Ég hef verið ansi hugsi undanfarna daga og það hefur rifjast upp fyrir mér, að þegar ég sótti um skólavist í Oxford fyrir mörgum árum, var ein spurningin á inntökuprófinu þessi: Hvor er spilltari, sá sem býður mútur eða hinn sem þiggur þær? Svarið var ekki augljóst.
Það er heldur ekki augljóst svarið við spurningunni um hvor er spilltari, liðhlaupinn sem svíkur kjósendur sína áður en blekið er þornað á kjörbréfi hans og áður en þing hefur svo mikið sem verið kallað saman, eða hinn sem býður liðhlaupann velkominn í sinn flokk.
Sérfræðingar hafa spekúlerað mikið um þennan gerning og farið út um víðan völl. Þingmenn hafa líka lagt orð í belg um réttmæti þess að þingmaður skipti um hest sýnist honum svo. Það má færa rök fyrir réttmæti þess, ef upp kemur óyfirstíganlegur málefnaágreiningur á kjörtímabilinu. En því er ekki að heilsa í þetta sinn. Mér finnst sá gerningur sem nú er til umræðu vera alvarleg og hættuleg aðför að trausti kjósenda á framboðum og kosningum. Þar með er vegið að rótum lýðræðisins. Það er ekkert smáræði.
Ég furða mig á lágkúru Sjálfstæðisflokksins að taka við þessum ósannsögla liðhlaupa. Það er ekki eins og hegðun og málflutningur Birgis Þórarinssonar séu líkleg til auka veg flokksins, - þvert á móti. Sjálfstæðisflokkurinn gerist samsekur í ömurlegum gerningi og verður ábyrgur fyrir málflutningi Birgis Þórarinssonar, sem til þessa hefur á Alþingi afneitað vísindum og verið dragbítur á mannúð og mannréttindi. Hann er óvenjulega forneskjulegur í skoðunum – ekki beint það sem Sjálfstæðisflokkinn vantar. Birgir virðist halda að hann sigli undir seglum kristninnar, en það sem til hans hefur sést undanfarna daga getur varla talist hákristið: vísvitandi svik við kjósendur og síðan ósannsögli um stuðning varaþingmanns síns. Svona fengur hefur til þessa kallast ódráttur í minni sveit.
Ég heyri Jón Helgason rymja sinni rámu rödd:
Ef allt þetta fólk fær í gullsölum himnanna gist
sem gerir sér mat úr að nugga sér utan í Krist,
þá hlýtur sú spurning að vakna hvort mikils sé misst
ef maður að síðustu lendir í annarri vist.
Höfundur er prófessor emeritus.