Í afar áhugaverðri bók, „The Uses and Abuses of History“ (Notkun og misnotkun sögunnar, þýð. GH), skrifar kanadíski sagnfræðingurinn Margaret Macmillan meðal annars um þá tilhneigingu að bjaga, rangtúlka og „búa til nýja sögu.“ Þar skrifar hún til dæmis um þá kerfisbundnu útþynningu í japönskum sögubókum sem miðar að því að „slétta yfir“ og draga úr grimmdarverkum Japana í seinni heimsstyrjöldinni. Einnig fjallar hún um það hvernig Slobodan Milosevic, fyrrum leiðtogi Serba í Júgóslavíu notaði sögu þeirra til að kynda undir þjóðernishyggju og hugmyndum um Stór-Serbíu, sem meðal annars leiddu til borgarastríðs í landinu á árunum 1991-1995 og hruns Júgóslavíu, með tilheyrandi hörmungum.
Mér varð hugsað til þessarar bókar sem ég á og las fyrir nokkrum árum, þegar ég rakst á eitt af Reykjavíkurbréfum Morgunblaðsins á einu af bakaríum borgarinnar fyrir skömmu, en þar kíki ég stundum í Moggann.
Reyndar vil ég kalla þessi bréf blaðsins, „Reiðibréf Morgunblaðsins,“ því erfitt er að finna jafn súra heift í skrifum fjölmiðils á Íslandi út í menn og málefni. Flest þessara bréf eru skrifuð af Davíð Oddssyni, einum frægasta stjórnmálamanni Íslands (formaður Sjálfstæðisflokksins, borgarstjóri, forsætisráðherra, utanríkisráðherra, seðlabankastjóri og hvaðeina), sem nú hefur verið annar ritstjóra blaðsins í yfir áratug, eða frá 2009.
Einkavæðingin sem sprakk
Það var einnig hann, í liði með Framsóknarflokknum, sem innleiddi þá einkavæðingu um og upp úr árið 2000, sem síðar sprakk í andlitið á Íslendingum á haustmánuðum 2008, þegar Ísland varð nánast gjaldþrota. Í einkavæðingarvímunni ætluðu Íslendingar að sigra heiminn, en annað kom a daginn.
Hér er um að ræða alveg nýja útgáfu af þeim atburðum sem settu bankakerfi landsins á hausinn, sem olli því að fjöldi fyrirtækja fór á hausinn, þúsundir manna misstu aleiguna og eða misstu vinnuna, landflótti brast á, krónan féll um 50% og verðbólgan rauk upp úr öllu valdi. Íslensk efnhagslíf var síðan í gjaldeyrishöftum frá nóvember 2008, fram á vormánuði 2017. Var allt þetta virkilega bara eitthvað „slys“? Á nú virkilega að reyna að telja manni trú um það? Ef þetta er ekki tilraun til sögulegrar bjögunar, þá veit ég ekki hvað það er.
„Hið svokallaða hrun“
Reyndar er hún merkileg, sú tilhneiging ýmissa hægrimanna, að láta eins og það hafi aldrei orðið neitt hrun, það hafi bara ekki gerst. Það má finna í skrifum þeirra frasa á borð við „hið svokallaða hrun.“ Þetta er t.d. leiðarstef í skrifum tímarits sem gefið er út hér á landi og heitir Þjóðmál. Dæmi úr leiðara þessa rits: „Í byrjun október voru liðin níu ár frá hinu svokallaða hruni.“ (Þjóðmál, 6. nóvember, 2017). „Tryggingargjaldið er eitt af því sem dregur fram ákveðið hegðunarvandamál hjá ríkinu. Gjaldið var snarhækkað í kjölfar hins svokallaða hruns haustið 2008.“ (Þjóðmál, 20. janúar 2020).
Höfundur þessara skrifa er hægrimaðurinn Gísli Freyr Valdórsson, sem helst hefur unnið sér það til frægðar að vera aðstoðarmaður Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, fyrrum Innanríkisráðherra, en hún þurfti að segja af sér vegna hins svokallaða „Lekamáls.“ Þar var áðurnefndur Gísli var einn aðalgerenda, en þetta var í nóvember árið 2014.
En aftur að hruninu, því þetta var HRUN og komust gjaldþrota bankanna þriggja hérlendis; Kaupþings, Glitnis og Landsbankans, öll á lista yfir tíu mestu gjaldþrot sögunnar. Sjálfur lenti Davíð Oddsson á lista Time Magazine yfir þá 25 aðila sem tímaritið sagði bera mesta ábyrgð á því sem gerðist árið 2008 og verður það að teljast vafasamur heiður.
Ný hugtök?
Fróðlegt verður að fylgjast með því hvort á síðum Morgunblaðsins verði gerðar fleiri tilraunir til þess að hagræða þeim staðreyndum sem flestir virðast vera sammála um, þ.e.a.s að það sem gerðist haustið 2008 hafi ekki verið neitt slys, heldur í raun efnahagslegar hamfarir.
Og hvort næst verði t.d. notað hugtakið „bankaóhappið“, eða „bankaatvikið“, eða eitthvað álíka á síðum blaðsins.
Hún er hinsvegar greinileg, þörf hægri og frjálshyggjumanna hér á landi, til þess að reyna að breiða yfir og breyta því sem raunverulega gerðist hér haustið 2008. Gera minna úr og bjaga raunveruleikann. Hvort kalla ætti þetta meðvitaða tilraun til sögufölsunar er kannski í það mesta, en þetta er samt ákveðin tilhneiging í þá áttina. Og gæti orsökin eða ástæðan verið sú að þeir telji sig kannski hafa eitthvað með málið að gera? Eða hvað?
Minn lokapunktur er þessi: Saga og sagnfræði eru skemmtileg fyrirbæri, sem eru opin fyrir túlkunum, ólíkt náttúruvísindum, þar sem til dæmis erfitt er að túlka suðumark vatns. En sagnfræðileg túlkun getur hinsvegar tekið á sig afskræmdar myndir, sem bæði geta verið mjög vafasamar og jafnvel hættulegar. Og ábyrgð fjölmiðla í nútíma lýðræðissamfélagi er mikil, þar sem upplýsingaóreiða verður sífellt umfangsmeiri og útbreiddari. Lesendur verða að geta treyst því að fjölmiðlar segi satt og rétt frá. Það er grundvallaratriði.
Höfundur er stjórnmálafræðingur.