Það hefur vart farið framhjá neinum að íslenska ríkið er að öllum líkindum að fara að eignast allt hlutafé í Íslandsbanka. Tíðindin komu að einhverju leyti á óvart og síðustu daga hefur verið haft eftir Birnu Einarsdóttur, bankastjóra Íslandsbanka, að hún líti á mögulega ríkiseigu sem tímabundið ástand. Bankinn hafi verið í söluferli og áhugi sé á því að eignast hann erlendis frá.
Það vakna hins vegar ýmsar spurningar um hvað ríkiseiga á Íslandsbanka muni þýða, jafnvel þótt hún sé tímabundið. Þannig voru laun Birnu Einarsdóttur 3,2 milljónir króna á mánuði í fyrra auk þess sem hún fékk 4,8 milljónir króna í bónusgreiðslu. Steinþór Pálsson, bankastjóri Landsbankans, var hins vegar „einungis“ með 1,5 milljónir króna í mánaðarlaun auk þess sem hann fékk 175 þúsund krínur á mánuði í hlutabréfatengdar greiðslur. Því munar rúmlega 20 milljónum króna á árslaunum Birnu og Steinþórs auk þess sem bónusgreiðslur hennar eru mun hærri.
Ástæðan fyrir þessum mikla launamun hjá bankastjórunum er sú að íslenska ríkið er aðaleigandi Landsbankans og því falla starfskjör bankastjórans undir lög um kjararáð, sem sett voru eftir bankahrun. Samkvæmt þeim mega þeir sem undir ráðið heyra ekki vera með hærri laun en forsætisráðherra.
Ef Íslandsbanki verður að öllu leyti í eigu íslenska ríkisins þá ætti hið sama að gilda um laun Birnu.
Auk þess var greint frá því í júlí að Birna, framkvæmdastjórar og stjórnarmenn Íslandsbanka, hefðu farið fram á kaupauka í tengslum við nauðasamninga og sölu bankans. Vildi hópurinn fá allt að eitt prósent hlut í bankanum, samkvæmt frétt Morgunblaðsins um málið. Virði þess hlutar er rúmlega tveir milljarðar króna. Ljóst er að þær kröfur hljóti að vera út af borðinu ef Íslandsbanki endar í fangi ríkisins því varla fer það að gefa stjórnendum nokkra milljarða króna eign.