Margoft hefur verið á það bent að tölfræði um rannsóknir og þróun hér landi væri ábótavant. Nú síðast í ERAC-úttektinni á íslensku vísinda- og nýsköpunarkerfi sem birt var á síðasta hausti. Þar var bent á að meginveikleiki stefnumótunar hér á landi væri skortur á greiningu og árangursmælingum („evidence“). Í núverandi stefnu hefur Vísinda- og tækniráð því lagt höfuðáherslu á að stórbæta greiningarvinnu svo að hægt væri að byggja aðgerðir og auknar fjárveitingar á traustari grunni. Mikilvægt skref var stigið í aðgerðaáætlun ráðsins á síðasta ári þegar ákveðið var að færa til Hagstofunnar reglubundna mælingu á fjárfestingu hins opinbera og atvinnulífsins til rannsókna og þróunar, en sambærilegar stofnanir sjá um slíka greiningarvinnu í nágrannalöndum okkar.
Þetta var augljóslega heillaskref. Fyrir nokkrum dögum birti Hagstofan fyrstu útreikninga sína fyrir árið 2013 og koma þeir mjög á óvart: 1,88% af vergri landsframleiðslu var varið til vísinda og þróunar á því ári, sem er rúmlega 0,7 prósent lækkun frá síðustu mælingu. Taka verður skýrt fram að ekki er um raunverulega lækkun að ræða heldur hafa opinberar fjárfestingar og fjárfestingar atvinnulífsins verið ofreiknaðar um árabil, og ekki aðeins frá Hruni. Ljóst er því að mikið vantar upp á að fjárfesting til rannsókna og nýsköpunar, hins opinbera og atvinnulífsins samanlagt, nái 3% takmarkinu af vergri landsframleiðslu eins og stefnt hefur verið að.
Í áðurnefndri aðgerðaáætlun Vísinda- og tækniráðs fyrir árin 2014-16 hefur nú þegar verið gripið til ýmissa aðgerða til að laða fram meiri fjárfestingu til rannsókna og þróunar sem mun leiðrétta þessa mynd, en ný tölfræði kallar þó á endurmat aðgerða. Þegar hefur verið ákveðið að hækka framlög til samkeppnissjóðanna um 2,8 milljarða 2015 og 2016 sem mun hafa áhrif til hækkunar á framlagi ríkisins. Þar er einnig tekið undir markmið um að framlög til háskóla skuli verða sambærilega við meðalviðmið í háskólum á Norðurlöndum árið 2020, en nú er Háskóli Íslands t.d. aðeins hálfdrættingur á við háskóla á Norðurlöndum. Það er því ljóst að framlög til rannsóknarstarfs og rannsóknarinnviða muni stórhækka á næstu árum gangi þessi stefna eftir.
En ekki er síður mikilvægt að hvetja atvinnulífið til dáða. Í Evrópu er jafnan stefnt að því að atvinnulífið standi straum af 2/3 framlagsins, en í litlu hagkerfi er raunhæfara að miða við helming á móti helmingi hins opinbera - eins og raunin hefur verið hér á landi. Í aðgerðaáætluninni eru tillögur um ýmsa skatahvata til að laða fram fjárfestingu fyrirtækja til vísinda og nýsköpunar en fylgjast þarf vel með að þeir virki til hækkunar.
Það er því mikilvægt að fagna þeim stóra áfanga sem ný og leiðrétt mæling Hagstofunnar markar – jafnvel þó að niðurstaðan sé áfellisdómur yfir fyrri mælingum. Ný tölfræði gefur okkur loksins fastara land undir fótum í stefnumörkun í þessum mikilvæga málaflokki og í baráttu fyrir auknum framlögum til háskóla, rannsóknarstofnana og samkeppnissjóða. Ég hvet okkur til að nota þessar lykiltölur vel.
Höfundur er formaður vísindanefndar Vísinda- og tækniráðs.