Vel heppnuð skuldaleiðrétting ríkisstjórnarinnar hefur farið mjög fyrir brjóstið á pólitískum andstæðingum ríkisstjórnarinnar. Eðlilegt er að umræða eigi sér stað um jafn stórt og flókið mál og Leiðréttingin óneitanlega er. Lýðræðisleg ákvörðun var á sínum tíma tekin að lokinni slíkri umræðu, bæði meðal þings og þjóðar.
Eitt af því sem huga þurfti að við útfærslu á Leiðréttingunni var að hún myndi ekki leiða til ofþenslu í hagkerfinu. Smíðuð var lausn sem tryggði það eins og kostur var, sér í lagi með mótvægisaðgerðum á borð við séreignarsparnaðarleiðinni. Sú leið hvetur til aukins sparnaðar og dregur úr mögulegri þenslu. Um 35 þúsund Íslendingar nýta sér þessa leið í hverjum mánuði. Þá voru vanskil og greiðslujafnaðarreikningar greiddir upp áður en kom til höfuðstólslækkunar. Hvaða vit er í að láta vanskil hlaðast upp á meðan höfuðstóll er greiddur?
Óhætt er að fullyrða að vel hafi tekist til, bæði hvað varðar lausnina, tæknilega útfærslu hennar og þjóðhagslegu áhrifin. Í greinargerð með frumvarpi um Leiðréttinguna var gerð grein fyrir mati Seðlabanka Íslands og Analytica á verðbólguáhrifum aðgerðarinnar. Analytica gerði ráð fyrir 0,1% áhrifum á verðbólgu til hækkunar á árinu 2014. Seðlabankinn gerði ráð fyrir sömu verðbólguhækkun á árinu 2014 og 0,4% yfir allt tímabilið.
Þetta virðist hafa gengið eftir þó reyndar sé útilokað að segja með nákvæmum hætti til um hver áhrifin voru í reynd. Hrakspár spámanna, m.a. Kjarnans, um stóraukna verðbólgu hafa augljóslega ekki gengið eftir. Verðbólguvæntingar hafa ekki hækkað vegna Leiðréttingarinnar sem sennilega kemur til af ánægju markaðsaðila með framkvæmd hennar. Verðbólga var á síðasta ári og til þessa dags verið langt innan verðbólgumarkmiðs Seðlabankans. Sú litla verðbólga sem mælist vegna húsnæðis er ekki vegna Leiðréttingarinnar. Nær væri að líta til þess ástands sem er í miðbæ Reykjavíkur og nágrennis þar sem eftirspurn, meðal annars vegna uppsveiflu í ferðaþjónustu, keyrir upp verðið. Aukið lánaframboð og skortur á íbúðarhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu hafa þar einnig áhrif.
Þann 27. mars sl. kynnti Kjarninn þá stórfrétt að Leiðréttingin ýtti undir verðbólgu. Þá hafði verðbólgan hækkað einn mánuðinn og var 1,6%, eða tæpu prósentustigi lægri en verðbólgumarkmið Seðlabankans. Ekki taldi Kjarninn það hins vegar fréttnæmt mánuði síðar þegar verðbólgan fór niður í 1,4%.
Það er einfaldlega fráleitt að bera verðbólguáhrif Leiðréttingarinnar saman við þá verðbólguógn sem stafar af kjarasamningum. Þangað ættu tíðindamenn Kjarnans að beina sjónum sínum.