Íslendingar eru mjög stoltir af hitaveitum landsins og mega aldeilis vera það. Þær voru reistar af miklum myndarskap á sínum tíma og jarðvarminn hefur bætt lífsgæði íslendinga gríðarlega. Forsjálni hefur hins vegar ekki gætt við stýringu auðlindarinnar. Vissulega hafa verið gefnir út bæklingar um góða hitamenningu og æskilega hegðun íbúa. En undanfarið hafa orkuveitendur kvartað og skammast yfir fyrirhyggjuleysi almúgans: „Allt of margir með heita potta“ og „þvílík sóun að hita upp götur og stéttar.....“. En er gagnlegt að skamma notendur? Pottarnir eru komnir og hver og einn getur ekkert gert að því að aðrir fengu sér pott.
Vandinn
Stefán Arnórsson prófessor emeritus lýsir í þessu viðtali hluta vandans. Varkárni og fagmennsku er áfátt við mat og beislun jarðhitans. Jarðhitaauðlindin er ekki óþrjótandi, vatnið streymir ekki fram viðstöðulaust, alltaf jafnheitt.
Hitastigið skiptir máli
Fyrir nokkru fékk ég háan bakreikning frá hitaveitunni. Við eftirgrennslan komst ég m.a. að því að heita vatnið inn í húsið var mun kaldara en ég bjóst við, 67-72°C í stað 80°C. Margir grannar mínir höfðu svipaða sögu að segja. Því lægra sem hitastigið er, því fleiri rúmmetra vatns þarftu á ofnana til að hita upp sama rými. Og eins og Stefán ræðir: Mikil ásókn í heitt vatn tæmir að endingu námuna, varmann. Því meira vatn sem tekið er því hraðar lækkar hitastigið. Það er mikilvægt að fara betur með, nota til þess vel aðgengilegan búnað og tækni. Gott er líka að hafa í huga að því kaldari sem rúmmetrinn er því dýrari er hann. Ekki er óvarlegt að seljendur heita (kalda) vatnsins lendi í freistnivanda.
Skilvirk nýting orku og vatns
Evrópubandalagið hefur lengi beitt sér fyrir orkusparnaði, m.a. við upphitun húsnæðis og vatnssparnað. Íslendingar taka illu heilli ekki þátt í þessari framþróun. Augljós leið er aukin einangrun húsa. Í Þýskalandi styrkja stjórnvöld eigendur eldri húsa til að einangra hús sín, skattaafslættir eru gefnir á orkusparandi búnaði og viðeigandi ráðgjöf fæst á góðu verði. Skiljanlega er ekki einfalt fyrir „hvern sem er“ að fara í húsnæðisumbætur, og sérþekking nauðsynleg. Tækni og búnaður til að hámarka orkunýtingu (orkuskilvirkni) hefur verið þróaður áratugum saman. Öll þekkjum við til sparsamra bíla, en okkur hefur ekki verið boðin tækni sem minnkar heitavatnssóun. Þýsk stjórnvöld nýta ýmsa hvata til að örva framþróun á sviðinu, auk styrkja til nýskapenda og framleiðenda er viðhald iðn- og tæknimenntunar gott.
Samsvarandi aðgerðir hér myndu leiða til betri nýtingar orku og vatns, minna álagi á jarðhitaauðlindina, minni eyðileggingar náttúrusvæða og styrkingar innviða.
Íslenskar aðstæður
Að mörgu leyti eru aðstæður einsleitar og einfaldar hér á landi og stjórnvöld og veitur í góðri stöðu. Á jarðhitasvæðum skipta flestir eða allir við sömu veituna. Stefnumótun og samræming er því með einfaldara móti. Ekki þarf aðlögun að mörgum veitugerðum (gas, olía, rafmagn), stríð og önnur óáran hefur óveruleg áhrif á verð o.s.frv.
Því miður er ég ekki sérfræðingur í skilvirkri nýtingu jarðhita. Stefán Arnórsson nefnir vöntun á sérþekkingu við beislun jarðhitans, en hana vantar einnig við að hámarka nýtingu hans. Aðgengi að fræðsluefni um orkusparnað við upphitun húsnæðis er að því er virðist óþrjótandi í Þýskalandi, sumt er nothæft hér. Til dæmis þarf vatnið í gólfhitakerfi ekki að vera jafnheitt og í ofnakerfi til að ná sömu upphitun húsnæðis. Af hverju að henda lághitanum (í fráveitu) ef hann kemur að sömu notum? Við þurfum fræðslu og í nútímaþjóðfélagi er fólk vant að hafa alls kyns valmöguleika, enda þarfirnar mismunandi. Svo er landinn sólginn í tækninýungar. Flestir njóta pottanna betur umvöndunarlaust. Hvað segiði um snjallar stýringar? Og er ekki upplagt að nota afgangsvarmann úr ofnakerfinu í næstu íbúð (gólfhiti), í sólskála eða stéttar sem verða þá öruggari í frosti? Einfalt ætti að vera að tryggja betri einangrun nýrra húsa og viðeigandi loftun með reglugerð og svo framvegis....
Óskynsamlegt er að láta notendur eina um að minnka varmanotkun. Almenningur á nóg með að sætta sig við gríðarlega erfiðleika í heilbrgiðiskerfinu, dýran mat og húsnæði, vanfjármögnun fangelsa, nálægt stríð og torræðar loftslagshamfarir, svo fátt eitt sé nefnt. Það þarf ekki að ýta þeim í að vera kalt á veturna. Mun almennilegra er að íslensk stjórnvöld og veitufyrirtæki stýri nauðsynlegum umbótum, stórbæti auðlindanýtingu. Og það er vel hægt.
Höfundur er umhverfis- og auðlindafræðingur.