Það er merkilegt að sjá þegar lögmenn ryðjast fram á ritvöllinn til að reka áróður fyrir málum sem þeir eru að flytja fyrir dómstólum. Dæmi um þetta er t.d. grein sem Jón Elvar Guðmundsson lögmaður og einn af eigendum LOGOS lögmannsstofu ritaði í Viðskiptablaðið fyrr í þessum mánuði og nefndi Ævarandi deilur við skattinn. Fyrr á þessu ári hafði lögmaður og eigandi að sömu lögmannsstofu einmitt haft uppi svipaðan áróður í sambærilegu máli þegar hann birti grein í Innherja sem er vefmiðill á Vísi. Það er greinilega ekki nóg að reka málin einungis fyrir dómstólum heldur þarf líka að leggja þau fyrir dómstól götunnar og boða í leiðinni tiltekna innrætingu í samfélaginu. Báðir þessir aðilar reyna með skrifum sínum að gera lítið úr Skattinum og sýna fram hversu heimskulegur málatilbúnaður hans sé.
Í greininni í Viðskiptablaðinu, sem birt er sem skoðun hans, heldur lögmaðurinn því fram að Skatturinn sé í tilteknu máli farinn að skipta sér af fjármagnsskipan ákveðins félags og leggja mat á hvort rétt hafi verið af því að taka lán til rekstrarins. Finnist Skattinum að það hafi ekki verið rétt séu vextirnir ekki frádráttarbærir til skatts og skipti það hann engu máli þótt vaxtaberandi lán sé sannanlega tekið og notað í rekstrinum. Þetta kallar lögmaðurinn uppátækjasemi og nýsköpun.
Að taka lán í rekstri til að afla lausafjár eða til að greiða niður önnur lán, og það jafnvel lán á lægri vöxtum, snýst ekki um fjármagnsskipan fyrirtækis. Hugtakið (Optimal) Capital Structure, sem er jafnan eitt af markmiðum rekstrar, snýst um mat á samspili lánsfjár og eigin fjár út frá mælikvörðum á EBIT (earnings before interest and tax) og EPS (earnings per share). Félag sem er með 85% eiginfjárhlutfall, veltufjárhlutfall upp á 7 til 8 og engar langtímaskuldir er ekki að velta fyrir sér fjármagnsskipan þegar tekið er langtímalán á háum vöxtum sem þó er ekki hærra en svo að þessi hlutföll breytast nánast ekkert við lántökuna.
Þetta er einmitt spurning sem Skatturinn þarf alltaf að vera að svara; eru útgjöldin, í þessu tilviki vextirnir, í þágu rekstrarins og ætluð til að afla honum tekna eða eigna sem nýttar eru til tekjuöflunar í rekstrinum. M.ö.o þá þurfa rekstraraðilar og skatturinn alltaf að spyrja sig um tilgang útgjaldanna og í þessu tilviki hver hafi verið tilgangurinn með lántökunni og greiðslu vaxtanna. Lögmaðurinn virðist hafa gleymt að geta þess hvaða sjónarmið Skatturinn hafði í málum af þessum toga en hér skulu þau rifjuð upp:
Mál þetta snýst trúlega um að erlent félag (E), sem á dótturfélag á Íslandi (Í), ákvað fyrir allmörgum árum að nýta sér fjárfestingaleið Seðlabanka Íslands sem gekk út á að selja bankanum erlendan gjaldeyri í staðinn fyrir íslenskar krónur á mun hærra gengi en opinber gengisskráning sagði til um. Samkvæmt reglum Seðlabankans þurfti að ráðstafa þeim krónum til kaupa á íslenskum verðbréfum, þ.e. hlutabréfum, ríkisskuldabréfum eða skráðum skuldabréfum. Af þessu tilefni var Í látið gefa út veðskuldabréf til 10 ára, afborgunarlaust í 5 ár, með 9 til 10% föstum vöxtum án sýnilegrar þarfar Í fyrir aukið handbært fé. E keypti síðan skuldabréfið og uppfyllti með því kröfuna um fjárfestingu hér á landi. Í, sem hafði yfir að ráða gríðarlega miklu lausafé, greiddi með þessu vexti af láni sem tekið hafði verið án nokkurs sýnilegs rekstrarlegs tilefnis fyrir það á meðan E aftur á móti aflaði sér tekna af gjaldeyrissölunni til Seðlabankans. Þannig var tilgangur lántökunnar að mati Skattsins að afla móðurfélaginu tekna og því voru vextirnir ekki taldir frádráttarbærir hjá Í. Dæmi nú hver sem vill.
Réttast og best er að hafa allar hliðar málsins á borðinu þegar það er skoðað og því haldið fram að deilur við Skattinn séu af annarlegum toga af hans völdum. Rétt er svo að geta þess í lokin að Skatturinn lagði ekki mat á það hvort þessi flétta móður- og dótturfélagsins hafi verið ólögmæt gagnvart Seðlabankanum.
Höfundur er fyrrverandi endurskoðandi.