Það eru ákveðnir aðilar hér á landi sem eru sífellt að segja okkur að ESB sé ekki á dagskrá. Flestir þessara aðila eru uppgjafastjórnmálamenn sem eru þekktir fyrir íhaldssemi, að vera talsmenn kyrrstöðu og varðstöðu um sérhagsmuni.
En skoðum málið aðeins nánar. Eru lægri vextir ekki á dagskrá? Jú, að sjálfsögðu, en vaxtastig á Íslandi hefur lengi verið út úr öllu korti, bæði fyrir almenna neytendur, fyrirtæki og hið opinbera. Fyrir skömmu voru vextir hækkaðir (eftir að hafa þó lækkað verulega) og Seðlabanki Íslands hefur boðað „vaxtahækkunarferli“. Hvers vegna þarf „vaxtahækkunarferli“ á Íslandi en ekki í öðrum nágrannalöndum okkar? Af hverju er það lögmál að vextir á Íslandi séu hærri en í öðrum löndum í kringum okkur?
Galið matarverð
Er lægra matarverð ekki á dagskrá? Jú, auðvitað. Við fáum reglulega fréttir af því að Ísland sé með dýrustu löndum i heimi og að hér sé verðlag hreinlega alveg galið. Eða hvar í Evrópu myndi fólk borga sem samsvarar 8000 krónum fyrir eina venjulega rauðvínsflösku á veitingastað, um 55 evrur? Frakki sem fengi þetta í hausinn, myndi hreinlega fá áfall. Og af hverju er niðurgreitt íslenskt lambakjöt samt eitt dýrasta kjötið í búðinni?
Næst eru það fasteignakaup almennings hér landi, en Íslendingar borga þegar upp er staðið 1,5 til 2 fasteignir, á meðan Norðurlandabúar/Evrópubúar borga fyrir eina. Hvers vegna á það að vera viðmiðið og annað svona „fáránleikalögmál“?
Er lægri verðbólga ekki á dagskrá? Jú, án nokkurs vafa. Verðbólga hér á landi er búin að vera í nokkra mánuði vel yfir markmiði Seðlabanka Íslands og er verðbólga núna yfir 4%, sem er með því mesta sem mælst hefur lengi. Verðbólga étur upp eignir fólks og veldur sífelldum verðhækkunum. Hún skekkir líka samkeppnisstöðu íslenskra fyrirtækja gagnvart erlendum.
Krónan uppspretta óstöðugleika
Er nothæfur gjaldmiðill ekki á dagskrá? Jú, en krónan okkar er hið mesta ólíkindatól og hefur í gegnum tíðina valdið ótrúlegum skaða með gengisfalli og verið helsta uppspretta óstöðugleika í efnahagsmálum. Með upptöku evru, eða tengingu krónunnar við hana (líkt og Danir gera), væri þessi óstöðugleiki (og kostnaður) sem tengist krónunni úr sögunni.
Aðild að ESB ætti líka að vera á dagskrá hjá fyrirtækjaeigendum og Samtökum atvinnulífsins, því það er einfaldlega staðreynd að við inngöngu í ESB hefur magn viðskipta hjá inngönguþjóðum aukist um allt að 5, 10, jafnvel 15%. Hér á landi mætti sjá fyrir verulega veltuaukningu í atvinnulífinu vegna aukinna verkefna sem tengjast mögulegri aðild. Til dæmis í ýmsum framkvæmdum, vegagerð og almennri uppbyggingu innviða, t.d. brúarsmíði, flugvöllum og mörgu öðru. Þörf er á uppbyggingu innviða hér á landi fyrir fleiri hundruð milljarða króna og það er staðfest í nýrri skýrslu Samtaka iðnaðarins fyrr á þessu ári.
60% vildu áframhaldandi aðildarviðræður
Árið 2014 stóð SA fyrir könnun meðal félaga sinna og var m.a. spurt hvort slíta ætti aðildarviðræðum við ESB. Um 60% svarenda voru því andvíg, en 40% vildu slíta. Engu að síður var það gert í ráðherratíð Gunnars Braga Sveinssonar, úr Framsóknarflokki, í mars árið 2015. Sérhagsmunirnir hér á landi voru því settir í forgang, sérhagsmunir landbúnaðar og sjávarútvegs.
Endanlega hefur þó ekki verið klippt alveg á málið. Ekki er nokkur spurning í huga undirritaðs að SA og þar með atvinnulíf Íslands myndi njóta góðs af fullri aðild að ESB. Vill SA virkilega ekki athuga þennan möguleika?
Skrúfstykki sérhagsmunanna
Spurningin um aðild er svo síðast en ekki síst spurning fyrir komandi kynslóðir Íslendinga, hvort þær vilji búa við sambærileg kjör og viðmiðunarþjóðir okkar í Evrópu. Eða eiga þær að halda áfram að greiða miklu meira en viðmiðunarþjóðir okkar, fyrir t.d. húsnæði?
Aðildarspurningin er líka spurning um að losa Ísland úr því skrúfstykki sérhagsmuna sem landsmönnum hefur verið haldið í áratugum saman og kostað samfélagið, tugi, jafnvel hundruð milljarða króna.
Nú líður að kosningum. Ísland þarf ríkisstjórn alvöru jafnaðarmennsku, þar sem lykiláhersla er á blandað hagkerfi, ríka velferð og jöfnuð, framúrskarandi menntun, sem og alþjóðahyggju.
Ísland þarf ekki ríkisstjórn íhalds og sérhagsmunagæslu, sem lemur höfðinu í steininn og útilokar að íhuga tækifæri. Það heitir þröngsýni.
Höfundur er stjórnmálafræðingur.