Framsóknarflokkurinn er ekki í öfundsverðri stöðu um þessar mundir.
Eftir ótrúlegan kosningarsigur í Alþingiskosningunum 2013, þar sem Framsóknarflokkurinn fékk 24,4 prósent atkvæða og 19 þingmenn, hefur fylgið hríðfallið. Innan flokksins hafði lykilfólk ekki áhyggjur af því framan af kjörtímabili. Það var visst um að fylgið myndi skila sér aftur þegar stóru kosningaloforð flokksins, allt að 80 milljarða króna millifærsla úr ríkissjóði til tilviljunarkennds hóps lántakenda undir merkjum „Leiðréttingarinnar“ og nauðbeyging hrægammasjóðanna, yrðu að veruleika.
Það var því mikið áfall þegar framkvæmd „Leiðréttingarinnar“, sem kynnt var í nóvember 2014, skilaði flokknum engri fylgisaukningu. Þvert á móti féll fylgið skarpt í kjölfarið. Í síðustu könnun Gallup mældist það einungis 8,9 prósent og hefur ekki mælst lægra síðan að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson var kjörinn formaður Framsóknarflokksins í byrjun árs 2009.
Framsóknarmenn örvæntu þó ekki og hófu að horfa á næstu stóru kynningu í Hörpu, um áætlun stjórnvalda við losun hafta. Hún fór fram í upphafi þessa mánaðar og eru flestir á þeirri skoðun að áætlunin sé afar góð lausn fyrir alla hlutaðeigandi, sérstaklega í ljósi þess að hún felur í sér samkomulag við „hrægammana“.
Allir þingmenn flokksins mættu í Hörpu til að sjá þessu risamáli sínu siglt í höfn og fylgjast með hannaðri kynningunni sem var til þess fallinn að láta lausnina ríma við gífuryrði Framsóknarmanna. Í kjölfar hennar hafa þingmenn flokksins verið duglegir að túlka niðurstöðuna sínum flokki til tekna. Þingmennirnir Þórunn Egilsdóttir og Elsa Lára Arnardóttir, varaþingmaðurin Hjálmar Bogi Hafliðason og ráðherrann Gunnar Bragi Sveinsson hafa öll skrifað greinar í blöð til að mæra ríkisstjórn Sigmundar Davíðs fyrir lausnina. Þingmaðurinn Vigdís Hauksdóttir bætti um betur í útvarpsviðtali og sagði Sigmund Davíð líklega vera „verðmætasta stjórnmálamann landsins frá lýðveldisstofnun“.
Síðan þá hafa Framsóknarmenn beðið spenntir eftir fyrstu skoðanakönnuninni sem framkvæmd er eftir kynninguna. Hún birtist í Fréttablaðinu fyrir helgi, og ljóst að vonbrigðin í herbúðum Framsóknarflokksins hafa verið mikil. Fylgið hækkaði ekkert. Þvert á móti dróst það saman milli kannana og mældist einungis 8,5 prósent. Það myndi einungis skila flokknum fimm þingmönnum og allir ofangreindir þingmenn utan Gunnars Braga myndu missa sæti sitt.
Í Bakherberginu hefur mikið verið rætt um að ekki megi vanmeta getu Framsóknarflokksins til að stela kosningum og láta þær fara fram á sínum forsendum. Það hafi flokkurinn margsinnis gert áður með stórkostlegum loforðum um einfaldar lausnir á flóknum vandamálum. Í Bakherberginu er því spáð að næsta loforð muni snúast um stóra millifærslu á peningum úr ríkissjóði til yngsta kjósendahópsins, fólks undir þrítugu. Þar sé flokkshollusta langminnst og flökkufylgið því langmest.
Ljóst sé að samningar við kröfuhafa munu lækka skuldir ríkisins mikið, og þar af leiðandi fjármagnskostnað þess. Þá tugi milljarða króna sem komi til árlega vegna þessa megi nota til að „leiðrétta“ stöðu þeirra sem telja sig hafa verið skilda eftir í leiðréttingasúpu síðustu ára, nefnilega ungt fólk á leigumarkaði. Til að undirstrika að flokkurinn muni standa við loforðið verða spilaðar kosningaauglýsingar með upptökum af öllum kynningunum sem haldnar gafa verið í Hörpu á kjörtímabilinu. Tóninn verði að Framsókn standi við það sem flokkurinn lofar.
Svo er bara spurning um hvort að atkvæði unga fólksins séu til sölu á sama hátt og þeirra sem kusu Framsóknarflokkinn vegna niðurgreiðslu á verðtryggðum húsnæðislánum.