Hana dreymdi draum. Hún var bara stelpa með fána og blöðru og tók þátt í hátíðarhöldum 17. júní. Allir voru í góðu skapi, margir fánar blöktu, í sölubásum fengust pylsur og sælgæti. Það var sungið, haldnar voru ræður, en enginn sagði hvers vegna dagurinn væri haldinn hátíðlegur, hvorki í ræðum né í fréttum Rúv, hvorki í útvarpi né sjónvarpi. Og draumurinn hélt áfram og nú var allt í einu runninn upp annar dagur sem heitir Halloween. Stelpan var í svörtum búningi með uppmjóan svartan hatt og sveif á milli húsa þar sem sætindi voru í boði. Dásamlegt ævintýri. En hún hafði ekki hugmynd um hvað þessi dagur merkti eða hvaðan hann var kominn en hafði hugboð um að þetta væri amerískur barnadagur. En enginn gat svarað henni, enginn vissi merkingu þessara daga.
Auðvitað var þetta bara ímyndun, fjarstæðukenndur draumur, sem er auðvitað ekki það sama og veruleikinn. Eða hvað?
Í vikunni sem nú er hálfnuð voru 3 dagar haldnir með pompi og prakt: bolludagur, sprengidagur og öskudagur. Börnin skemmtu sér konunglega, átu bollur með bestu lyst og sum létu sér meira að segja líka saltkjöt og baunir. Svo kom öskudagurinn með færri öskupokum en áður en kannski meiri og skrautlegri búningum. Þessum dögum voru gerð skil í fréttum Rúv í sjónvarpi, mikið rætt um búninga og nammi og spjallað við börn í sætindavímu. En hvað vissu þessi börn? Voru þau eitthvað betur að sér en stúlkan í draumnum um uppruna þessara daga? Þau voru reyndar ekki spurð. Fjölmiðlunum fannst það greinilega ekki skipta neinu máli.
Er fréttafólk illa upplýst eða er það með fordóma og falsar þar með söguna? Ég vil ekki trúa slíku uppá heiðarlegt fréttafólk en það getur auðvitað sogast inn í tíðaranda, sem það sjálft á stóran þátt í að móta, tíðaranda þar sem ekkert skiptir máli nema andartakið, sætindin, umbúðirnar, sellófanið litríkt og skrjáfandi.
Við sem eldri erum vitum úr hvaða hefð þessir þrír dagar koma. Þeir koma úr kristnum menningararfi í Evrópu. En getur verið að ekki megi minnast á kirkju eða kristni vegna þess að það er ekki lengur í tísku?
Við lifum í samfélagi sem telst vera undir áhrifum fjölhyggju þ.e.a.s. margskonar ólíkra skoðana. Og það er fínt. En þúsund ára saga okkar þjóðar og menningar er í grunninn evrópsk, kristin menning. Við erum mótuð af grísk/fílósófískri menningu annars vegar og hebresk/kristinni hins vega. Þetta kallaði Páll heitinn Skúlason, heimspekingur og rektor HÍ, hugsanafljótið. Þaðan kemur allt hráefnið sem notað hefur verið til að móta samfélag nútímans og það hefur tekið aldir að veiða hugmyndir úr þessu fljóti hugsunar, trúar og heimspeki og fjalla um og rökræða á heimilum og í skólum, smærri hópum og stærri hreyfingum, kirkjum og trúfélögum, launþegahreyfingum og stjórnmálaflokkum, á þjóðþingum og samkomum þjóða. Evrópa og hinn Vestræni heimur eru byggð á þessari vinnu kynslóðanna.
Erum við orðin svo skyni skroppin að við vitum lítið sem ekkert um uppruna okkar eða rætur menningarinnar? Erum við svo hrædd við að leyfa skoðanir að við getum ekki einu sinni sagt hvers vegna fastan er haldin í allri Evrópu og hinum kristna heimi? Vita Íslendingar ekki lengur að efnahagur þeirra hefur byggst á að flytja út saltfisk í a.m.k. 500 ár? Og hverjir keyptu allan þennan fisk? Einkum kaþólsku löndin í Evrópu, sem minnka kjötneyslu á föstunni, sem stendur í 7 vikur frá öskudegi til föstudagsins langa í kyrruviku. Fólk er hvatt til að einfalda lífs sitt og fagna svo hressilega þegar páskahátíðin gengu í garð, sem er á páskadag að lokinni kyrruviku sem heitir ekki páskavika Nota Bene heldur vikan sem hefst með páskadegi. En hvers vegna eru páskar haldnir? Sú er hin stóra spurning.
Menning deyr ef sögu og rótum hennar er ekki haldið við og breytist bara í innihaldslausan fáránleika, einskonar sykurdúsu í skrautlegu sellófani sem bráðnar í barnsins munni og dansi í kringum gullkálfa samtímans í tilbeiðslu fánýtrar trúar á glys í stað andlegra verðmæta.
Fjölmiðlar eru á margan hátt í sömu stöðu og kristnin, það fækkar hjá þeim bæði neytendum og svo hefur orðið hrun í mannahaldi og fjöldi blaða- og fréttamanna er bara svipur hjá sjón miðað við fyrir 30 árum eða svo. Og hvað hefur gerst? Ungt fólk er ráðið á fjölmiðlana með lítið annað í farteskinu en þessi gengisfelldu stúdentspróf síðari ára og þess vegna heyrir fólk og sér meiri ambögur í fjölmiðlum en áður tíðkuðust. Stúdentarnir ungu á miðlunum ruglast oft í beygingum og málkenndin hefur skroppið saman úr því sem áður var í senn vítt og hátt niður í þröngt og lágt. Sem ég rita þessar línur var sagt frá því í fréttum Rúv að „mikið af fólki" hefði verið í miðbænum á liðinni nótt eftir afléttingar yfirvalda í kjölfar þess að við fórum að sjá út úr kóvinu. Við sem eldri erum tölum um fjölda fólks en mælum ekki eins og fólk sé magntekið, vegið og mælt eins fiskur dreginn úr sjó.
Mér er annt um kirkjuna og mér er annt um fjölmiðlana sem reyna að þjóna fjöldanum sem er að hverfa í björg, inn í samfélagsmiðlana, sem ógna nú ritstýrðum miðlum. Ég á minn eigin miðil, heimasíðu og svo get ég deilt mínum hugsunum og greinum um víðan völl án þess að vera háður blöðum, útvarpi, sjónvarpi eða netmiðlum sem aðrir reka.
Hvert mun þessi þróun leiða okkur? Hún fyllir tómið í hjarta okkar af innihaldslausu þrugli. Lífið verður fátækara. Fagleg, gæðafjölmiðlun, fer þverrandi. Fjölmiðlafólk sem kann sitt fag, hefur vald á tungumálinu og möguleikum þess, er að hverfa til annarra starfa eða hættir sökum aldurs. Ég finn til með ykkur, kæra fjölmiðlafólk á sama hátt og ég finn til með kirkju og kristni sem deilir með ykkur þeirri reynslu að búa við breyttan veruleika.
Kristnin í landinu er ekki bara Þjóðkirkjan, heldur líka Kaþólska kirkjan, Lútherskar fríkirkjur, Ortódoxa kirkjan, bæði hin rússneska og serbneska eiga sína fylgjendur hér á landi, Hvítasunnuhreyfingin og fríkirkjur af sama meiði, eru til og svo mætti lengur telja. Innan kristinna trúfélaga er yfirgnæfandi meirihluti þjóðarinnar hvað sem líður „vinsældum" einstakra trúfélaga. Kristnin í landinu hefur látið yfir sig ganga fordóma og fyrirlitningu hin síðari árin og þurft að þola skeytingarleysi um réttin til að iðka sína trú, án ögrandi ummæla eða truflunar af hálfu fólks sem áreitir og truflar. Þessa hefur orðið vart í fjölmiðlum en meir í samfélagsmiðlum sem engin bönd eru á, sem lúta ekki neinni ritstjórn heldur aðeins geðþóttavaldi einstaklinga í misgóðu ástandi þegar færslurnar eru flausturslega ritaðar og svo skvett út eins og þegar næturgagn var tæmt í flórinn.
Með kristninni kom stafrófið og ritmenningin til landsins. Norrænir menn ristu rúnir en skrifuðu engar bækur. Þeir kunnu það ekki. Kristnin tengdi land okkar og þjóð, með beinum og óbeinum hætti, við evrópskar menntastofnanir, klaustur og háskóla. Og kirkjan kenndi íslenskum börnum að lesa eftir að siðbreytingin hafði fest sig í sessi.
Þjóðin kaus á Alþingi árið 1000 að taka kristni og tók hinn nýja átrúnað og hugmyndafræði fram yfir hinn norræna átrúnað. Það var gert á vitran og friðsaman hátt, með skilningi á að kristnitakan tæki langan tíma, en hefði ekki bara verið andartaks ákvörðun á alþingi hinu forna. Og kristnitakan stendur enn yfir. Henni er ekki lokið.
Hinn kristni, Snorri Sturluson, bjargaði miklum verðmætum með því að færa í letur mikilvægan fróðleik. Hann bjargaði t.d. öllu sem vitað var um hinn norræna átrúnað. Hann hefði getað látið það ógert, en var vitrari en svo. Hann hefði getað þagað um ásatrúna eins og fjölmiðlarnir nú á tímum þegja um hinn kristna arf. Vits er enn þörf!
Við höfum margt að læra af fortíðinni, af menningu okkar, af hátíðisdögum og hefðum.
Fölsum ekki söguna með þögn og fordómum, segjum frá í skólum og fjölmiðlum. Tölum um rætur okkar og menntum þjóðina með sómasamlegum hætti og um allt milli himins og jarða, allt sem verða má til eflingar góðu mannlífi. Ekki veitir okkur af, breysku fólki, hverrar trúar sem við annars erum.
Daginn sem ég hóf að rita þetta greinarkorn horfði ég á forseta Úkraínu flytja ræðu, sem er af Gyðingaættum og talaði mikið um trú og svo hlutverk kirkjunnar í landi sínu. Hrífandi ræða, innblásin af trú og von, trú á Guð, á land og þjóð og framtíðina. Úkraínumenn stranda augliti til auglitis við hermenn sem ganga erinda glæpalýðs í efsta lagi rússneskra stjórnmála, einstaklinga sem rænt hafa auðæfum þjóðar sinnar og hegða sér eins og slagsmálahundar, sem kúga fólk til hlýðni við sinn rotna boðskap, geltandi sem hundar, fyrirlítandi flest manngildi frjálsra þjóða.
Megi sannleikurinn og réttlætið sigra að lokum, mennskan og kærleikurinn, verða hatri og brjálæði yfirsterkari.
Liður í að svo megi verða er að við fölsum ekki söguna.
Snorri gaf okkur fordæmi.
Höfundur er fyrrverandi sóknarprestur. Ritað fimmtudaginn í föstuinngangi 3. mars 2022 og næstu daga.