Hvað þýðir það að vera leigjandi á Íslandi í dag?
Flest okkar eru á leigumarkaði vegna þess að við eigum ekki fjármagn til að leggja í útborgun á íbúð. Við eigum ekki efnaða foreldra sem geta gefið okkur útborgunina, erum á of lágum launum til að geta safnað fyrir útborgun eða höfum lent í áföllum sem valda því að við eigum ekki sparifé, enga sjóði. Og við komumst ekki í gegnum það nálarauga sem greiðslumatið er, en erum samt með hærri húsnæðisútgjöld en fólkið sem nær í gegn. Jafnvel þótt tekjur okkar séu lægri en þeirra sem fá greiðslumat.
Greiðslumatið er því eins og passi sem hleypir sumum inn á húsnæðismarkaðinn en vísar öðrum inn á leigumarkað. Þau sem hafa passann geta lækkað húsnæðiskostnað sinn með lægri greiðslubyrði og fengið aðgengi að eignamyndun sem byggir á því að fasteignaverð hækkar meira en almennt verðlag. Þau sem ekki fá passann er vísað inn á leigumarkað þar sem þau bera hærri húsnæðiskostnað en kaupendur, en eignast samt aldrei neitt í húsnæðinu sem þeir fjármagna. Og borga svo mikið í húsaleigu að þau geta ekki sparað fyrir útborgun, sem er eina leiðin út. Leigumarkaðurinn er því eins og ævilangt skuldafangelsi.
Þessi staða hefur skilið leigjendur eftir á berangri, óvarin fyrir þeim sem vilja græða á veikri stöðu þeirra. Ef þú átt á fjármagn fyrir útborgun í íbúð og bankinn er tilbúinn að lána þér fyrir restinni geturðu keypt íbúð, leigt hana út og látið leigjendur borga allan kostnað þinn, endurgreiða lánið og færa þér íbúðina skuldlausa á tiltölulega stuttum tíma. Og fá að auki alla hækkun íbúðarinnar umfram verðlag sem aukið eigið fé. Og þú getur gert þetta aftur og aftur, keypt nýja íbúð um leið og leigjendur þeirrar fyrstu hafa byggt upp nægt eigið fé svo þú getir bætt við þig.
Svo notað sé Biblíulegt málfar þá má segja að leigjandi sá sem sáir í akur óvina sinna, uppsker ekkert fyrir erfiði sitt. Leigjandinn borgar leiguíbúðina eins og þau sem búa í eigin íbúð. Munurinn er að leigjandinn kaupir íbúð fyrir annað fólk.
Hið opinbera ver ekki leigjendur í þessari stöðu, heldur þau sem kaupa húsnæði til að leigja út. Það er gert í stórum stíl í leigufélögunum, en líka á smærri skala af sæmilega stæðu fólki sem ávaxtar sparifé sitt á baki leigjenda. Ungt fólk, sem á fyrir útborgun, hefur keypt íbúðir, leigt þær út meðan eigið fé er að byggjast upp og búið hjá pabba og mömmu á meðan. Allt kerfið snýst um að hópur þeirra sem standa vel eru að misnota veika stöðu þeirra sem standa verr.
Hlutfallið á milli leigu og kaupverðs er hærra á Íslandi en í nokkru öðru nágrannalandi. Það merkir að leigjendur á Íslandi greiða stærri hluta kaupverðs íbúðanna en annars staðar. Að meðaltali er mánaðarleiga hér um 100 þús. kr. of há miðað við löndin í kringum okkur, sé miðað við hlutfall leigu og kaupverðs. Það gera 1,2 m.kr. á ári. Leigjandinn borgar því yfirverð sem safnast upp í útborgun á 36 m.kr. íbúð á þriggja ára fresti, m.v. veðhlutfall fyrstu kaupenda.
Miðað við þróun fasteignaverðs, leigu og verðlags á undanförnum árum er ávöxtun þess sem kaupir tveggja herbergja íbúð í Vesturborginni á meðalverði samkvæmt Þjóðskrá og leigir hana út á meðalleiguverði samkvæmt sömu stofnun um 19,6% árlega. Þetta er ávöxtun langt umfram allt sem kallast má eðlilegt, ávöxtun byggð á einskonar okurvöxtum. Þetta er ávöxtun sem byggð er á því að fólk sem ekki fær greiðslumat er rukkað um leigu, sem oft er um og yfir 50% af ráðstöfunartekjum þess. Þetta er því okur sem er alvarleg aðför að lífsafkomu fólks, heilsu og framtíð.
Leigumarkaðurinn hefur þannig öll einkenni okurlánamarkaðar. Þetta er vettvangur þar sem fólk auðgast á veikri stöðu meðbræðra sinna. Og hið opinbera blessar ástandið með því að vernda kerfið. Helstu aðgerðir þess eru að gefa leigusölum helmings afslátt af fjármagnstekjuskatti og að greiða út húsnæðisbætur sem í reynd niðurgreiða okurleiguna. Það eru hins vegar engin takmörk á því hversu há leigan má vera, hversu mikið okrið er og hversu hart er gengið að lífsafkomu leigjenda.
Við erum félagar í Samtökum leigjenda og hvetjum aðra leigjendur til að ganga í samtökin og berjast með okkur fyrir réttlæti. Það er hægt að skrá sig í samtökin á leigjendasamtokin.is
Höfundar eru félagar og stjórnarmeðlimir í Samtökum leigjenda á Íslandi