Ef meirihluti hjúkrunarfræðinga á Íslandi væri siðlaus gætu þeir krafist að allir hjúkrunarfræðingar setjist á sótthreinsað gólfið á göngum spítalans þar til vinnuveitandi þeirra, ríkið, samþykkir ósk þeirra um 1,5 milljóna króna í vikulaun. Góðhjartaðir hjúkrunarfræðingar virða það að þeim sé tryggð atvinna á heilbrigðisstofnunum landsins, en eru látnir sætta sig við bág kjör á móti. Nú rís þetta harðduglega góðhjartaða fólk upp og segir „ekki meir.“ En þetta ósætti milli starfsmanna og vinnuveitanda í einokunarstöðu er á kostnað almennings í landinu sem hefur engra annara kosta völ en að þegja og bíða þar til verkfallinu er lokið. Það verður því að segjast að með lagasetningu sýnir löggjafavaldið okkur að almannahagsmunagæsla ríkisins er til fyrirmyndar. En hvað meina ég með því?
Aðkoma ríkisins er tvenns konar
Fyrst og fremst verður að halda því til haga að ríkið er aðkomuaðili að kjaradeilunni á tvennan hátt: annars vegar sem rekstraraðili heilbrigðisstofnana, þar af leiðandi vinnuveitandi hjúkrunarfræðinga, og hins vegar sem löggjafi og hagsmunafulltrúi almennings. Þetta skapar alls konar erfiðleika og hagsmunaárekstra sem sýndu sig á skýran hátt í umræðu um lagasetningu á verkfall hjúkrunarfræðinga o.fl.
Ríkið sem löggjafi
Ríkið er í einokunarstöðu sem þjónustuaðili í heilbrigðisgeiranum. Ríkið verðleggur þjónustuna, setur launakjör starfsfólksins, en takmarkar líka samkeppni. Ríkið niðurgreiðir, fyrst og fremst með Sjúkratryggingum, þjónustu sem hið opinbera veitir en það er ekki hægt að ganga að því vísu að einkaaðilar njóti sömu forréttinda. Með þessari samkeppnishindrun auk reglugerðafrumskógarins stendur löggjafinn í vegi fyrir því að einkaaðilar eigi möguleika á að bjóða upp á betri þjónustu, betri launakjör og öflugri tækjabúnað í samkeppni við hið opinbera sem veitir ríkinu einokunarstöðu.
Til að vinna gegn ótímabærum dauðsföllum og þjónustuskorti við neytendur heilbrigðisþjónustu á Íslandi er réttast að setja lög á verkfallið. Almannahagur felst í því að halda fólki á lífi, jafnvel heilbrigðu. Ég sætti mig ekki við að búa í óvissu um hvort ég fái ásættanlega þjónustu strax, eftir sex mánuði eða einfaldlega ekki, ef ég skyndilega veikist. Ég get ekki ímyndað mér það erfiði sem sjúklingar og aðstandendur þeirra sem veikir eru í dag þurfa að ganga í gegnum.
Ríkið leikur sér að eldinum, því að samhliða takmörkun á samkeppni á markaði heilbrigðismála ætti ríkið að vera að ábyrgjast það að reka kerfi sem virkar vel og alltaf. Það að reka lamað heilbrigðiskerfi við einokunaraðstæður er því alltaf óásættanlegt. Svipuð svívirðing á einokunarstöðu hins opinbera kæmi kannski upp ef Orkuveita Reykjavíkur myndi ákveða að einungis skammta raforku milli 06:00 og 18:00. Því skal þó haldið á lofti að sökin er ekki hjúkrunarfræðinga. Ríkið er bara lélegur vinnuveitandi.
Ríkið sem vinnuveitandi
Að reka heilbrigðisstofnun, hvað þá heilbrigðiskerfi, er örugglega ekki auðvelt. Stjórnendur í heilbrigðiskerfinu, embættismenn og starfsfólk, læknar sem hjúkrunarfræðingar, eiga hrós skilið fyrir vel unnin störf miðað við það fjármagn sem stendur til boða. En af hverju á almenningur að sætta sig við lélegt heilbrigðiskerfi því að það var ekki til nægt fjármagn? Myndi fólk sætta sig við skerta rafveituþjónustu vegna ónægs fjármagns? Ef ríkið hefur ekki fjárhagslega burði til að reka heilbrigðisstofnanir landsins, af hverju er þá ekki hleypt aðilum að borðinu sem gætu tryggt fjármagn? Trygging fjármagns gæti bætt afköst heilbrigðisstofnunar, eflt starfsanda vinnustaðarins og bætt þjónustu við almenning. Ég veðja á að lítið yrði um þá þjónustuskerðingu sem fylgir verkföllum á einkarekinni heilbrigðisstofnun, því almenningur myndi aldrei versla við aðila á heilbrigðismarkaði sem byði upp á lélega, óstöðuga þjónustu - nema auðvitað ef það væri eini þjónustuaðilinn sem stæði til boða. Hjúkrunarfræðingar fengju á samkeppnismarkaði mannsæmandi laun sem myndi hressilega bæta kjör þeirrar harðduglegu stéttar.
Sem vinnuveitandi er aldrei réttlætanlegt að beita þvingunum til þess að láta starfsfólkið vinna á tilneyddum kjörum. Atvinnusamkomulag starfsmanns og vinnuveitanda hlýtur að krefjast þess að báðir samningsaðilar séu ánægðir með skyldur og kjör samningsins. Frá því sjónarhorni er ríkið að gera það allra vitlausasta í stöðunni með því að setja lög á verkfallið.
Annar vinkill
Þrátt fyrir velvild við almenning, er löggjafinn (lesist: ríkið) að skjóta vinnuveitandann (lesist: sjálft sig) í fótinn með lagasetningu. Með þessu er launum haldið lágum og ekki er lagasetningin framkvæmd til að efla starfsmóral á einum stærsta vinnustað landsins. Í fréttum undanfarið hefur verið talað um sára þörf á endurnýjun í stéttinni sökum aldurs nústarfandi hjúkrunarfræðinga og ekki bætist staðan þegar atgervisflóttinn til Noregs er tekinn inn í myndina. Þar að auki er almenningur að eldast en gert er ráð fyrir að fimmti hver Íslendingur verði eldri en 65 ára árið 2030, þ.m.t. mamma mín og pabbi.
Þetta segir okkur það að eftirspurn með hjúkrun er að aukast, en framboð hjúkrunar minnkar á sama tíma og verð hjúkrunar helst á pari. Dæmið gengur ekki upp m.v. fyrirliggjandi forsendur. En nú er ríkið búið að finna þá frábæru lausn að beina byssuhlaupinu að hjúkrunarfræðingum og bjóða þeim val: Semdu, eða við látum Gerðardóm semja fyrir þig. Ríkið vinnur, með sinni ofbeldisfullri snilligáfu, til eins árs. Allir aðilar, þeirra á meðal almenningur, tapa til lengri tíma.
Lausnin
Ríkisvaldið hefur stöðugt hækkað framlög til málaflokks heilbrigðismála síðastliðin ár en það dugar ekki til. Ríkið, sem rekstraraðili heilbrigðisþjónustu, kemur illa fram við starfsfólk, og neytendur þjónustunnar á sama tíma og það bannar öðrum valkostum að blómstra.
Hjúkrunarfræðingar, líkt og annað vinnandi fólk skal fá réttlætanleg laun fyrir þá vinnu sem það leggur af hendi. Það hlýtur að teljast lélegt að vinnuveitandi geti ekki borgað fyrir virði starfskrafta hjúkrunarfræðinga vegna fjárskorts. Ríkisvaldið hefur frá byrjun sett leikreglurnar upp þannig að allir tapa með því að stilla sér upp sem einokunaraðila á markaði sem það getur ekki sinnt. Ef ríkið hefur ekki fjárhagslegt svigrúm til þess að tryggja sanngjörn kjör starfsfólks, og mannsæmandi þjónustu neytenda heilbrigðisþjónustu, ættu þeir kannski að leyfa öðrum að gera það.