Framundan eru samningaviðræður. Ég er spenntur, þetta verður í fyrsta skipti sem ég er stjórnarmaður í stóru stéttarfélagi. Ég er að horfa á viðtöl við hina ýmsu hagfræðinga, verkalýðsleiðtoga og embættismenn sem munu taka þátt. Það hefur verið verðbólga, sérstaklega í húsnæðismálum, stytting vinnuvikunnar hefur skapað auka álag fyrir félaga mína í verkalýðsfélögunum og vinnustundum fjölgar á meðan tími með fjölskyldu, áhugamálum og hvíld minnkar fyrir verkalýðinn.
Við í Eflingu ákveðum kröfur okkar á lýðræðislegan hátt. Við spyrjum félagsmenn okkar með könnun, erum með opnar samningaviðræður þar sem hver sem er innan stéttarfélagsins getur tekið þátt í kröfum okkar. Enn eru fleiri málefni sem við þurfum að berjast fyrir en bara hærri laun í krónum frekar en prósentum, svo sem leiguþak og önnur húsnæðistengd mál. Ég hef enn ekki heyrt einn félaga í Eflingu nefna borgaða íslenskukennslu á vinnutíma við mig.
Ég hef séð þá einstaklinga sem hafa unnið stöðugt gegn verkalýðsstéttinni koma með ráð frá hliðarlínunni. Ég verð að viðurkenna að flest andlit þeirra voru ókunnug. Ég mundi ekki eftir stuðningi frá þeim í síðasta verkfalli okkar, enginn þeirra hefur aðstoðað mig við íslenskunám í mínu eigin lífi og meirihluti þeirra tilheyrir millistétt eða efri stétt, eða eru nemendur sem stefna að því að komast í þá stétt. Ég hef heldur aldrei séð þá knýja á um aukinn aðgang að íslensku fyrr en í þessari viku, þegar samstillt verkefni til að grafa undan leiðtoga stéttarfélags okkar hófst, greinilega hópátak frá hinni öruggu stétt Íslands.
Það er þrennt sem ég sakna í þessari stéttblindu umræðu:
- Kröfur stéttarfélagsins eru lýðræðislegar og koma frá félagsfólki. Ekki frá háskólaprófessorum sem eru með eigið stéttarfélag og hærri laun, ekki frá námsmönnum sem eiga eftir að koma út á vinnumarkaðinn og ímynda sér að þeir verði ekki festir í láglaunastörfin þegar þeir gera það. Ekki frá millistétt eða starfandi leiðtoga annarra samtaka heldur. Þeir hafa ekkert um það að segja né ættu þeir að segja. Þeir hafa sín eigin verkalýðsfélög og samtök sem þeir geta notað til að hvetja til aukins aðgangs að íslenskunámi sem ég hvet þá sannarlega til að nýta. Við munum hugsa um hagsmuni okkar ef þeir hugsa um hagsmuni þeirra, takk.
- Störfum Eflingarfélaga mun alltaf þurfa að sinna. Þeir halda uppi þessu samfélagi, frá því að hirða sorp, yfir í að hlúa að börnum okkar og öldruðum, til að steikja kjúklingabitana okkar þegar ekki er tími fyrir heimatilbúnar máltíðir. Jafnvel þótt við lifðum í fullkomnu ríki þar sem skólinn væri ókeypis og reikningarnir okkar greiddir þótt við værum í námi, mun áfram þurfa að manna þessi störf eða borgin myndi hrynja eftir viku.
- Hver krafa sem bætt er við í samningaviðræðum dregur úr vægi annarra krafna. Þegar raunverulegar launahækkanir og húsnæðisbætur eru í forgangi 1-10 er óviðeigandi að bæta launuðum íslenskutímum á vinnutíma á listann. Einungis einstaklingur með öruggar tekjur og húsnæði getur hunsað bágindi þeirra sem lifa við skert kjör. Fólk sem hefur ekki tekið þátt, tilheyrir ekki né fjármagnar stéttarfélagið okkar og mætir ekki til að hjálpa málstað okkar í verkfalli eða mótmælatíma, ætti að hafa það í huga þegar krefst þess að við förum eftir hugmyndum þeirra um hvernig á að ná árangri.
Ég þurfti að læra íslensku, ég þarf enn að bæta málfræði og orðaforða. Ég lærði hjá Tin Can Factory á meðan ég var í atvinnuleysi, ég lærði af fyrstu tveimur fósturbörnunum mínum sem töluðu bara íslensku. Myndarlegu ungu mennirnir í timburdeild í Byko og hjálpsamir sölumenn á Íspan, Vatnsvirkjanum og Ískraft hjálpuðu mér að læra smíðaorð og hlustuðu þolinmóðir á mig lýsa þörfum mínum á ófullkominni íslensku. Og félagar í Eflingu hafa aðstoðað mig við að læra orð og hugtök tengd kjarabaráttu án þess að dæma mig. Ég styð fullkomlega aukafjárveitingu til að vernda íslenska tungu, sem gerir það auðveldara að læra hvort sem maður er ungur og einhleypur eða í fullu starfi með fjölskyldu.
Eins og einhver frægur kall sagði einu sinni: „Með miklu valdi fylgir mikil ábyrgð“. Þeir sem hafa meira fjárhagslegt öryggi og völd ættu að vera fyrstir til að axla byrðar breytinga. Við á botninum erum bara í erfiðleikum með að anda.
Höfundur situr í stjórn Eflingar.