Á síðustu mánuðum hafa birst furðufréttir frá hagsmunasamtökum atvinnurekenda. Þær fréttir hafa verið um ofurlaun opinberra starfsmanna og óeðlilega fjölgun þeirra. Á sama tíma vill svo til að fjármálariddarar hafa lagt fram hugmyndir um að „létta undir með hinu opinbera“, (sjá grein Þórðar Snæs Júlíussonar á Kjarninn.is með fyrirsögninni, Undirbúa sókn fjárfesta í flesta innviði samfélagsins „til að létta undir með hinu opinbera“.) með því að kaupa hagræna og félagslega innviði samfélags okkar eins og til dæmis flutningakerfi landsins, veitur, fjarskiptakerfi, orkuframleiðslu, háskóla, spítala og sjúkrastofnanir. Þeir lofa áhugasömum fjárfestum 6-10% raunávöxtun. Skyldi þetta vera einber tilviljun í aðdraganda kjarasamninga? Varla. Íslenskt launafólk og almenningur kannast við þennan söng. Þetta er sama músíkin og var leikin á öllum rásum árin fyrir hrun, með þeim efnahagslega hryllingi fyrir allan almenning sem við þekkjum allt of vel.
Ofurlaun ríkisstarfsmanna
Því hefur verið haldið fram að ríkið sé að leiða launaþróun á vinnumarkaði með launahækkunum sem hvergi eiga sér stað annars staðar. Látið er að því liggja að starfsmenn ríkisins séu upp til hópa á ofurlaunum, sem séu langtum hærri en það sem almennt gerist á vinnumarkaði. Dæmi um slíkan málflutning má sjá í Morgunblaðinu undir fyrirsögninni, Hækkanir uppskrift að launaskriði, 2. desember en þar segir framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins að ekki gangi upp að ríkið leiði launaþróunina. „Samanburður á launaþróun opinberra starfsmanna samanborið við almennan vinnumarkað er sláandi. Mælingar Hagstofunnar hafa staðfest að útfærsla lífskjarasamningsins hjá hinu opinbera hafi leitt til meiri launahækkana en sem nemur launabreytingum á almennum vinnumarkaði.“ ...
„Meðallaun hjá ríki eru hins vegar hærri en á almennum markaði og því hefðu krónutöluhækkanirnar átt að hækka meðallaun ríkisstarfsmanna minna en á almennum markaði, eða sem nemur 1%. Almenni vinnumarkaðurinn verður að vera leiðandi við gerð kjarasamninga.“ Í viðtali við dv.is sagði framkvæmdastjóri SA að opinberir starfsmenn hafi farið fram úr almennum starfsmönnum á launamarkaði og að kröfur almenna markaðarins um hærri laun myndu því verða lagðar fram í næstu kjarasamningum. „Í næstu samningalotu má gera ráð fyrir því að þar sem opinberi geirinn hafi farið fram úr hinum almenna muni þær kröfur framkallast á samningaborðinu.“ Svona fullyrðingar sem ekki standast skoðun eru mýmargar og hafa birst okkur í fjölmiðlum undanfarna mánuði.
Aðilar vinnumarkaðarins standa saman að því að halda úti rannsóknarstarfi Kjaratölfræðinefndar. Í haustskýrslu sinni í október 2021 birti nefndin yfirgripsmikil gögn þar sem m.a. kemur fram samanburður á reglulegum heildarlaunum milli félagsmanna heildarsamtaka launafólks. Á mynd 1 kemur fram samanburður á launum hjá ólíkum vinnuveitendum sem stéttarfélög innan heildarsamtakanna semja við. Á myndinni sést að hæstu launin í samanburði milli allra heildarsamtaka fá þeir sem starfa á almennum markaði. Vert er að draga fram í þessu sambandi að þarna kemur fram birtingarmynd launaójöfnuðar milli opinbera og almenna launamarkaðarins sem á að leiðrétta samkvæmt samningi milli samtaka launafólks í almannaþjónustu og opinberra launagreiðenda, um jöfnun launa á milli markaða. Sá samningur var gerður 2016 og hljóðar upp á leiðréttingu launa opinberra starfsmanna um að meðaltali tæp 17% og er það sá munur milli sambærilegra hópa þar sem laun á almenna markaðnum eru hærri en hjá hinu opinbera. Þennan launamun á að leiðrétta í áföngum fyrir árið 2026 og um leiðréttingu er að ræða sem telst ekki til launahækkana samkvæmt kjarasamningum. Þessi leiðrétting er annar hluti leiðréttingarinnar sem samið var um á vinnumarkaði 2016, en hinn hlutinn var leiðrétting lífeyrisréttar hjá starfsmönnum á almennum markaði. Rétt er að minna á að launaleiðréttingin á almenna markaðnum hefur að fullu verið framkvæmd.
Hafa opinberir starfsmenn hækkað meira í launum en aðrir?
Samtök atvinnulífsins hafa haldið því ranglega fram að launahækkanir hjá opinberum starfsmönnum hafi verið langt umfram það sem samið var um í lífskjarasamningnum. Þessa tuggu hafa þau endurtekið með vísan í prósentureikninga sem notaðir eru til að villa um fyrir fólki. Staðreyndin er sú að Samtök atvinnulífsins, stéttarfélögin á almennum markaði og ríkið stóðu saman að svokölluðum Lífskjarasamningi í janúar 2019. Þar var samið um krónutöluhækkanir eftir ákveðinni forskrift og opinberu samningarnir tóku síðan mið af í sínum kjarasamningum. Flestir gera sér ágætlega grein fyrir því að þegar laun eru hækkuð um krónutölu þá hækka lægstu launin langsamlega mest. Þannig að ef þú bætir einni krónu við tíkall þá hækkar tíkallinn upp í ellefu krónur eða um 10%. En ef þú hækkar hundraðkall um eina krónu þá hækkar hann upp í hundrað og eina krónu eða um 1%. Samtök atvinnulífsins hrópa síðan út í kosmosið að tíkallinn hafi hækkað miklu meira en hundraðkallinn! Þegar aðilar leiða umræðuna á villigötur og nota annan mælikvarða en samið var um er beinlínis verið að ljúga til um niðurstöðuna. Það vita allir að lægstu laun hækka langsamlega mest við prósentureikning af þessu tagi, en þó um sömu krónutölu og aðrir. En krónutöluhækkun var meginkrafan í kjarasamningunum 2019 og um það var samið. Það færi ekki illa á því að aðilar rifjuðu það upp.
Fjölgun opinberra starfa
Í fjölmiðlum á undanförnum misserum hefur því verið haldið fram af Samtökum atvinnulífsins og fleirum varðhundum sérhagsmuna að fjölgun starfa hjá ríkinu sé stjórnlaus og undir það tekur formaður Viðskiptaráðs, (sjá t.d. Sprengisand 5. desember, vb.is 12. desember sl.). Með þessari fullyrðingu er meðal annars verið að gefa í skyn að ríkið sé að taka til sín vinnuafl sem hafi gert fyrirtækjum á almennum markaði erfitt fyrir og þau geti ekki fengið fólk til starfa vegna þess. Þessar fullyrðingar eru fjarstæða og settar fram í þeim eina tilgangi að þyrla upp moldviðri í aðdraganda kjarasamninga. Enda virðist það sérstök ástríða hjá Samtökum atvinnulífsins og makkerum þeirra að gera ríkið að höfuðóvini sínum þegar líður að kjarasamningum. Ef litið er til fjölda opinberra starfsmanna í hlutfalli við fólksfjölgun sést að opinberum starfsmönnum hefur fækkað ef eitthvað er (sjá mynd 2.). Sé miðað við fjölda þeirra á hverja 1000 íbúa í landinu, þá má sjá að ársverkum hjá ríkinu fækkar hlutfallslega á tímabilinu frá 2011 til 2020.
Íslendingum fjölgaði á árunum 2011 til 2021 um 11% en meðalfjöldi ríkisstarfsmanna miðað við mannfjölda stendur svo að segja í stað, þó hlutfallið lækki lítillega. Ef við lítum á gögn Hagstofunnar um hreyfingar á vinnumarkaði þá blasir við að samfélagið hefur verið að takast á við gríðarlega stórt og flókið verkefni síðustu árin.
Hafa ber í huga að í mynd 3 er viðmiðunarmánuður allra ára september. Þegar litið er til heildarfjölda starfandi á vinnumarkaði sjást miklar breytingar í fjölda milli áranna 2019 og 2020, og aftur milli áranna 2020 og 2021. Annars vegar sjáum við gríðarlega fækkun starfandi fólks milli árana 2019 og 2020 þegar allur vinnumarkaðurinn er skoðaður, en síðan fjölgar þeim mikið milli áranna 2020 og 2021. Á tímabilinu fjölgar opinberum starfsmönnum lítillega jafnt og þétt í takt við mannfjöldaþróun og aukin verkefni. Gagnlegt er að skoða sérstaklega hvað er að gerast þar á almenna launamarkaðnum svo samhengi hlutanna sé ljóst.
Innviðirnir þurfa að geta staðið af sér storminn
Mynd 4 sýnir ágætlega hvað hefur verið að gerast á íslenskum vinnumarkaði undanfarin ár. Erfiðleikar steðjuðu að ferðaþjónustunni á árunum frá 2018 og 2019, það er að segja áður en Covid-19 faraldurinn hófst. Þá var atvinnugreinin að sigla inn í rekstrarerfiðleika og ein birtingarmynd þess var að starfsmönnum á launaskrá fækkaði milli ára um 3.000. Gott er að hafa í huga að í þessum tölum er einungis verið að fjalla um þá starfsmenn sem voru á launaskrá hjá ferðaþjónustufyrirtækjum en ekki allan þann fjölda sem var starfandi við greinina í stökum verkefnum sem einyrkjar eða verktakar. Stóri skellurinn kemur svo milli 2019 og 2020 þegar Covid-19 leggst yfir samfélagið af fullum þunga og starfsmönnum ferðaþjónustunnar fækkar um 40,7%. Það jákvæða sjáum við síðan gerast milli 2020 og 2021 þegar við öll sem samfélag mokum fjármunum okkar úr sameiginlegum sjóðum inn í atvinnugreinarnar, einkum í ferðaþjónustuna, til að hjálpa fyrirtækjunum við að halda sjó og tryggja eftir mætti starfsmönnum þeirra vinnu og starfsmönnum fjölgar á ný um 33%.
Þegar erfiðleikar steðja að samfélagi okkar er nauðsynlegt að tryggja að innviðir og öryggisnet ríkis og sveitarfélaga geti staðið af sér storminn og kjölfesta samfélagsins bresti ekki. Ríki og sveitarfélög verða að standa undir þeirri ábyrgð að brjóta ekki upp velferðar- og öryggiskerfi okkar þó gefi á bátinn í efnahagslegu tilliti. Þannig er það ein af forsendum velferðar að góð og traust mönnun sé á hverjum tíma í opinberri þjónustu. Það er skylda ríkisins að tryggja okkur öllum sterka almannaþjónustu, öflugt heilbrigðiskerfi og framsækið menntakerfi. Og það kallar á fleira starfsfólk í takt við fjölgun þjóðarinnar og margþættari verkefni.
Að létta undir með ríkinu
Íslenska ríkið, það er að segja allur almenningur á Íslandi, hefur dælt hundruðum milljarða í atvinnuvegi og fyrirtæki landsins á undanförnum misserum. Allt til þess að halda gangverki samfélagsins virku og forða því frá hruni. Nú sjá lukkuriddarar græðginnar sér leik á borði vegna þess að með aðgerðum þessum hafa safnast upp gríðarlegar skuldir. Lukkuriddararnir stíga fram og bjóðast til að „létta á skuldum ríkisins.“
Ísland hefur alla möguleika á að þróast í að verða betra samfélag jöfnuðar, velferðar og öryggis, þar sem velferð er tryggð öllum almenningi og heilbrigðum atvinnurekstri er búinn frjór jarðvegur. Við vitum að þar er margt óunnið en einnig að framundan eru viðsjárverðir tímar. Hugmyndafræðingar og hersveitir einkavæðingarsinna sjá nú tækifæri á að sölsa undir sig almannaeigur. Á næstu misserum mun reyna á alla þá sem aðhyllast jöfnuð og réttlæti, bæði almenning og stjórnvöld, gagnvart gylliboðum og freistingum frá sölumönnum sérhagsmunahyggju, sem þyrla upp moldviðri með það að markmiði að blekkja almenning.
Höfundur er formaður Sameykis stéttarfélags í almannaþjónustu.