Svona í aðdraganda kosninga langar mig að upplýsa hvað gerist þegar örlögin grípa í taumana og hið margumtalaða einkaframtak og dugnaður verður að engu, á einu augnabliki. Held þar sem ekkert okkar er ódauðlegt þá er auðvelt að trúa að dugnaður og elja borgi sig, fram yfir gröf og dauða. Nýfrjálshyggjan er bara fyrir útvalda því lífið þitt og frelsi skerðist svo um munar þegar mótlæti eins og alvarlegt slys bankar upp á. Þú ert ekki merkilegri en síðasti vinnudagurinn þinn þrátt fyrir að borga ríkulega áratugum saman í formi skatta og gjalda til samneyslunnar. Starfsmenn Tryggingastofnunar fara í hlutverk forráðamanns og taka yfir, ráða nánast alfarið vegferð sinna skjólstæðinga eins og foreldrar fimm ára barna í þágu laganna.
Hins vegar undanskilur löggjafinn sig sjálfan frá öllum þeim leikreglum sem okkur hinum ber að lúta. Eins og landsmenn vita þá hafa þeir skammtað sér ríkulegu úr sjóðum okkar landsmanna til eigin afnota. Þeir refsa okkur grimmilega ef maður vill eiga fyrir nauðsynjum með því t.d. að selja eignir, ávaxta gamalt sparifé í banka, að eiga börn sem hafa náð 18 ára aldri búsett heima, ef viðkomandi á maka eða meðeiganda. Það er búið að girða fyrir nánast alla möguleika til að draga fram lífið á heiðarlegan máta. Þykir mér þetta endurspegla siðferði þjóðarinnar þegar fátækragildra er lögð fyrir þá óheppnu, því þeir búa við eitthvað allt annað en frelsi predikað svo fallega á Sunnudögum.
Starfsmenn TR virðast margir hverjir búa að takmarkaðri kunnáttu um þetta flókna kerfi og eru svörin jafnmörg þeim aðilum sem talað er við. Eitt getur maður þó verið viss um að harkalegar skerðingar kunna þau öll upp á tíu og fær maður vitneskju fyrst einu og hálfu ári seinna hvort bakreikningur er væntanlegur, hvort það borgaði sig að leysa út lyfin það árið. Best af fara aftur í fornöld og geyma það sem maður á undir kodda áður en atvinnuþátttaka verður að engu hvort sem um ræðir vegna heilsubrests eða aldurs. Stofnunin virðist hafa ótakmarkað vald til að draga á langinn umsóknir og úrvinnslu án afleiðinga, að sama skapi getur það kostað skjólstæðinga verulegar fjárhæðir vegna margumræddra skerðinga. Maður hefur ekkert vald yfir sínum eigin aðstæðum og fæ ég sömu tilfinningu og þegar ég heimsótti Rússland hér um árið áður en kalda stríðinu lauk. Eins og við öll vitum þá eru peningar gjaldmiðill frelsis og ætla ég aðeins að tíunda minn starfsferil í grófum dráttum til að gefa fólki innsýn í það líf sem bíður þess við atvinnumissi af heilsufarsástæðum. Næst getur það orðið þú.
Ég hef starfað í fjórum löndum, Ísland þar með talið. Ég flyt heim frá Manhattan eftir langa búsetu hið ytra. Starfaði ég sem deildarstjóri yfir Bandaríkjamarkaði fyrir L´Oréal, alþjóðlegt fyrirtæki með yfir 400.000 starfsmenn víðsvegar um heiminn. Þar áður starfaði ég í sambærilegu starfi yfir Svíþjóðarmarkaði og þótti einstaklega skapandi, lausnamiðuð og duglegur starfskraftur og því flutt á milli landa í ný verkefni. Iðulega náðu vinnu dagarnir tveggja stafa tölu i klukkustundum talið, ekki ósjaldan alla daga vikunnar. Ekki get ég sagt að launin hafi endurspeglað þá ábyrgð. Ábyrgð og álag þekkti ég vel með tæplega 250 svæðisstjóra dreift um Bandaríkin starfandi undir mér.
Eftir nokkur ár í því starfi hitti ég fyrirrennara minn af hinu kyninu og fékk þær upplýsingar að átta árum áður hafði hann árslaun töluvert meira í takti við álagið og ákveð ég í framhaldi að segja starfi mínu lausu. Við tók erfið ákvörðun um hvert i veröldinni ég skyldi halda. Bauðst mér spennandi starf í London hjá sama fyrirtæki, æðstu yfirmenn L´Oréal vildu halda mér innan fyrirtækisins. Einnig bauðst mér starf markaðsstjóra hjá stórfyrirtæki hér heima ásamt mjög spennandi starfi hjá Bláa lóninu, sem ég hafnaði. Satt best að segja hef ég alltaf séð eftir þeirri ákvörðun og velti fyrir mér hvar ég væri stödd ef það hefði orðið fyrir valinu. Ekki það að fleiri spennandi tækifæri biðu mín og tók ég meðal annars við starfi í Þýskalandi sem ég þáði og var ábyrg á mínu sviði yfir 25 löndum frá S. Afríku til Íslands.
Að svo komnu eins og hjá flestum tók við tími við þar sem ég eignast börn, flutti heim og fékk mér auðveldari störf til að sinna fjölskyldunni eins og bestur var kostur á. Varð ég sjálfstæð móðir þegar börnin voru ung, engu að síður þrátt fyrir minnkaða innkomu hafði ég áfram þá skynsömu reglu að leiðarljósi að leggja alltaf hluta af launum til hliðar og kaupa aldrei neitt nema eiga fyrir því. Ég hef aðeins tekið eitt húsnæðislán um ævina, allt annað borgað á borðið. Eins og margir aðrir fékk að finna fyrir hruninu þar sem ég var nýbúin að taka heim launa sparnaðinn minn því ekki treysti ég bandarísku bönkunum. Það hefði ég betur látið ógert því versta siðferðið reyndist ég finna hér heima og varð sparnaður minn að spilapeningum útvalinna, allt í boði stjórnvalda. Ég átti svo sannarlega fyrir mínum flatskjá sem þótti stórmerkileg hegðun hjá almennum launþega og sjálfstæðu foreldri með tvö börn. Þannig að ef einhver á að geta lifað af því sem skammtað er af eigin sparnaði þá er það ég. Það er hreinlega ekki gerlegt.
Þessari langloku minni fer að ljúka en þessu áorkaði ég með þor og dugnaði einungis með Iðnskólapróf upp á vasann. Tvítug stóð ég með ferðatösku í sitthvorri hendinni í bláókunnugu landi án húsnæðis og atvinnu og enda innan við áratugi seinna sem yfirmaður hjá risa alþjóðlegu fyrirtæki í stærsta nýfrjálshyggjulandi veraldar með ritara skreyttri viðskiptagráðu frá einum þekktasta háskóla Boston. Til að gera langa og viðburðaríka sögu stutta þá lenti ég nýlega í veikindum sem setur allt á hliðina og ekki bætti úr að ég lenti í alvarlegu slysi þar sem ég margbrýt á mér hrygginn og fæ innvortis blæðingar og hangi nú meira saman á stáli einu saman þökk sé færum skurðlækni.
Skilaboð fjármálaráðherra eru að ekki er ég einungis runnin út á dagsetningu heldur er ég líka óþarfa byrði á þjóðfélaginu aðeins 54 ára gömul. Það er klárlega hörð lending frá starfsframa og frelsi í að þiggja í dag heilar 40.684kr. á mánuði frá TR þangað til annað kemur í ljós við uppgjör í maí 2022. Fyrir þessar skitnu, já skitnu krónur þarf ég að gefa upp allt, gjörsamlega allt um mína hagi. Ég hef lagt til samneyslunnar greitt skatta og gjöld til íslenska ríkisins í yfir 30 ár lengst af sem millitekju manneskja. Horfir maður svo á Bjarna og Katrínu tala um skattalækkanir fyrir þá sem minnst mega sín og slá sér á brjóst fyrir það hversu vel þau hafa gert fyrir þá verst stöddu. Dæmi hver fyrir sig en ég er með ráðstöfunartekjur undir 250.000 á mánuði. Ekki mikið frelsi það.
Til að toppa siðleysið í þessum málum þá er átján ára sonur minn sem ígildi maka í nafni laganna og fæ skerðingar að sama skapi eða sem nemur tæpum 60.000kr. Til að eiga fyrir nauðsynjum þá þarf ég að reka unglinginn að heiman. Það er nú allt örlætið sem fráfarandi stjórnvöld stæra sig af. Á sama tíma og ungt fólk og almennir launþegar hafa mátt taka út skattfrjálsan lífeyrissparnað þá gera stjórnvöld grófa aðför að öryrkjum og ellilífeyrisþegum með allt 80% jaðarskatti því þeir geta ekki borið hönd fyrir höfuð sér. Sömu stjórnvöld og gera nánast allan minn lífeyrissparnað upptækan styrkja sama forstjóra og bauð mér þetta fína starf fyrir aldamótin síðustu og þannig styðja við lang hæstlaunaða, skerðingarlausa bótaþega landsins.
Hvaðan eiga fjármunirnir að koma spyr fjármálaráðherra þegar rætt er um eignaupptöku á skyldusparnaði. Enginn spurði þá spurningu þegar hann tók erlenda lánið nú á dögunum til að styðja m.a. við þá best settu sem sumir hverjir höfðu maga í sér til að greiða út stjarnfræðilegan arð i leiðinni. Hvað varð um siðferðið?
Til að geta áfram stutt dyggilega við bakið á tugmilljóna bótaþegunum og einna hæst launuðu ráðherrum heims þá auglýsi ég hér með eftir vel launuðu starfi fyrir reglusaman 54 ára dugnaðarfork með skerta starfsgetu.
Höfundur er markaðs- og sölustjóri og öryrki