Andlaust fjárlagafrumvarp ríkisstjórnar einstaklingshyggjunnar

Auglýsing

Eitt and­laus­asta fjár­laga­frum­varp í manna minnum var lagt fram á mánu­dag. Frum­varpið er svo and­laust að meira að segja leið­ara­höf­undur Morg­un­blaðs­ins, mál­gagns Sjálf­stæð­is­flokks, sjáv­ar­út­vegs og pils­fald­ar­kap­ít­al­isma á Íslandi, sagði það ekki frum­varp stöð­ug­leika heldur stöðn­un­ar, sem gerði heim­ili lands­ins óstöðugri. Eng­inn virð­ist ánægður með frum­varpið nema hluti ráð­herra í rík­is­stjórn­inni.

Skila­boðin frá rík­is­stjórn­inni, sem birt­ust meðal ann­ars í stefnu­ræðu for­sæt­is­ráð­herra og umræðum um hana, eru samt sem áður að hér sé meira og minna allt í blóma. Að Íslend­ingar hafi ekk­ert með það að kvarta. Flestir hafi það mjög gott og að minnsta kosti miklu betra en margir í útlönd­um. Verið sátt með ykkar köku­mylsnu og hættið að pæla í feitu kött­unum sem éta stóru sneið­arn­ar. 

Það verður ein­hver að fá að græða í friði. Jafn­vel þótt verð­bólga og vaxta­hækk­anir séu að éta upp ráð­stöf­un­ar­tekjur heim­il­anna.

Það sem er í frum­varp­inu

Frum­varpið gerir ráð fyrir því að hækka allskyns neyslu­skatta sem venju­legt launa­fólk greiðir í rík­is­sjóð. Má þar nefna áfeng­is-, tóbaks-, bens­ín-, olíu-, kolefn­is-, og kíló­metra­gjald sem öll hækka ríf­lega á næsta ári. 

Þá á að breyta vöru­gjöldum á öku­tækjum og bif­reiða­gjaldi, aðal­lega með því að auka gjald­töku á raf­magns- og tvinn­bíl­um, og sækja þannig hátt í fimm millj­arða króna í vasa neyt­enda. 

Hvernig þessar hækk­anir eigi að vinna gegn verð­bólgu er flestum hulin ráð­gáta. Þær rata enda beint út í verð­lagið og bitna verst á þeim, sem minnst hafa.

Sá ein­staki þáttur sem hefur ráðið mestu um vöxt verð­­bólg­unnar er 48 pró­sent hækkun á hús­næð­is­verði á höf­uð­borg­ar­svæð­inu frá því að kór­ónu­veiru­far­ald­ur­inn skall á snemma árs 2020. Helsta ástæða þess­­arar þró­unar er að eft­ir­­spurn eftir íbúðum hefur verið langt umfram fram­­boð. Þrátt fyrir þessa stöðu er ekk­ert nagl­fast um það að auka fram­boð í frum­varp­inu en til­­lögur þess efnis boð­aðar síð­­­ar. Í loft­inu liggur að þær eigi að verða töfra­inn­legg í snúnar kjara­við­ræð­ur. Þess í stað gerir fjár­laga­frum­varpið ráð fyrir að stofn­fram­lög til upp­­­bygg­ingar í almenna íbúð­ar­kerf­inu, mik­il­væg­asta hlekks­ins í upp­bygg­ingu félags­legs hús­næðis með skap­legu leigu­verði, lækki um tvo millj­­arða króna.

Auglýsing
Í kynn­ingu fjár­­laga­frum­varps­ins var hins vegar sér­­stak­­lega vikið að aðgerðum sem sam­­þykktar voru fyrr á þessu ári, og eru þenslu­­vald­andi og hækka að óbreyttu verð­bólgu, þar sem þær auka á eft­ir­­spurn­ina sem Seðla­­bank­inn er að reyna að slá á með vaxta­hækk­unum og tak­mörk­unum á aðgengi að lán­um. Að­gerð­­irnar fela í sér að kaup­endur geta frá næstu ára­­mótum notað svo­­kall­aða til­­­greinda sér­­­eign til að safna fyrir fyrstu íbúð, auk þess að fá helm­ings afslátt af stimp­il­­gjöld­­um. Þá verður þeim sem ekki hafa átt íbúð í fimm ár eða lengur gert kleift að nýta úrræði fyrstu kaup­enda.

Minnka fram­lög til flokka um 36 millj­ónir

Dregið er úr fjár­fest­ingu rík­is­sjóðs annað árið í röð. Þar munar mestu frestun á fok­dýrri við­bygg­ingu við Stjórn­ar­ráð­ið, sem á að spara 850 millj­ónir króna á næsta ári. Þetta var ákveðið af sömu rík­is­stjórn og var að ræða um það í sumar að kaupa hluta af nýjum höf­uð­stöðvum Lands­bank­ans, á dýrasta stað í borg­inni, fyrir sex millj­arða króna svo tvö af nú tólf ráðu­neytum gætu komið sér þar upp þægi­legu heim­ili. Sú fjölgun ráðu­neyta sem ákveðin var í upp­hafi kjör­tíma­bils til að fleiri innan þing­flokka stjórn­ar­flokka geti svalað per­sónu­legum metn­aði sínum mun kosta um 1,8 millj­arða króna af pen­ingum skatt­greið­enda á þessu kjör­tíma­bili, án þess að reiknað sé með fok­dýrum hús­næð­is­kaup­um.

Ráða­menn hafa samt sem áður látið sem að þeir séu þó sjálfir, með sínar milljón króna launa­hækk­anir á sex árum og 27 aðstoð­ar­menn, að ganga fram með góðu for­dæmi þegar kemur að því að herða sultar­ól­ina. Það verði gert með lækkun á fram­lagi til stjórn­mála­flokka úr rík­is­sjóði. Til stendur að lækka það fram­lag um heilar 36 millj­ónir króna á ári, og fer fram­lag­ið, sem skipt­ist á níu flokka, þá niður í 692,2 millj­ónir króna. Til að setja þá tölu í sam­hengi þá kosta þeir fjórir aðstoð­ar­menn ráð­herra sem bætt­ust við með fjölgun ráðu­neyta 86 millj­ónir króna á ári. Árlegur sam­dráttur í fram­lögum til stjórn­mála­flokka er því 42 pró­sent af árlegum kostn­aði við þessa fjóra aðstoð­ar­menn.

Selja banka

Sam­kvæmt fjár­laga­frum­varp­inu er búið að ákveða að selja 42,5 pró­sent hlut rík­is­sjóðs í Íslands­banka á næsta ári og reiknað með að fá um 76 millj­arða króna fyr­ir, sem er umtals­vert undir mark­aðsvirði bank­ans sem stend­ur. Þetta kemur mjög á óvart, enda liggur ekki fyrir nið­ur­staða stjórn­sýslu­út­tektar Rík­is­end­ur­skoð­unar á því þegar 22,5 pró­sent hlutur í bank­anum var seldur með afslætti í lok­uðu útboði til 207 fjár­festa í mars síð­ast­liðn­um. Þá hefur heldur ekk­ert verið gefið upp um nið­ur­stöðu rann­sóknar Fjár­mála­eft­ir­lits Seðla­banka Íslands á ákveðnum þáttum sem tengj­ast söl­unn­i. 

Í yfir­­lýs­ingu sem for­­menn rík­­is­­stjórn­­­ar­­flokk­anna, þau Katrín Jak­obs­dóttir for­­­sæt­is­ráð­herra, Bjarni Bene­dikts­­­son,. fjár­­­­­mála- og efna­hags­ráð­herra, og Sig­­­urður Ingi Jóhanns­­­son inn­­­við­a­ráð­herra, sendu sam­eig­in­­lega frá sér 19. apríl kom fram að ef þörf kæmi fram fyrir frek­­­ari rann­­­sóknir þegar nið­­­ur­­­stöður Rík­­­is­end­­­ur­­­skoð­unar og Seðla­­­bank­ans liggi fyrir myndi rík­­­is­­­stjórnin beita sér fyrir slíku á vett­vangi Alþing­­­is. Í yfir­­lýs­ing­unni sagði líka: „Ekki verður ráð­ist í sölu á frek­­­ari hlutum í Íslands­­­­­banka að sinn­i.“ 

Nú virð­ist hins vegar liggja fyrir að nið­ur­stöður Rík­is­end­ur­skoð­unar og Fjár­mála­eft­ir­lits­ins skipti engu máli. Það verði ekk­ert frekar rann­sakað og málið muni ekki hafa neinar frek­ari afleið­ing­ar. Bjarni er enda þegar búinn að lýsa því yfir að hann hafi ekki áhyggjur af nið­ur­stöðu Rík­is­end­ur­skoð­un­ar.

Bank­inn verður ein­fald­lega seld­ur. Vegna þess að Bjarni vill selja hann. 

Það sem er ekki í frum­varp­inu

Í febr­úar steig Lilja D. Alfreðs­dótt­ir, vara­for­maður Fram­sókn­ar­flokks­ins og menn­ing­ar- og við­skipta­ráð­herra, fram og sagði að hún vildi að láta leggja á svo­kall­aðan hval­rekakatt. „Ef það er ofsa­gróði eða ofur­hagn­aður hjá ein­hverjum aðil­um, þá eigum við að gera það. Ég er líka á þeirri skoðun að þetta ætti að eiga sér stað varð­andi sjá­v­­­ar­út­­­veg­inn. Þar sem við sáum ofur­hagnað í ein­hverjum greinum þá á að skatt­­leggja það.“ Áður hafði hún sagst vilja hækka banka­skatt í ljósi þess að stóru bank­­arnir þrír: Lands­­bank­inn, Arion banki og Íslands­­­banki högn­uð­ust um 81,2 millj­­arða króna á síð­­asta ári og um 111 millj­­arða króna á eins og hálfs árs tíma­bili á tímum þar sem heims­far­aldur geis­aði. Hún sagði að allur þing­flokkur Fram­sókn­ar­flokks­ins stæði á bak­við sig. 

Fyrir tæpum mán­uði fór fram flokks­ráðs­fundur Vinstri grænna. Þar sagði Katrín Jak­obs­dóttir að það væri tími til komin að breyta skatt­lagn­ingu þeirra sem hafi fyrst og fremst fjár­magnstekj­ur  á Íslandi, en fjár­magnstekjur juk­ust meira í fyrra en þær hafa gert á einu ári frá banka­góð­ær­is­ár­inu 2007. Alls juk­ust þær um 65 millj­arða króna í fyrra og af þeim 181 millj­arði króna sem féll til í slíkar tekjur fór 81 pró­­sent til efstu tekju­­tí­und­­ar­inn­­ar. Fyrir vikið hækk­­uðu ráð­­stöf­un­­ar­­tekjur þessa hóps, sem átti fyrir mest, vel umfram tekjur allra ann­­arra tekju­hópa. Á sama tíma jókst skatt­­byrð­i 90 pró­­sent lands­­manna á meðan að skatt­­byrði rík­­­ustu tíu pró­­sent­anna dróst sam­­an. 

Auglýsing
Á sama flokks­ráðs­fundi var sam­þykkt ályktun um stuðn­ing við hækkun veiði­gjalda á sjáv­ar­út­veg. „Stór­út­­­gerðin hefur haldið áfram að skila hagn­aði í gegnum heims­far­aldur og inn­­rás Rússa í Úkra­ínu og á að leggja meira til sam­­fé­lags­ins.“

Í kjöl­far­ið, í byrjun sept­em­ber, mætti Bjarkey Olsen Gunn­ars­dótt­ir, for­maður fjár­laga­nefndar og þing­maður Vinstri grænna, í Kast­ljós og sagð­ist telja að hægt yrði að ráð­ast í breyt­ingar á veiði­gjöldum „fljót­lega“. Sama Bjarkey var til við­tals í Spegl­inum á RÚV á mánu­dag og sagð­ist þar hafa talað fyrir því að þrepa­skipta fjár­magnstekju­skatti.

Sam­an­dregið hafa Fram­sókn og Vinstri græn, sem eru 21 af 38 þing­mönnum sem standa á bak­við rík­is­stjórn­ina, því kallað eftir að breiðu bök­in, þeir sem högn­uð­ust óeðli­lega mikið á kór­ónu­veiru­far­aldr­in­um, og stór­eign­ar­fólk sem hefur kom­ist upp með að borga miklu minna til sam­neysl­unnar en aðr­ir, myndu taka á sig auknar byrð­ar. 

Í fjár­laga­frum­varp­inu eru engar breyt­ingar gerðar á veiði­gjald­inu sem lagt er á útgerðir lands­ins. Banka­skatt­ur­inn, sem var lækk­aður fyrir tveimur árum án þess að það hefði nein telj­andi áhrif á vaxta­mun, er áfram sá sami. Ekki stendur til að hækka eða breyta fjár­magnstekju­skatti.

Fjár­mála- og efna­hags­ráð­herra sagði í Kast­ljósi í vik­unni að þetta væri ein­fald­lega ekki í stjórn­ar­sátt­mál­anum og því ekki á dag­skrá. Málið dautt.

Auknar tekjur fara í greiðslu lána

Bjarna Bene­dikts­syni er tíð­rætt um að kaup­máttur hér hafi auk­ist gríð­ar­lega og að til­gangur fjár­laga­frum­varps­ins sé að vernda þann ávinn­ing, ásamt því að vinna gegn verð­bólgu. Á heima­síðu fjár­mála- og efna­hags­ráðu­neyt­is­ins er að finna kynn­ingu á völdum stærðum í efna­hags­líf­inu.

Þar segir að staða heim­il­anna hafi „styrkst veru­lega“ frá byrjun árs 2017. Tekju­aukn­ing á mann umfram verð­bólgu hafi verið 60 þús­und krónur á með­al­mann­inn. Nú eru með­al­töl vafasöm, enda liggur fyrir að sumir hópar hafa hækkað tekjur sínar gríð­ar­lega á þessu tíma­bili á meðan að aðrir eru áfram sem áður eft­ir­bát­ar. 

En leikum leik Bjarna. Skoðum Með­al­-Jón og 60 þús­und króna tekju­aukn­ing­una hans. Og gefum okkur að Með­al­-Jón sé með 40 milljón króna óverð­tryggt hús­næð­is­lán á breyti­legum vöxtum sem hann þarf að greiða af. Sam­kvæmt tölum frá Hús­næð­is- og mann­virkja­stofnun hefur greiðslu­byrði slíks láns farið úr 152 þús­und krónum í byrjun árs 2021 í 251.600 krónur í ágúst 2022. Á sama tíma hefur kaup­máttur Með­al­-Jóns nán­ast dreg­ist saman vegna verð­bólgu. Jón þarf því að borga hund­rað þús­und krónum meira af lán­inu sínu nú en hann þurfti í byrjun síð­asta árs án þess að ráð­stöf­un­ar­tekjur hans hafi auk­ist. Hin aukna greiðslu­byrði er búin að éta upp allan við­bót­ar­tekj­urnar sem Jón hafði fengið vegna skatta­lækk­ana og launa­hækk­ana frá byrjun árs 2017. Og gott bet­ur.

Segjum að Með­al­-Jón sé hepp­inn í ástum og vel giftur Með­al­-Gunnu. Þegar þau leggja saman aukna ráð­stöf­un­ar­féð sitt frá 2017 er það um 120 þús­und krónur á mán­uði. Bara hækkun á greiðslu­byrði íbúða­láns­ins étur upp 100 þús­und krónur af þeirri kaup­mátt­ar­aukn­ingu. Og þá á eftir að borga fyrir allt hitt sem hefur hækk­að. Svo ekki sé talað um þann aukna kostnað sem fellur til vegna þess að Ísland rekur ekki nor­rænt vel­ferð­ar­kerfi á borði, heldur bara í orði, t.d. tann­rétt­ingar barna eða sál­fræði­kostnað þeirra. Eða greiðsla fyrir tóm­stundir og/eða íþróttir á haustönn, þegar frí­stund­ar­styrk­ur­inn er upp­ur­inn. 

Svo fátt eitt sé nefn­t. 

Ein­stak­lings­hyggju­stjórn­mál

Upp­legg rík­is­stjórn­ar­inn­ar, sem birt­ist í fjár­laga­frum­varp­inu, er áfram sem áður það sama og það hefur verið frá því að hún sett­ist að völdum síðla árs 2017. 

Skattar hafa verið lækk­aðir og íviln­anir aukn­ar, með mestum ávinn­ingi fyrir breiðu bök­in. Eft­ir­lit hefur verið veikt með sam­ein­ingu eða nið­ur­lagn­ingu mik­il­vægra eft­ir­lits­stofn­ana. Félags­legur hús­næð­is­stuðn­ingur hefur að mestu verið leystur upp og í stað­inn er komið skatt­frjáls notkun á sér­eign­ar­sparn­aði sem gagn­ast efna­meiri hópum sam­fé­lags­ins langt um meira en þeim efna­minn­i. 

­Kerfin sem festa fáveldið í sjáv­ar­út­vegi og á fákeppn­is­mörk­uðum í sessi eru varin með kjafti og klóm og passað upp á að þau greiði ekki meiri í sam­neysl­una. 

Sam­hliða eru vel­ferð­ar­kerfin veikt kerf­is­bundið með það að mark­miði að veikja til­trú almenn­ings á því að þau geti sinnt hlut­verki sínu. Tak­ist það mun leið einka­að­ila inn í vel­ferð­ar­kerfin verða greið. Það þarf ekki aðra sönnun fyrir þessu en for­síðu Frétta­blaðs­ins á þriðju­dag, dag­inn eftir birt­ingu fjár­laga­frum­varps­ins, þar sem fyr­ir­sögnin var: „Fjár­mála­ráð­herra segir einka­rekstur bæta heil­brigð­is­þjón­ust­una til muna“.

Kristrún Frosta­dótt­ir, verð­andi for­maður Sam­fylk­ing­ar­inn­ar, hitti naglann ágæt­lega á höf­uðið í við­tali við Kjarn­ann um síð­ustu helgi þegar hún sagði: „Þau skila­­boð sem rík­­is­­stjórnin er að senda til fólks á Íslandi um að það verði ráð­ist í almennar skatta­­lækk­­­anir til að auka ráð­­stöf­un­­ar­­tekjur þeirra, en á sama tíma muni grunn­­þjón­ustan versna, eru ekki góð skila­­boð. Við verðum að losna úr þessu hug­­ar­fari að þetta sé bar­átta hvers fyrir sig. Það er verið að ala á Thatcher-is­ma, um að það sé ekk­ert til sem heitir sam­­fé­lag, heldur bara ein­stak­l­ingar og fjöl­­skyld­­ur. Um að ríkið gefi fólki meiri tekjur og það finni svo út úr sínum mál­um, en á sama tíma sé til dæmis heil­brigð­is­­kerfið og önnur vel­­ferð­­ar­­kerfi van­fjár­­­mögn­uð. Við vitum alveg hvaða hópar líða fyrir þá van­fjár­­­mögn­un.“

Fjár­laga­frum­varpið er stað­fest­ing á því að þessi stefna sem Kristrún lýs­ir, stefna ein­stak­lings­hyggju, er sú sem verið er að reka á Íslandi í dag.  

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Þorbjörn Guðmundsson
Er íslenska velferðarkerfið ekki lengur griðarstaður þeirra sem minnst hafa?
Kjarninn 11. janúar 2023
Takk fyrir og sjáumst á nýjum miðli á föstudag
Bréf frá ritstjóra Kjarnans vegna sameiningar við Stundina og þess að nýr framsækinn fréttamiðill verður til í lok viku.
Kjarninn 11. janúar 2023
Sverrir Albertsson
Vatn á myllu kölska
Kjarninn 11. janúar 2023
Lögreglumenn standa vörð um gröfurnar í námunni.
Berjast fyrir þorpi á barmi hengiflugs
Lítið þorp í Rínarlöndum Þýskalands er allt komið í eigu kolarisa. Fyrirtækið ætlar sér að mylja niður húsin og stækka kolanámu sína sem þegar þekur um 80 ferkílómetra. Þetta þykir mörgum skjóta skökku við í heimi sem berst við loftslagsbreytingar.
Kjarninn 10. janúar 2023
Arnþrúður Karlsdóttir, útvarpsstjóri Útvarps Sögu.
Útvarp Saga telur fjölmiðlastyrki skapa tortryggni og bjóða upp á frændhygli
Fjögur fjölmiðlafyrirtæki hafa til þessa skilað inn umsögnum um frumvarp Lilju Alfreðsdóttur menningar- og viðskiptaráðherra, sem mun að óbreyttu framlengja núverandi styrkjakerfi til fjölmiðla.
Kjarninn 10. janúar 2023
Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar.
Viðræðum slitið og Efling undirbýr verkfallsaðgerðir
Samtök atvinnulífsins hafa hafnað gagntilboði Eflingar um skammtímakjarasamning, sem kvað á um meiri launahækkanir en SA hefur samið um við aðra hópa á almennum vinnumarkaði til þessa. Efling undirbýr nú verkfallsaðgerðir.
Kjarninn 10. janúar 2023
Palestínski fáninn á lofti í mótmælum í Reykjavík. Ísraelskri lögreglu hefur nú verið fyrirskipað að rífa fánann niður á almannafæri.
Fánabann og refsiaðgerðir í Palestínu í kjölfar niðurstöðu Sameinuðu þjóðanna
Degi eftir að ný ríkisstjórn tók við völdum í Ísrael samþykkti allsherjarþing Sþ að fela Alþjóðadómstólnum í Haag að meta lögmæti hernáms Ísraelsríkis á Vesturbakkanum. Síðan þá hefur stjórnin gripið til refsiaðgerða og nú síðast fánabanns.
Kjarninn 10. janúar 2023
Gríðarlega mikil dæling á sandi á sér stað í Landeyjahöfn á hverju ári. Markarfljótið ber hundruð þúsunda tonna af jarðefnum út í sjó og það á til að safnast upp í mynni hafnarinnar.
Vilja sjúga sand af hafsbotni í stórum stíl og flytja út
Eftirspurn eftir íslenskum jarðefnum er gríðarleg ef marka má framkomin áform erlendra stórfyrirtækja um nýtingu þeirra. Vinsældir hafnarinnar í Þorlákshöfn eru samhliða mjög miklar.
Kjarninn 10. janúar 2023
Meira úr sama flokkiLeiðari