Það eru ekki margar skjótvirkar og þrautreyndar aðferðir til sem bera strax árangur gegn þeim illskeytta vanda sem matvælakerfi heimsins búa við. Þeim vanda lýsti ég í fyrri grein og hefði getað nefnt líka að matvælakerfin okkar leiða til 30% af losun á gróðurhúsalofttegundum. Og nota 70% af ferskvatn jarðar með óheyrilegum skaða fyrir vistkerfin. En ein góð lausn í boði er skólamáltíðir.
Hvernig? Með skólamáltíðum fæst betri heilsa barna, bættur námsárangur (ávöxtun af fjárfestingu í menntun), lengri skólasókn (gott fyrir stúlkur sem teljast „gjafvaxta“ of snemma), meiri þroski sem skapar aukna tekjumöguleika síðar á lífsleiðinni.
Í mörgum af fátækustu löndum heims (þar sem er lélegust menntun, heilsugæsla og mæðravernd) er vaxtarskerðing barna táknmynd um ástandið í heild. Þau ná ekki fullri hæð miðað við aldur. Það sem verra er, þau ná ekki vitsmunaþroska á viðkvæmasta skeiði ævinnar vegna vannæringar. Svona getur þetta verið hjá allt upp í 30-40 prósenta barna á tilteknum svæðum. Tjónið er óbætanlegt. Ekki er hægt að lækna þetta þroskatap með lýsi eða hafragraut síðar. Taka verður á mæðravernd, hlú að ungbörnum, og fylgja þeim inn í leik- og grunnskóla með næringu.
Ábatasöm fjárfesting
Þegar ég vann um hríð að menntaverkefnum í Úganda fengum við fræðafólk úr háskóla einum til að gera könnun yfir okkur. Við sáum að ekki dugði að byggja betri skóla, þjálfa kennara og kaupa námsgögn ef börnin væru sísvöng í skólanum. Hver var staðan? Svo spurningin var einföld: Hver er munurinn á getu barna sem fá næringu í kroppinn heima áður en þau fara skólann og hinna sem fá ekkert? Einfalt skyndipróf leysti gátuna og svarið kom sannarlega ekki á óvart og liggur í augum uppi. Það sem lá ekki í augum uppi og kom fram er hve munurinn er mikill. Og, sem verra var, hve mörg börn í skólunum „okkar“ voru sísvöng. Enda vorum við að berjast við brottfall á milli 70-90% á fyrstu skólaárunum.
Þessi litla könnun okkar átti að sannfæra okkur sjálf, foreldra og héraðsstjórn um gildi skólagarða. En hún sýndi bara það sem allir vita og hafa mælt, Alþjóðabankinn, World Food Programme, Harvard, MIT og ótal fræðastofnanir: Svöng börn þroskast miklu verr en þau sem fá næringu og læra miklu minna.
Í heild gæti efnahagsbati fyrir fátæk lönd numið 2–3% af þjóðartekjum með því að innleiða skólamáltíðir fyrir alla. Sé litið á skólamáltíðir sem fjárfestingu skilar hver króna sér nífalt til baka.
Hver skólamáltíð í fátæku landi kostar að meðaltali 25 sent. Fjórðung úr dollara.
Ný forgangsröðun
Að eyða hungri í heiminum er göfugt markmið, en að eyða því á sjálfbæran hátt í sátt við vistkerfin er allt annað og flóknara mál.
Það er því raunsætt mat að hvorki er varðar fátækt né hungur muni Heimsmarkmiðin nást 2030 eins og til stóð. Ekki frekar en í loftslagsmálum.
Vegna þess að tíminn er í raun á þrotum þarf að skera þessi áform upp og forgangsraða. Eitt dæmi um forgangsröðun gæti verið hnattrænt plan um skólamáltíðir handa öllum börnum. Máltíðir sem væru úr heimahögum, heimavötnum og -höfum. Þetta er gerlegt bæði er varðar þekkingu, reynslu og fjármagn. Og færi langt með að leggja inn á framtíðarreikning mannkyns og jafna þá kynslóðakuld sem við blasir í loftslagsmálum.
Skólamáltíðir fyrir öll börn jarðar er verkefni sem hægt er að ljúka fyrir 2030 og mun ekki vinna gegn sjálfbærnismarkmiðum og vernd vistkerfanna heldur þvert á móti: efla samfélög og ungu kynslóðina sem á að erfa vandann.
Um höfundinn: Stefán Jón Hafstein hefur um árabil starfað í utanríkisþjónustunni, m.a. í Afríku og verið fastafulltrúi Íslands hjá stofnunum Sameinuðu þjóðanna.
Greinin er byggð á úttekt höfundar í nýkútkominni bók: Heimurinn eins og hann er. Myndirnar eru einnig úr bókinni.