Loftslag og landnýting: Yfirdrifin viðbrögð við sjónvarpsþætti

Erfitt er að eiga við vanda ef honum er afneitað, skrifar Ólafur Arnalds prófessor um þau viðbrögð sem urðu við sjónvarpsþætti RÚV um kolefnisspor landnýtingar.

Auglýsing

Nýverið sýndi RÚV þátt úr röðinni „Hvað getum við gert?“ þar sem fjallað er um loftslagsbreytingar (1). Að þessu sinni var athyglinni beint að því hve nýting mannsins á landi losar mikið af gróðurhúsalofttegundum – þ.e. að kolefnisspori landnýtingar. Það losnar tvöfalt meira af gróðurhúsalofttegundum úr íslenskri mold (>10 milljónir tonna CO2; einkum framræstu votlendi), en vegna annarra athafna mannsins samkvæmt framtali Íslands til Loftslagssamnings SÞ. Þátturinn á RUV var innan við 7 mínútur að lengd og rætt við þrjá aðila, einn frá Landgræðslunni, annan frá samtökum sauðfjárbænda og svo undirritaðan. Þarna var bent á staðreyndir með fremur hlutlausum hætti.

Viðbrögð við sýningu þáttarins voru æði misjöfn og oft á tíðum æði yfirdrifin. Meðal annars fór þingmaður mikinn í færslu á samfélagsmiðlum sem fór vítt um miðlaheiminn. Hörð viðbrögð við sjónvarpsþættinum urðu að fréttaefni í fjölmiðlum. Þáttastjórinn, Sævar Helgi Bragason, svaraði prýðilega spurningum um gagnrýni á þáttinn í viðtali á visir.is en í kjölfarið jókst hernaðurinn gegn staðreyndum um losun gróðurhúsalofttegunda vegna landnýtingar á samfélagsmiðlum.

Í máli þeirra sem gagnrýndu efni þáttarins var beitt röksemdum sem áður hafa sést, svo sem að i) gæðastýring í sauðfjárrækt tryggi „sjálfbæra landnýtingu“, enda vottuð af Landgræðslunni; ii) bændur græða upp mikið land; iii) mikið land hafi verið friðað fyrir beit; iv) fé hafi fækkað mjög mikið; og v) landinu fari almenn mikið fram. Allt þetta er rétt upp að vissu marki. En taktíkin minnir eigi að síður á klassísk afneitunarfræði, eins og hér verður vikið nánar að.

Gæðastýringin. Gögn sem fengust eftir úrskurð Úrskurðarnefndar um upplýsingamál sýna ljóslega að gæðastýringin er „grænþvottur“, þ.e. öll nýting er vottuð jafnvel þótt ástand landsins sé mjög slæmt. Landgræðslan er látin votta samkvæmt viðmiðum „landbúnaðarráðuneytis“ sem stofnunin í raun viðurkennir ekki og mótmælti harðlega. Síðan þurfa framleiðendur ekki einu sinni að standast hin arfaslöku og ófaglegu viðmið. Beitarþungi er jafnframt víða mjög mikill og langt umfram eðlileg viðmið. Gerð var ítarleg grein fyrir þessum niðurstöðum í riti sem nefnist „Á röngunni. Alvarlegir hnökrar á framkvæmd landnýtingarþáttar gæðastýringar í sauðfjárrækt“ (2).

Rétt er að halda því til haga að margir sauðfjárbændur nýta beitilönd í góðu ástandi en neikvæð viðbrögð við ábendingum um beit á land í slæmu ástandi er þeim sem hafa aðgang að góðu landi verulega til baga, eins og rannsóknir sýna (3,4).

Fróðlegt verður að sjá hvernig tekst til í næstu umferð gæðastýringarinnar, sem nú verður háð nýjum lögum um Landgræðslu og væntanlegri reglugerð um sjálfbæra landnýtingu.

Slæmt ástand lands er staðreynd. Viðbrögð við þættinum sýna að það á sér stað afneitun á slæmri stöðu vistkerfa á Íslandi í ákveðnum hópum. Ein merkilegasta staðhæfingin sem þar sást var að sauðfé valdi litlu um gróðureyðingu landsins. Erum við virkilega ekki komin lengra en þetta? Þessi afneitun á sér hliðstæðu í afneitun bíla- og olíuiðnaðarins á blýmengun á síðustu öld, hún minnir á tóbaksiðnaðinn og ekki síst afneitun eldsneytisiðnaðarins á loftslagshlýnun. Það hefur verið bent á hið slæma ástand íslenskra vistkerfa allt frá því fyrir aldamótin 1900. Tengsl beitar og landhnignunar eru oftast augljós. Kortlagning á jarðvegsrofi sem og nýlegt stöðumat verkefnisins GróLind varpa ljósi á umfang vandans. Því miður virðast margir haldnir svokallaðri „samdaunasýki“ (e. shifting baseline syndrome, heilkenni sem fyrst var skilgreint um blindni á bága stöðu fiskiauðlinda) – og neita einfaldlega að sjá slæmt ástand landsins.

Rofabarð í auðn sem áður var fullgróin og skógi vaxin að mestu. Hér var áður höggvinn viður og gert að kola. Svæðið er ennþá nýtt til beitar og nýtingin vottuð sem sjálfbær samkvæmt gæðastýringu í sauðfjárrækt. Mynd: Ólafur Arnalds

Í þessari umræðu er ekki verið að afskrifa áhrif eldgosa, veðurfars og annarra náttúrulega þátta – en rétt að minna á að eldvirkni og veðurfarssveiflur eru náttúrulegar og eldri en landnám Íslands, en þá hófst hrunið. Samspil margra þátta er ákaflega mikilvægt við útskýringar á hnignun lands almennt. Í riti sem nefnist „Ástand og hrun íslenskra vistkerfa“ er reynt að fara með aðgengilegum hætti yfir þessa þætti og breytingar á vistkerfum landsins sem eru einmitt breytilegar eftir aðstæðum, sem og ástæðurnar fyrir hnignun landkosta (5).

Ávaxtatínsla afneitunarfræða – önnur atriði. Það er þekkt afneitunartaktík, sem örlar á nú, að biðja sífellt um ítarlegri gögn („more data“ eða „show me the data syndrome“) þegar rannsóknir sýna fram á umhverfisvanda. Það er þó vert að minna á að samkvæmt íslenskum lögum á náttúran að njóta vafans – en það gerir hún sannarlega ekki nú er varðar ástand vistkerfa. Þegar tiltekið er að fé fari fækkandi er yfirleitt miðað við algjört hámark á fjölda fjár í landinu á árunum kringum 1980. Þá eins og nú var því iðulega neitað að sauðfé hefði áhrif á vistkerfi landsins. Framleiðslan og þar með heildarálag á landið hefur þó ekki minnkað að sama skapi frá 1980, því frjósemi og fallþungi fjár hefur aukist örum skrefum samhliða fækkun fjár (þó misjafnt eftir svæðum). Ekki hefur verið sýnt fram á að vistkerfi landsins séu í framför nema einmitt þar sem fé hefur fækkað við búháttabreytingar. Vissulega græða bændur upp land en sú uppgræðsla er aðeins „dropi í hafið“ á móti því gríðarlega landflæmi sem er í slæmu ástandi og enn er nýtt til beitar. Stór hluti svæða sem eru friðuð samkvæmt gæðastýringunni voru áður að mestu friðuð og það er gott þegar tekst að halda búfénaði frá þessum svæðum. Sum svæðin eru þó alls ekki fjárlaus þrátt fyrir orð þar um.

Auglýsing

Loftslagsmálin. Sjónvarpsþátturinn góði fjallaði fyrst og fremst um áhrif landnýtingar á losun gróðurhúsalofttegunda. Hver hektari af framræstu votlendi losar yfir 20 tonn CO2 á ári samkvæmt viðurkenndum losunarstuðlum. Ef stærsti hluti vetrarfóðurs er framleiddur á slíku landi verður kolefnisspor framleiðslunnar rosalega þungt, jafnvel 200-400 kg CO2 á hvert kíló lambakjöts (svipað og eitt flugfar til Evrópu, heimilisbíllinn losar um 3500 kg CO2 á ári til samanburðar). Ef beitilandið er jafnframt framræst votlendi eða illa farið land sem losar CO2 verður kolefnissporið ennþá stærra. Hér er ekki verið að kenna núverandi bændum um syndir fortíðarinnar, það er bara þannig að núverandi losun skrifast á þá landnýtingu eða framleiðslu sem nú fer þar fram.

En víða háttar svo til að landið er að binda kolefni – þar sem vistkerfi eru í góðu ástandi og álagið hóflegt – landið vel gróið og í framför. Það er von að fólk sem lætur sig varða loftslagsmál vilji vita hvaðan kjötið kemur – eins og Sævar Helgi bryddaði á í þættinum góða og lyfti upp tveimur vænum lambalærum með spurningu um uppruna.

Gagnrýnendur þáttarins hafa kvartað undan upplýsingaóreiðu er varðar losun CO2 frá landi – að upplýsingar um kolefni og land séu frekar óaðgengilegar. Ástæða meintar upplýsingaóreiðu kann þó einnig að vera að vísindalegar upplýsingar eru taldar óheppilegar og er hafnað á þeim grunni. Gerð var heiðarleg tilraun til að gera upplýsingar um land og gróðurhúsalofttegundir aðgengilegar með birtingu ritsinsLoftslag, kolefni og mold“, (6), þar sem þessi mál eru útskýrð nánar. Þar er einnig umfjöllun um bindingu CO2 með landgræðslu og öðrum aðgerðum sem kallað hefur verið eftir. Ljóst er að möguleikarnir til að binda kolefni í mold á stórum samfelldum svæðum eru gríðarlega miklir, sums staðar með friðun lands og vistheimtaraðgerðum, annars staðar með hófstillingu á beitarálagi á vel grónu landi. Við þær aðstæður getur beitin aukið á kolefnisbindinguna.

Að lokum. Erfitt er að eiga við vanda ef honum er afneitað. Kannski hefur það aldrei verið augljósara í heiminum en á tímum COVID, þar sem íslenska þjóðin bar gæfu til þess að fara að ráðum vísindamanna. Svo var einnig þegar loksins tókst að hefja endurreisn fiskistofna umhverfis landið. Ástand vistkerfa á Íslandi er víða bágborið og nýting lands veldur mikilli losun gróðurhúsalofttegunda. Við því þarf að bregðast. En það er ástæða til bjartsýni: í framtíðinni getur bætt landnýting og endurheimt vistkerfa orðið að mikilvægum þáttum í kolefnishlutleysi Íslands.

Höfundur er prófessor við Landbúnaðarháskóla Íslands og ber einn ábyrgð á efni pistilsins.

Myndin efst í greininni er af sauðfé á beit í auðn. Svæðið er mekrt sem friðað fyrir beit samkvæmt gæðastýringu í sauðfjárrækt og vottun gefin út samkvæmt því.

Heimildir:

  1. Hvað getum við gert? Þáttaröð. Nýting lands. Saga Film, umsjón Sævar Helgi Bragason. https://www.ruv.is/sjonvarp/spila/hvad-getum-vid-gert/30574/93ie78
  2. Á röngunni. Alvarlegir hnökrar á framkvæmd landnýtingarþáttar gæðastýringar í sauðfjárrækt. Ólafur Arnalds 2019. Rit LbhÍ nr. 118. https://www.moldin.net/aacute-roumlngunni.html
  3. Connecting sustainable land use and quality management in sheep farming: effective stakeholder participation or unwanted obligation? Jónína Sigríður Þorláksdóttir 2015. MS ritgerð, Umhverfis- og náttúruvísindasvið HÍ.
  4. Of sheep and men. Analysis of the agri-environmental cross-compliance policies of the Icelandic sheep grazing regime. Jóhann Helgi Stefánsson 2018. MA ritgerð, Félagsvísindasvið, Háskóli Íslands, Reykjavík.
  5. Ástand og hrun íslenskra vistkerfa. Ólafur Arnalds 2020. Rit LbhÍ 130. https://www.moldin.net/aacutestandsritieth.html
  6. Loftslag, kolefni og mold. Ólafur Arnalds og Jón Guðmundsson 2020. Rit Lbhí 133. https://www.moldin.net/loftslag-og-mold---rit.html

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Kolbrún Benediktsdóttir varahéraðssaksóknari í dómsal í dag.
„Hér er ekki um leikaraskap, slysni eða eitthvað grín að ræða“
Það er mat ákæruvaldsins að Marek sé ekki að segja nákvæmlega allt sem hann muni frá deginum sem bruninn á Bræðraborgarstíg varð. Verjandi fer fram á að ef hann verði fundinn sekur og ósakhæfur verði hann ekki dæmdur til öryggisgæslu.
Kjarninn 5. maí 2021
Birna Einarsdóttir bankastjóri segir ljóst að spennandi tímar séu framundan, vegna fyrirhugaðrar sölu ríkisins á hluta af hlut sínum í Íslandsbanka.
Íslandsbanki hagnaðist um 3,6 milljarða á fyrsta ársfjórðungi
Eigið fé Íslandsbanka nam 185 milljörðum króna í lok mars. Bankastjórinn segir spennandi tíma framundan, í ljósi þess að stefnt sé að skráningu bankans á verðbréfamarkað að undangengnu útboði á hluta af hlut ríkisins í honum.
Kjarninn 5. maí 2021
Höfuðstöðvar Arion banka í Borgartúninu
Arion hagnast um 6 milljarða á þremur mánuðum
Þrátt fyrir lága vexti og efnahagssamdrátt var hagnaður Arion banka á fyrsta fjórðungi þessa árs mun meiri en á sama tímabili í fyrra.
Kjarninn 5. maí 2021
Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata.
„Þeirra er ævintýralega ósanngjarna lýðræðið sem við búum við“
Björn Leví segir að skipting sæta milli þingflokka sé mjög ójöfn. Auðveldasta lausnin til að leysa vandamálið sé að fjölga jöfnunarsætum – það sé ekki flókið né ósanngjarnt.
Kjarninn 5. maí 2021
Samkvæmt því sem segir í nafnlausum skoðanadálki Morgunblaðsins í dag „gæti orðið bið á því“ að blaðið sendi fulltrúa sinn á fund félaga í BÍ til þess að ræða umdeilda skoðanaauglýsingu Samherja sem beindist gegn fréttamanninum Helga Seljan.
Morgunblaðsmenn ekki spenntir fyrir því að ræða auglýsingu Samherja við félagsmenn BÍ
Í ritstjórnardálki í Morgunblaðinu segir að það „gæti orðið bið á því“ að yfirmenn blaðsins þekkist boð um að mæta á fund félaga í Blaðamannafélaginu til að ræða siðferðileg álitaefni í tengslum við birtingu umdeildrar auglýsingar frá Samherja á mbl.is.
Kjarninn 5. maí 2021
Lilja Rafney Magnúsdóttir, þingmaður VG.
Umræða um málefni innflytjenda gengur fram af þingmanni – Skömm að tala málið niður
Þingmaður Vinstri grænni segir að Íslendingar eigi að sýna þann þroska að geta sinnt útlendingamálum með almennilegum hætti og gera það sem best – „við sem rík þjóð“. Umræða Miðflokksmanna hafi gengið fram af henni í gær.
Kjarninn 5. maí 2021
Þriðjungur fyrstu ferðagjafarinnar fór til tíu fyrirtækja
Nú stendur til að endurnýja ferðagjöf stjórnvalda til að örva eftirspurn innanlands. Rúmur helmingur þeirra sem áttu rétt fyrstu ferðagjöfinni hafa nýtt hana. Á meðal þeirra sem fengu mest í sinn hlut voru eldsneytissalar og skyndibitakeðjur.
Kjarninn 5. maí 2021
Hluti þingliðs Miðflokksins á björtum og fallegum sumardegi fyrr á kjörtímabilinu.
Stillt upp á lista hjá Miðflokknum í öllum kjördæmum
Fimm manna uppstillingarnefndir munu setja saman framboðslista Miðflokksins í öllum kjördæmum landsins fyrir komandi kosningar, en ekki kosið í sæti á lista á félagsfundum. Fylgi flokksins hefur verið í nokkurri lægð að undanförnu.
Kjarninn 5. maí 2021
Meira úr sama flokkiAðsendar greinar