Veturinn ætlaði aldrei að taka enda en í dag 16. maí fögnum við degi ljóssins, hækkandi sól og geislum hennar. Lay Low og Systur gáfu okkur lag sem er svo íslenskt og einlægt og minnir okkur á verðmæti sólarljóssins í íslensku sálinni.
Í dimmum vetri – hækkar sól
Bræðir hjartans klakabönd – svo hlý
Í dimmum vetri – vorið væna
Vermir þitt vænghaf á ný
Höf. Lay Low
Á fáum stöðum er jafn viðeigandi að dásama dagsbirtuna og á Íslandi. Eftir vetrarskammdegið tökum við fagnandi á móti hverjum sólargeisla og eigum erfitt með að sinna venjubundnum inniverkum. En af hverju? Hvað er það sem gerir okkur svona sólgin í sólargeislana og dagsbirtuna? Jú, dagsbirtan er okkur nefnilega lífsnauðsynleg. Sólin færir okkur ekki bara D-vítamín heldur hefur hún áhrif á fjölda hormóna sem streyma um líkamann, flæði þeirra og endurnýjun. Margar viðamiklar rannsóknir hafa verið gerðar á áhrifum dagsbirtu á heilsu, vellíðan og heilastarfsemi. Með þeim hefur verið sýnt fram á mikil og jákvæð áhrif dagsbirtunnar á afköst og einbeitingu, lundarfar, streitu, ónæmiskerfið, batahorfur og svefngæði. Það er þess vegna ekki skrýtið að sólin hafi ákveðið aðdráttaafl fyrir okkur mannfólkið ekki síður en fyrir vorblómin sem bíða blómgunar.
Ljósið og náttúran
Það er einmitt áhugavert að skoða hvernig náttúran hegðar sér í samhengi við sólarljósið. Blóm og jurtir teygja sig í átt til sólar og breiða úr blöðum sínum. Ef sólar nýtur ekki í lengri tíma drjúpa þau höfði og skreppa jafnvel saman. Sumar plöntur loka krónu sinni yfir nóttina og verja sig fyrir næturkuli og raka en opna svo faðminn á móti nýjum degi við sólaruppkomu. Við mannfólkið erum ekki svo ólík gulum fífli í túni. Við þurfum á ljósinu að halda og við þurfum líka á náttúrulegum dægursveiflum að halda. Dagsbirta er okkur nauðsynleg hvort sem við búum í sveit eða í borg.
Dagsbirta í borg
Dagsbirtan er grundvallaratriði þegar byggja á vistvæna borg, borg sem stuðlar að bættri heilsu íbúa og betra umhverfi fyrir allar lífverur. Reykjavík ætlar að fylgja grænu plani til að verða græn borg með græn gildi. Með dagsbirtuna með í för um götur og garða og sólargeisla í léttum dansi í gróðursælum borgarrýmum verður til græn borg. En ef sólargeislarnir ná ekki inn í garðinn, ekki niður á gangstéttina og ekki á torgið þar sem bakarinn hefur fengið leyfi borgaryfirvalda til að stilla upp borðum og stólum, þá verður græna borgin ekki með öruggum göturýmum eða gróðursælum görðum og enginn sest í stólinn á bakaratorginu.
Ef sólargeislar ná ekki að dansa sinn einstaka dans inn um gluggann hjá Önnu gömlu á fyrstu hæð, af því að verktakinn sem byggði húsið hinu megin við götuna fékk leyfi fyrir einni hæð í viðbót, þá óttast ég að sú gamla muni brátt drjúpa höfði líkt og fífillinn þegar skyggir. Þá sest hún ekki lengur við gluggann til að fylgjast með fuglunum veiða orma upp úr rósabeðinu sem nú er hætt að bera blóm.
Dagsbirtugæði
Á degi ljóssins langar mig að minna á þau gæði sem dagsbirtan gefur og sólarljósið kallar fram. Við búum á Íslandi og þurfum birtuna og ylinn frá sólinni eftir napran og dimman vetur. Í skipulagi borgarinnar er því til mikils að vinna að gæta vel að gæðum dagsbirtu, bæði í borgarrýmum og í möguleikum sólargeisla til að ná inn í húsrýmin. Á liðnum áratugum hafa þessi gæði skipulags á mörgum svæðum lotið í lægra haldi fyrir auknu byggingarmagni á einstaka reitum. Umræða um borgarumhverfi hefur einkennst af umræðu um byggingar en ekki um borgarrými. Borgarrými er rýmið þar sem borgin vaknar, þar sem allir litir samfélagsins birtast og skína skært ef sólin glampar á þá. Rýmið á milli húsanna er þar sem hið óvænta getur gerst. Á Íslandi þurfa þessi rými bæði sól og skjól til að lifna við. Það krefst þess að tekið sé tillit til þess að blessuð sólin er aldrei hátt á lofti á okkar breiddargráðu og það þarf að gefa henni sérstaka athygli við hönnun skipulags.
Ef að við vöndum okkur og gefum sólarljósinu þann sess sem það á skilið í skipulagi borgarumhverfis þá fáum við ekki bara lífleg og gróðursæl borgarrými heldur eiga geislar sólarinnar einnig greiðan aðgang inn í húsin okkar og verma okkur hvort sem er sumar eða vetur. Þá eigum við möguleika á að fullnýta þann ókeypis orkugjafa sem náttúran hefur gefið okkur.
Dagsbirta í íbúðabyggð
Í rannsóknarverkefninu Áhrif dagsbirtu í íbúðabyggð, allt frá skipulagi til innri íverurýma verða rannsökuð hin margvíslegu áhrif dagsbirtu og hvernig við höfum í tímanna rás sinnt dagsbirtunni í mótun byggðarinnar. Áhrif borgarskipulags á dagsbirtugæði eru ekki einungis utandyra heldur hefur skipulag grundvallaráhrif á það hvort dagsbirta nái inn í húsin okkar.
Ef skipulagið býður ekki upp á góða dagsbirtu og sólarljós í göturými og á húshliðar þá hefur stærð glugga eða gluggasetning í byggingu takmarkað gildi. Það væri eftirsóknarvert að dagsbirtan fengi þá athygli í borgarskipulagi sem hún á skilið. Umhverfisvæn borg á Íslandi er þéttbyggð, með góðum almenningssamgöngum og björtum rýmum á milli lágreistra húsa þar sem gróður vex og mannlífið auðgar tilveruna. Horfum til himins og tökum mið af stöðu sólar.
Dagur ljóssins
Sólarljósið er ljósið sem ég vil hylla á degi ljóssins. Umhverfisvæn lýsing, hita- og orkugjafi fyrir bæði líkama og sál. Margþætt jákvæð áhrif sólarljóssins eru ótvíræð sönnun á mikilvægi þess fyrir okkar lífsgæði. Með hækkandi sól förum við út í vorið og njótum ljóssins.
Höfundur er arkitekt, Cand.Arch. FAÍ og verkefnisstjóri rannsóknarverkefnisins Áhrif dagsbirtu í íbúðabyggð, allt frá skipulagi til innri íverurýma.