Tímabil heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna hófst árið 2015 og þar var hátíðlegt loforð: Ekkert hungur árið 2030. Þegar fyrstu fjögur árin voru liðin hafði ekkert miðað í þá átt og Matvæla- og landbúnaðarstofnun SÞ (FAO) gaf út að nær 900 milljónir manna byggju enn við alvarlegt hungur, ellefta hver manneskja á jörðu. Reyndar væru tveir milljarðar af átta alvarlega vannærðir. Og svo er oft bætt við til að hafa grátt ofan í svart: Þrír milljarðar manna eiga ekki efni á heilsusamlegri næringu.
Áföll á áföll ofan
Í undanfara Matvælaráðstefnu SÞ fyrir einu ári reiknaði stofnunin Ceres 2030 að verðmiðinn á því að eyða hungri væri fimmtíu milljarðar dollara á ári í tíu ár.
Ef ríku löndin tvöfalda framlög sín og millitekjuríkin og fátækari löndin bæta skattheimtu heima fyrir og leggja til í baráttu við hungur – næst í rúma 30 milljarða dollara í viðbót við það sem nú er.
Hærri talan, 50 milljarðar, yrði langtímaáætlun því ennþá fjölgar mannfólki og mest þar sem eymdin er verst.
Hvað fæst fyrir þessa upphæð í öðru samhengi? Heildarvopnasala í heiminum er líklega nær 500 milljörðum núna eftir því sem stríð magnast.
Við gætum sem sagt byrjað á því að taka innan við 10% af því sem varið er í vopnakaup árlega og farið langt með að eyða hungri.
Fullyrt var í Öryggisráði SÞ þegar Kóvid-faraldurinn setti mark sitt á heiminn að 2.000 ríkustu einstaklingar í heiminum ættu 10.000 milljarða dollara. Ef hópurinn setti núll komma núll núll fimm prósent (0,005%) af eigum sínum í þetta málefni árlega þyrfti ekki að biðja um meiri peninga.
En peningar eru ekki allt. Það er sama hvernig vísindamenn reikna og stilla upp svona dæmum með hitaeiningum, ræktarlöndum, fjárfestingum og súluritum. Ófriður er langstærsta og veigamesta ástæðan fyrir versta hungrinu. Meira en helmingur þeirra sem stríða við hungur búa á ófriðarsvæðum. Stundum fara saman stríð og náttúruhamfarir eins og í héruðum Eþíópíu, Keníu, Sómalíu og Súdan þessi misserin og ástandið verður hrikalegt. Allt í einu bætast við 30 milljónir manna á lista hinna hungruðu þegar uppskera bregst fimmta árið í röð.
Þegar innrás Rússa í Úkraínu hófst 2022 afhjúpaðist hve fæðukerfin, flutningaleiðir og verðmyndun eru í viðkvæm fyrir áföllum. Yfirvofandi kreppa lá fyrir áður en stríðið hófst en það magnaði hana. Heilt yfir hækkaði matvælaverð um 7-8 prósent og hitti verst fyrir þá fátækustu. FAO og WFP birtu svarta spá um að á 20 svæðum í heiminum stefndi í alvarlegt hungur 2022. Jafnvel svo að hugsanlegt væri að 750 milljónir manna gætu lent á efsta og versta stigi hungursneyðar.
Langvarandi kerfisvandi
Áföll eru eitt, kerfislægur og langvarandi vandi annað. Það er ákveðin áskorun að hugsa um fæðu í samhengi við fæðukerfi. Það kallar á heildræna hugsun sem nær utan um viðfangsefnið frá upphafi til enda. Fyrst þarf að huga að vistkerfunum: Nær 70% ræktaðs lands fara í dýrafóður til að rækta kjöt sem stendur undir 20% af matvælaþörfinni. Þetta er aðferð til að breyta mörgum hitaeiningum í fáar. Með ærnum tilkostnaði: Horfnir skógar, tóm vatnsból, dauði dýra og endalausir akrar þar sem áður voru villtar lendur sem skópu og viðhéldu líffræðilegum breytileika. Það er beint samhengi milli þess hvernig mannkyn í heild aflar fæðu og stefnir líffræðilegum fjölbreytileika í hreint neyðarástand. Á ævi minni jókst matvælaframleiðsla um að minnsta kosti 300%, mannkyni fjölgaði úr 2,3 í átta milljarða, heimshagkerfið fjórfaldaðist – og 70% af plöntum og dýrum á jörðu var eytt. Þetta er hið ógnvænlega samhengi er varðar vistkerfin.
Hluti af saman vandamáli er loftslagsváin. Á þessu æviskeiði mínu hefur losun gróðurhúsalofttegunda aukist margfalt (þrátt fyrir allar ráðstefnurnar) og mjög fáir eftir sem trúa því einlægt að markmiðið náist um að halda hlýnun jarðar innan við 1,5 gráður miðað við árdaga iðnbyltingar. Stór hluti af þessari losun kemur frá landbúnaði, leið okkar til að afla matar.
Vandi vistkerfanna er líka vandi hagkerfanna. Vísindanefndin sem starfaði fyrir Matvælaráðstefnu SÞ 2021 reiknaði út að kostnaðurinn við að framleiða allan mat veraldar væri að minnsta kosti tvöfalt meiri en kæmi fram í hagtölum. Það er vegna þess að í dæminu er mengun, skógaeyðing, jarðrask, vatnsbúskapur og annað sem til þarf ekki reiknað með. Hagfræðimódelið sem við byggjum útreikninga okkar á tekur einfaldlega ekki til greina allan innbyggða kostnaðinn - af því að ,,náttúran er ókeypis“.
Síðan bætist við að mörg auðugustu ríki heims greiða niður landbúnað sem að stórum hluta er ósjálfbær og leiðir jafnvel oft af sér heilsuspillandi mataræði með tilheyrandi samfélagslegu tjóni. Líklega væru til 2.900 hitaeiningar á dag á mann um alla jörð ef skipt væri „bróðurlega“ eins og segir í Mannréttindayfirlýsingu SÞ. En það er ekki gert. Hins vegar er þriðjungi af þeim mat sem er framleitt við þessar brengluðu kringumstæður sóað eða eytt.
Um höfundinn: Stefán Jón Hafstein hefur um árabil starfað í utanríkisþjónustunni, m.a. í Afríku og verið fastafulltrúi Íslands hjá stofnunum Sameinuðu þjóðanna.
Greinin er byggð á úttekt höfundar í nýkútkominni bók: Heimurinn eins og hann er. Myndirnar eru einnig úr bókinni.