tímasettar raunhæfar áætlanir eru mikilvægar. En hefði ekki verið ástæða til að lýsa einhverjum markmiðum og hvernig eigi að ná þeim. Það hefði e.t.v. mátt stytta jólagjafalistann aðeins og gera aðeins meiri grein fyrir raunhæfum aðgerðum.
Að rýna allar aðgerðir í loftslagsmálum með tilliti til réttlætis er ekki einasta gott og göfugt markmið heldur algert skilyrði fyrir því að aðgerðirnar nái fram að ganga. En kjósendur ættu að fá að vita hverjar aðgerðirnar eru.
Talað er um að efla almenningssamgöngur um land allt. Reyndar eru til þeir staðir þar sem almenningssamgöngur myndu ekki ganga upp vegna fámennis. En ef við lítum fram hjá því þá er þetta gott markmið. En ég vil minna á að það er ekki uppbygging kerfanna sem skiptir mestu máli, heldur það að fá fólk til að nota þjónustuna í stað þess að nota einkabíl. Með öðrum orðum, að gera þjónustuna notendavæna. Það þarf oft ekki að kosta svo mikið.
VG vill veita ívilnanir til orkuskipta í flutningum á sjó og landi, svo og ýmsum atvinnugreinum öðrum. Það er gott mál, en sennilega þarf einna helst að styðja við frumkvöðlastarf, það er að styðja þá sem fyrstir vilja taka stökkið.
Í náttúruvernd er talað um að fjölga friðlýstum svæðum þannig að þau verði 30% af flatarmáli lands árið 2030. Vekur upp spurningu um hvort hægt verði að sinna þessum svæðum nægilega vel og hvort fjármagn fáist til þess. Og líka nefni ég af strákskap mínum hvort í lagi sé að níða niður hin sjötíu prósentin.
Einnig er rætt um að auka rannsóknir á áhrifum skógræktar og landgræðslu á líffræðilega fjölbreytni. Vissulega ástæða til að hafa varann á, en varðandi landgræðslu þá er staðan þannig að við getum ekki beðið. Þetta mál varðar líka endurheimt vistkerfa. Það þarf ef til vill helst að tryggja slík svæði, en þau myndu væntanlega ekki ná yfir allt landið. Markmiðið að endurheimta 15% af röskuðu votlendi fyrir árið 2030 er ef til vill raunhæft, en vandinn er að við vitum ekki hve mikið hefur verið þurrkað.
Að tryggja sjálfbærni í ferðaþjónustu er mikilvægt. Og þolmarkagreiningar eru auðvitað mikilvægur þáttur í því. Þá spyr ég, hvers vegna hefur þetta ekki verið gert nú þegar? VG hefur á síðasta áratug verið í færum um að bæta úr þessu.
Hringrásarhagkerfið fær sína umfjöllun. Þar er helst að koma á nýrri úrgangsstefnu og skylda fyrirtæki og einstaklinga til að flokka úrgang. Hér er mikilvægt atriði að samræma sorpflokkun milli sveitarfélaga þannig að fólk þurfi ekki að læra á nýtt kerfi ef það flytur á milli sveitarfélaga.
Að birta upplýsingar um kolefnisspor neysluvara í verslunum er mjög góð hugmynd, en slíkt mun mæta andstöðu framleiðenda. En það er sjálfsagt að vinna að þessu. Á endanum kemst það á.
Að minnka notkun á plasti og nýta betur textíl. Það má stytta texta um þessi mál með því að tala um að berjast gegn einnota hlutum þar sem hægt væri að nota fjölnota. Þá skiptir ekki máli hvort um er að ræða plast eða annað. Matarsóun er af sama meiði. Það þarf fyrst og fremst að breyta menningu.
Efing endurvinnslu hér á landi og skýr stefna um sjálfbærni í byggingariðnaði er hvort tveggja mjög af hinu góða.
Hér hefur aðeins verið tæpt á fáum atriðum sem nefnd eru í stefnunni. Þegar á heildina er litið eru margir athyglisverðir þættir. En stundum er markmiðið óskýrt og stundum leiðin. En stundum er markmiðið í einum lið og leiðin í öðrum. Miðað við hvernig mál ganga fyrir sig á Alþingi er líka algerlega vonlaust að allt þetta komist til framkvæmda. Það hefði átt að grisja listann verulega. Og tala þá skýrar um markmið og leiðir.
Samantekt
Pólitískt er stefnan vænleg fyrir VG. Kjósendahópurinn verður nokkuð ánægður. Margt í stefnunni hefur samhljóm með öðrum flokkum þannig að það ætti að öllu eðlilegu að nást samstaða um flest sem fram kemur í stefnunni.
Efnahagsleg áhrif eða kostnaður er lítið greindur. Talað er um ívilnanir og aðstoð við umbreytingu í orkuskiptum, en ekki hvernig eigi að fjármagna slíkt. Einnig er eins og hvíslað að leggja skuli á kolefnisskatt, en það hverfur í hinum langa og viðamikla texta.
Samfélagslega er eitt atriði sem gengur í gegn um allt. Að meta aðgerðir út frá áhrifum á samfélagið. Þetta er bæði sanngjarnt, siðrænt og pólitískt rétt.
Tæknilega er fátt nefnt sem ekki gengur upp. Stuðningur við umbreytingu er viðurkenning á því að það þarf talsvert til að við séum tæknilega tilbúin í allt. Margt af því sem reynt verður mun misheppnast. En það er þess virði að reyna.
Höfundur er meðlimur í grasrótarhópi Landverndar í loftslagsmálum.