Okkur, stofnendum nýs fyrirtækis á hópeflis- og liðsheildarmarkaðnum, er það hjartans mál að leiðrétta misnotkunina á hugtakinu hópefli.
Í okkar huga er hópefli hugtak yfir liðsheildarvinnu sem byggir á kenningum um reynslunám. Nám í þeim skilningi felur í sér að draga lærdóm af reynslu undir handleiðslu sérfræðinga til að öðlast aukna færni sem hópeining. Dýpt lærdómsins veltur að miklu leyti á hversu krefjandi hópeflið er, hve hæfir leiðbeinendur eru og hve móttækilegir þátttakendur eru fyrir ferlið. Þarna drögum við fram lykilorð: reynslunám, lærdómur, handleiðsla, sérfræðingar, hópeining. Efumst um að sum fyrirtæki sem segjast bjóða upp á hópefli hafi nokkurn tímann heyrt þessi hugtök nefnd. Allavega ekki í samhengi við hópefli.
Raunverulegt hópefli er byggt upp eins og nám; með markmið og ætlaða niðurstöðu. Raunverulegt hópefli er skipulagt og framkvæmt af leiðbeinendum sem hafa reynslu af hópþróunarvinnu og þekkingu á hópþróunarfræðum. Trúverðugra tel ég að í ofan á lag hafi leiðbeinendur reynslu af stjórnun mannauðs, ekki bara sem sprelligosar.
Flestir þekkja klisjuna: "Mannauðurinn er mikilvægasta auðlind fyrirtækisins”. Ef þessi klisja er sönn þá hlýtur að skipta gífurlegu máli hvernig þessi auðlind starfar. Að sjálfsögðu er búið að rannsaka trilljón sinnum hvað skiptir mestu máli til að mannauðurinn skili sem mestri framlegð. Þar á blaði kemur oft fram starfsánægja, mórall, samskipti við samstarfsfólk eða vinnustaðamenning. Jafnvel á undan launakjörum. Hugsanlega eru þessar staðreyndir ástæðan fyrir því að allt of margir eru farnir að tala um hópefli til að lokka til sín viðskipti. Vitneskjan um mikilvægi ánægðs starfsfólks og góðrar samvinnu er í loftinu.
Þó það kunni að vera gaman að fara saman í keilu, bíó, á djammið, lasertag eða hlaupa um bæinn með hárkollu þá leiðir sú afþreying ekki endilega af sér aukna starfsánægju eða betri vinnustaðamenningu. Kannski er það ekki markmiðið og vonandi ekki, enda afþreyingin sem var nefnd ágætis afþreying. En köllum afþreyinguna ekki hópefli af því að það hljómar vel. Köllum afþreyingu bara áfram afþreyingu en ruglum henni ekki saman við hópefli.
Höfundar eru stofnendur Úthópía ehf.