Það er kominn tími til að breyta áherslum Alþingis frá efnahagskerfi sem er fjandsamlegt almenningi og í mannúðlegar áherslur kærleikshagkerfisins. Þingmenn eiga að vera þjónar almennings en ekki herrar sem mynda með sér elítu og kljúfa sig frá grasrótinni, eins því miður hefur gerst undanfarin ár og áratugi.
Grunnurinn
Kærleikshagkerfið er grunnurinn að stefnu Sósíalistaflokks Íslands. Öll stefnan byggir á því. Ofan á Kærleikshagkerfið eru byggðar nokkrar hæðir með herbergjum sem fyllt eru hlýju, mannúð og samkennd.
Fyrsta hæð
Á fyrstu hæðinni er nýtt skattkerfi í þágu fólksins sem fellst í að lækka skatta á almenning og smáfyrirtæki, byggðastefna sem inniheldur þá fögru sýn að fólk geti búið við góðar aðstæður og grunnþjónustu, hvar sem það kýs á landinu. Þá er þar líka að finna nýtt fiskveiðistjórnunarkerfi, sem færir arðinn af auðlindunum frá auðhringjum til almennings.
Önnur hæð
Á annarri hæðinni er gríðarlega stórt og gott herbergi þar sem er að finna hina glæsilegu húsnæðisstefnu sósíalista sem mun gera 30 þúsund fjölskyldum eða einstaklingum kleift á næstu 10 árum að búa í góðu húsnæði þar sem er leiguþak og möguleiki á að kaupa íbúðir eftir getu og fá lánað til mjög margra ára á lágum vöxtum. Þar er líka að finna herbergi þar sem við blasir stefna um að útrýma fátækt og það strax. Einnig að öll grunnþjónusta verði gjaldfrjáls. Á annarri hæðinni eru sem sagt forsendur jöfnuðar, sem er grunnur réttlætis.
Þriðja hæð
Svo förum við upp á þriðju hæð. Þar er umhverfis-og loftslagsstefnan sem mun virka til að koma í veg fyrir tortímingu jarðar. Öll stefnan gengur út á að breyta kerfunum þannig að það gangi upp. Taka upp sósíalisma, raunverulega sjálfbærni, öflugt hringrásarhagkerfi, bann við notkun mengandi jarðefna og að taka völdin frá stórfyrirtækjunum sem bera ábyrgð á hamfarahlýnuninni. Í öðru herbergi er að finna aðgerðaplan gegn kynbundnu ofbeldi, aðgerðir fyrir öryrkja, stefnu fyrir eldri borgara, innflytjendur, börn og aðra hópa. Og svo færum við okkur yfir í þriðja herbergið og finnum markmið og stefnuyfirlýsingar ýmissa hópa innan Sósíalistaflokksins, svo sem Meistaradeildarinnar (55 ára +), Ungra sósíalista, Sósíalískra femínista, Verkalýðsráðsins, Öryrkjaráðsins og Innflytjendaráðsins.
Fjórða hæð
Á fjórðu hæðinni er bent á að ekki er hægt að ná árangri í málefnunum á neðri hæðum öðruvísi en að endurskapa stjórnmálin. Á þessari hæð kemur fram að sósíalistar ætla að fella elítustjórnmálin og yfirráð auðvaldsins. Þá er hér að finna stefnuna um að örva sjálfstæðisbaráttu almennings með því að styrkja almannasamtök neytenda, leigjenda, skuldara, innflytjenda, sjúklinga og annarra hópa sem skortir efnahagslegan styrk til að ná fram sínum markmiðum. Hér kemur einnig fram að Sósíalistaflokkurinn lítur á sig sem afl breytinga. Hann er verkalýðsflokkur sem ávallt mun styðja baráttu launafólks fyrir betri kjörum, auknum völdum og réttindum.
Þakið
Yfir þetta hús, sem geymir – stórkostlegt samfélag – reisa sósíalistar með stolti þak hamingju og vonar.
Öll hús eru mannanna verk og ef menn hafa raunverulegan áhuga á að reisa svona hús eins og okkar, þá er það hægt. Það hefur hins vegar ekki verið gert því það hentar ekki auðvaldinu og núverandi stjórnmálamönnum á Alþingi.
Við sósíalistar viljum það og getum. Kjóstu með hjartanu. Gefum kærleikanum tækifæri og hleypum honum inn í þingsali og inn í stjórnkerfið allt. Skilum rauðu.
X-J
Höfundur er oddviti Sósíalistaflokksins í Reykjavíkurkjördæmi suður.