Á tímum nýfrjálshyggjunnar var okkur seld hugmynd um að stjórnmál snúist fyrst og fremst um frelsi einstaklingsins, persónufrelsi, kynjajafnrétti og kynfrelsi. Við máttum öll vera eins hinseginn og hýr og við vildum (eða ekki) en á sama tíma yrðu engar breytingar gerða til að tryggja efnahagslegt réttlæti eða binda enda á fátækt eða heimilisleysi. Ekkert yrði raunverulega gert sem dragi úr völdum eða auði hinna ríku á sama tíma og leyniþjónustur og kauphallir vesturlanda hófu að vefja sig með fána hinsegin samfélagsins. Ef vinstrið á að ná vopnum sínum verður það að sameinast um efnahagslegar framfarir sem sameinar vinnandi fólk gegn þeim sem vilja verja óbreytt ástand og óbreytt valdahlutföll.
Með þessu er ég á engan hátt að draga úr mikilvægi þeirra réttinda sem hefur tekist að ná fram á sviði jafnréttis síðustu áratugi heldur aðeins að benda á að á sama tíma hefur okkur farið aftur þegar kemur að jöfnuði og fátækt. Skattar hafa hækkað á vinnandi fólk og kostnaður okkar við að lifa hefur hækkað mikið. Margt fólk hefur vaknað upp við að lifa í okursamfélagi þar sem launin duga oft ekki fyrir eðlilegu lífi.
Þessar staðreyndir eru afleiðingar ríkjandi hugmyndafræði hægrisins (og því miður hluta vinstrisins), nýfrjálshyggju, og þróun kapítalismans undanfarna áratugi. Kerfi sem leitast við að einkavæða sífellt stærri hluta samfélagsins og brjóta niður almenna velferð. Við eigum öll að geta notið þess að vera eins og við viljum og elskað þá sem við viljum án þess að óttast fátækt eða sífellt hækkandi húsnæðiskostnað. Ef vinstrið á að ná vopnum sínum verður það að endurheimta traust verkafólks. Lausnirnar eru allar til og það þarf enga stjórnmálalega nýsköpun til þess að finna út hvernig hægt sé að auka jöfnuð eða laga húsnæðiskerfið. Lausnirnar eru allar þekktar en vinnandi fólki skortir vald til þess að innleiða þær.
Ef síðustu ár hafa kennt okkur eitthvað er það að nóg er til af peningum. Þetta má sjá um allan heim. Á sama tíma og Seðlabankar heimsins pumpa út óskiljanlega stórum fjárhæðum og stórfyrirtæki vesturlanda skila met hagnaði, sjáum við vinnandi fólk berjast í bökkum. Eitthvað er ekki alveg eins og það á að vera. En á sama tíma og þetta hefur orðið ljóst að ríkið geti í raun prentað mun meira af peningum en áður hefur verið viðurkennt (án þess að það leiði til verðbólgu) er líka ljóst að sú uppgötvun er lítils virði ef verkafólk er gott sem valdalaust í eigin samfélagi. En ef verkafólk hefði völd þá gæti það beitt afli ríkisins til þess að gera svolítið stórkostlegt: Byggt innviði og lækkað kostnað okkar allra við að lifa um stórar upphæðir á sama tíma og við tökum stór skref í átt til þess að vinna bug á fátækt og hlýnun jarðar. Og allt án þess draga kraft úr atvinnulífinu heldur þvert á móti aukið þrótt atvinnulífsins á sama tíma. Eða í það minnsta stórs hluta þess.
Með því að beita afli ríkisins getum við gert það sem Bandaríkin gerðu eftir kreppuna miklu og var stór þáttur í því að landið er það stórveldi sem það er í dag þó talsvert hafi hallað undan fæti síðustu áratugi. Þetta er sama leið og Kína hefur notað á síðustu árum til að stórbæta lífsskilyrði þar í landi. Það er ein ástæða þess að lífslíkur í Kína eru í fyrsta sinna betri heldur en í Bandaríkjunum. Með því að byggja upp öflugt opinbert húsnæðiskerfi, samgöngukerfi, og fjárfesta í heilbrigðiskerfinu og menntun getum við lækkað kostnað almennings um tugi og hundrað þúsunda á mánuði. Bókstaflega. Við erum að tala um alvöru ókeypis heilbrigðisþjónustu og menntun og öruggt húsnæði fyrir alla. COVID-tíminn hefur sýnt okkur þetta er hægt og að fjármunirnir séu til staðar.
Gott dæmi um svona innviðauppbygging er uppbygging ASÍ á Bjargi íbúðarfélagi sem sýnir að hægt er að lækka húsnæðiskostnað fólks um hundrað þúsund á mánuði með því að notast við óhagnaðardrifnar lausnir fjármagnaðar af ríki og sveitarfélögum í stað markaðslausna. Slíkt myndi ekki aðeins vera réttlátt heldur hafa mjög jákvæð áhrif á atvinnulífið þar sem stórlega myndi draga úr þrýstingi á launahækkanir og samkeppnishæfni atvinnulífsins batna sem því nemur. Slíkt myndi þar að auki draga úr verðbólguþrýstingi sem er stórt vandamál innan hagkerfa sem leggja of mikla áherslu á markaðslausnir. Miðað við hvað hægrið talar mikið um samkeppnishæfni er það eitt af undrum veraldar að innviðauppbygging sem þessi sé nánast aldrei nefnd í því samhengi.
Ástæðan er sú að þessar hugmyndir ganga gegn skammtíma hagsmunum og skammtímagróða margra fyrirtækja og kapítalista og þrengja að möguleikum margra til að hagnast á kostnað vinnandi fólks. Hægrið hefur undanfarna áratugi byggt upp stjórnmál sem ganga í stórum atriðum út á að afneita aðkomu ríkisins að uppbyggingu samfélagsins. En þó öflug innviðauppbygging myndi fara gegn hagsmunum margra kapítalista (aðallega þeirra sem hafa komið sér vel fyrir á ríkisjötunni) myndi hún koma sér vel fyrir aðra vegna lægri launakostnaðar og sterkari innviða. Stór hluti hins fjármálavædda kapítalisma er hins vegar ófær um að horfa til lengri tíma og skipulag margra fyrirtækja er oftast nær talið í mánuðum og ársfjórðungum en ekki árum eða áratugum.
Markmið verkalýðshreyfingarinnar á komandi kjörtímabili og þeirra stjórnmálahreyfinga sem vilja ná árangri í því að vinna bug á fátækt verður að vera að sameinast um uppbyggingu eins og þeirri sem er lýst hér á undan. Uppbyggingu sem miðar að því að skapa raunverulegt efnahagslegt réttlæti fyrir vinnandi fólk með öðrum lausnum en markaðslausnum. Slík uppbygging verður aðeins að veruleika ef hreyfingar vinnandi fólks ná saman og skilja stuðningsflokka nýfrjálshyggjunnar eftir.
Höfundur er félagi í Sósíalistaflokki Íslands