Fyrir síðustu sveitarstjórnarstjórnarkosningar var mikið rætt um húsnæðismál, enda mikilvægur málaflokkur sem margir horfa til þessa dagana. Ungt fólk á margt í erfiðleikum með að kaupa íbúð, vegna þess að það getur ekki lagt fram eigið fé til að fá lánafyrirgreiðslu, og þá er leigumarkaðurinn mörgum erfiður. Leigan er há, að mati margra í það minnsta, og takmarkaðir möguleikar í boði.
Borgaryfirvöld í Reykjavík hafa beitt sér töluvert fyrir uppbyggingu á litlum og meðalstórum íbúðum upp á síðkastið, og er mikil uppbygging í kortunum, ekki síst miðsvæðis í Reykjavík.
Verðið á þessum íbúðum er hins vegar langt fyrir ofan fjárhagslegt þol venjulegs fólks, eins og reyndar mátti búast við. Það er dýrt að byggja, lóðir eru dýrar og eftirspurnin eftir vel staðsettum íbúðum er mikil. Allt helst þetta í hendur, þegar markaðsverðið myndast. Þannig kostar ný rúmlega 100 fermetra íbúð í Stakkholti, í miðbæ Reykjavíkur, nálægt 50 milljónum króna, og rúmlega 150 fermetra íbúð í húsinu að Mýrargötu 26 kostar tæplega 70 milljónir. Svo dæmi séu tekin.
Þetta eru fallegar íbúðir og verðið á þeim kemur ekki svo mikið á óvart, eins og að undan er rakið.
Þessi uppbygging, sem er til þess fallin að þétta byggð, leysir ekki nein vandamál hjá ungu fólki með venjulegan fjárhag og enga djúpa vasa til að fara í, þar sem útilokað er að það geti greitt þær fjárhæðir sem þarf að greiða til þess að geta eignast þessar íbúðir. En það virðist vera mikil eftirspurn eftir þessum vel staðsettu glæsilegu eignum, hjá fólki eins og sést á lista yfir seldar íbúðir að Mýrargötu 26. Þar eru þrjár íbúðir óseldar.