Leigumarkaðurinn er fátækragildra nútímans. Nóg er um nefndir, en lítið sem ekkert um efndir af hálfu stjórnvalda. Þetta var efnisleg niðurstaða í nýlegu útvarpsviðtali við Hagfræðing Landsbankans. Umfjöllunarefnið var Íslenskur leigumarkaður.
Útvarpið tók nýlega annað viðtal við ung hjón. Hún lögfræðingur í fastri vinnu, hann blaðamaður. Þau eru hnotskurnardæmi um stöðu ungs fólks á íslenskum húsnæðismarkaði. Þau eiga tvö börn á unga aldri. Þau misstu nýlega leiguíbúð og gerðu því kauptilboð í 3ja herbergja íbúð. Verðið var 34 miljónir.
Tekjur í fjölskyldunni eru yfir meðallagi, en hún taldi sér þó ekki fært að kaupa íbúð. Greiðslubyrðin hefði í þeirra tilfelli orðið upp undir 300 þúsund á mánuði. Með tilliti til verðbólguáhættu taldi parið íbúðarkaup ekki áhættunnar virði.
Þessi tvö viðtöl eru góð dæmi um kerfisvilluna á íslenskum húsnæðismarkaði. Ef vel er að gáð, þá er hugmyndafræðin í húsnæðismálum landsins algjörlega óbreytt frá því fyrir hrun. Það var enginn lærdómur dreginn af fasteignabólunni sem sprakk framan í andlit þjóðarinnar 2008. Húsnæðismálin eru sami grautur í sömu skál.
Fyrir hrun gengu bankar berserksgang á húsnæðismarkaði með hömlulausri útlánastefnu. Ódýru erlendu fjármagni var hellt inn á húsnæðismarkaðinn eins og olíu á eld. Afleiðingin var skörp og ósjálfbær hækkun á fasteignaverði.
Sjö árum síðar má kalla stöðuna "2007, taka tvö" á húsnæðismarkaði landsins. Sama Matador-spil er farið í gang. Erlent fjármagn (í gegnum ferðamenn) þrýstir upp verði fasteigna og leiguverði í kjarna borgarinnar. Lífeyrissjóðir, bankar og byggingarverktakar ráða ferðinni á meira eða minna einkavæddum markaði. Örlög almennings eru í höndum fjármálafélaga með húsnæðisbrask sem viðskiptamódel. Þau hugsa í ársfjórðungum.
Alveg eins og fyrir hrun er engin sameiginleg sýn á húsnæðis og leiguvandamál höfuðborgarsvæðisins. Sveitarfélögin finna upp hjólið hvert í sínu horni í húsnæðismálum. Lausnir á leiguvandamálum eru í könnun og nefndum fram að kosningum. Í nýju borgarskipulagi sést engin breyting á þessari hugsanavillu.
Húsnæðisvandi og neyðarástand á leigumarkaði höfuðborgarsvæðisins er ekkert nýtt vandamál. Það má rekja allt aftur til upphafs stríðsáranna fyrir 75 árum síðan. Ísland hefur allan þann tíma verið eitt á báti í húsnæðismálum meðal nágrannalandanna.
Hvergi á byggðu bóli er séreign jafn hátt hlutfall af eignamarkaði og á íslandi. Í nágrannalöndunum eru sveitarfélögin og aðrir lögaðilar umfangsmiklir leikendur í byggingu og rekstri leiguíbúða fyrir almenning. Í Svíþjóð voru t.d. byggðar ein milljón leiguíbúðir á árunum 1965 til 1975. Íbúðirnar voru hugsaðar sem hver önnur þjónusta fyrir íbúa, og þjóna því hlutverki enn, hálfri öld síðar.
Á Íslandi er séreignarstefnan eins konar trúarbrögð sem ekkert pólítískt afl virðist geta haggað. Húsnæðisekla og ónýtur leigumarkaður eru eins konar náttúrulögmál. Er það ekki merkilegt á einu strjálbýlasta svæði Norðurlanda, með nægt byggingarland, gg ódýra orku til upphitunar, sem er víða annarstaðar einn stærsti pósturinn í rekstri á húsnæði til langframa?
Er kominn tími til að þriðjungur heimila landsins (leigjendur) stofni með sér stjórnmálaflokk?
Húsnæðisflokkinn? Með þann tilgang einan að koma alþýðu landsins í húsaskjól?
Og dúka af veisluhlaðborði banka, byggingarverktaka og lífeyrissjóða á húsnæðismarkaði ungs fólks?