Ég var að hlusta á Ríkisútvarpið. Það var verið að ræða við sperrirófu og ég fór hugsa um flug. Og montrassa. Vel þekktur ferðamálafrömuður stofnaði ferðaskrifstofu og flugfélag hérlendis og erlendis. Svo kom í ljós að eitthvað af þessum rekstri stóð ekki undir kostnaði, safnaði skuldum og fór á hausinn. Frömuðurinn gat ekki greitt hundruðir milljóna þeim sem hann skuldaði. Hann átti ekki pening til þess. Lánadrottnarnir og hluthafarnir töpuðu. En mitt í gjaldþrotaskiptunum hófst frömuðurinn handa við að stofna önnur félög. Eins félög og þau sem fóru á hausinn. Milljónafélög. Og nú býður hann landanum ferðir með nýja félaginu suður í höfin á hagstæðu verði og á bara nóg af peningum.
Öðrum manni, sem virtist byrja sinn flugrekstur af ákafa hugsjónamannsins, gekk ljómandi vel um hríð. Samtímis breytti velgengnin honum í sperrirófu og hann fór að eyða um efni fram. Langt um efni fram. Hann stefndi hratt og örugglega í gjaldþrot með flugfélagið sem lauk sínum lífdögum með skuldum við starfsmenn, banka og hluthafa upp á mörg hundruð milljónir. Svo leið lítill tími og sperrirófan fór að selja stórhýsi sem hann átti, jarðir og byggingarétt. Og brosir og býður meira. Það er nefnilega nóg til.
Og nú hefur enn einn snillingurinn tekið sig til og dillar montrassinum framan í okkur. Hann býður hverjum sem er að koma með milljónir til sín, leggja í púkkið og gerast hluthafar; taka þátt í gróðanum sem hann ætlar að skapa. Í því sambandi skiptir engu þótt einn stjórnarmaður í félaginu sé þegar farinn að selja sín bréf því allt gengur svo ljómandi vel. Og hann er sko ekki aldeilis að fara á hausinn með firmað sem sést best á því að félagið hefur efni á því að bjóða í leik og Lundúnarferð fyrir 6.500 krónur, takk!
Þegar ég slökkti á útvarpinu veltust fyrir mér tvær spurningar: Hvenær fer maðurinn á hausinn? Fer maðurinn kannski aldrei á hausinn?