Sem sósíalisti verður maður ansi oft var við misskilning á fyrirbærinu. Jafnvel hámenntað fólk virðist ekki ráða við að gera greinarmun á hreinni hugmyndafræði sósíalismans (sem er ekkert annað en beint lýðræði) og misgóðar tilraunir í mannkynssögunni til að stjórna í nafni hugmyndafræðinnar eins og á Kúbu, Kína eða í Sovétríkjunum. Flest þessara ríkja hafa hins vegar verið gegnumsýrð af þjóðernishyggju og í raun verið einræðisríki sem er andstæða sósíalisma. Lýðræðislegur sósíalismi snýst um valddreifingu en er samt ekkert feiminn við ríkisafskipti bara allt annars konar en hægrið hefur boðið upp á en það er meiri hjálp til handa þeim sem verst standa. Sósíalismi er kærleiksríkur og snýst um að veita þeim líkn sem ekki geta gert það sjálfir t.d. með hækkun örorkubóta og ellilífeyris. Hinir sem geta séð um sig sjálfir hafa síðan nægt frelsi til að gera slíkt enda er frelsi eitt af grunngildum lýðræðislegs Sósíalisma.
Sósíalismi snýst um frelsi
Sumir gætu verið hissa á því að frelsi sé eitt af gildum Sósíalistaflokks Íslands enda ímynda þeir sér sósíalisma sem einhvers konar „forræðishyggjubákn“ án frelsis einstaklingsins. Ef fólk vill sjá forræðishyggjubákn getur það litið til hægra ríkisins sem hefur stjórnað hér nær sleitulaust frá upphafi lýðveldis. Málið er að sósíalismi snýst meira um „jákvætt frelsi“ eða frelsi einstaklingnum til handa, svo hann megi njóta lífsgæða og dafna í leik og starfi án þess að vera dæmdur til fátæktar.
Blómleg viðskipti undir sósíalisma
Önnur mýta um sósíalismann virðist vera sú að hann sé andstæða blómlegra viðskipta. Það er eins og fólk hafi aldrei stundað viðskipti eða skipst á vörum og þjónustu fyrir tíma markaðskerfis nýfrjálshyggjunnar. Nýsköpun og viðskipti lítilla og meðalstórra fyrirtækja fengi að blómstra þar sem forræðishyggja fákeppninnar og stórfyrirtækjanna yrðu takmörkuð. Fyrirtæki yrðu lýðræðislega rekin og raddir allra fengju að heyrast. Fólk verður heldur aldrei eins frjálst og sjálfstætt en ef alvöru lýðræðislegur sósíalismi væri við lýði í samfélaginu. Öryrkjar og aðrir fátækir myndu þá hafa a.m.k. uppreiknaða upphæð velferðarráðuneyta í bætur og gætu því verið miklu frjálsari í lífi sínu en þegar þarf að draga fram lífið í tvöfaldri vinnu að viðbættum fjárhagsáhyggjum. Hugsið ykkur hvað margir myndu upplifa mikið frelsi og sjálfstæði að þurfa ekki að standa í röð í lok mánaðar til að eiga mat fyrir börnin sín.
Allir hafa nóg undir sósíalisma
Samhliða frelsi undan fátækt kemur frelsi til að láta gott af sér leiða og verður ekkert erfitt að hafa nóg að bíta og brenna ef sósíalismi verður ofan á. Ríflegar millitekjur verða bara eins og þær eru undir merkjum sósíalismans. Vissulega verða ofurríkir með ofurlaun að greiða hærri skatta en það er af svo háum tekjum að svoleiðis fólk getur ekki einu sinni notað allan auðinn sinn á einni mannsævi. Það þýðir samt ekki að þeir séu gerðir fátækir (enda verður búið að afnema fátækt) heldur bara að þeir þurfi að greiða réttlátari skerf til samfélagsins eins og í öðrum löndum sem við berum okkur saman við. En að vera harðduglegur að vinna og leggja mikið á sig væri auðvelt og að hafa nóg og meira til ef maður er sniðugur í að koma sér áfram ef það snýst ekki um misnotkun og arðrán á öðrum.
Höfundur er félagi í Sósíalistaflokknum og skipar 5. sæti á lista í Reykjavík Suður.