Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra er líkast til einn umdeildasti stjórnmálamaður sem upp hefur komið á Íslandi lengi. Hann virðist ekki með tjá sig um nokkurn hlut án þess að allir umræðuvettvangar fari af hliðina, oftast nær vegna vandlætingar á því sem forsætisráðherrann segir eða hvernig hann sagði það.
Það er þó engum blöðum um það að fletta að hann er stjórnmálamaður sem er óhræddur við að koma stórum málum í framkvæmd. Sigmundur Davíð var í viðtali við fyrstu útgáfu Kjarnans í ágúst 2013, aðeins nokkrum mánuðum eftir að hann tók við embætti, og fór þar yfir það sem ríkisstjórn hans ætlaði að gera. Skuldaleiðréttingin var þar ofarlega á baugi og hann sagði engan vafa á því að staðið yrði við stóru orðin. Þótt aðgerðin sé líkast til ein umdeildasta stjórnvaldsaðgerð Íslandssögunnar, og ekki séu allir sammála um að útfærsla hennar hafi verið það sem Framsóknarflokkurinn hafi lofað í aðdraganda síðustu kosninga, þá liggur alveg kýrskýrt fyrir að Sigmundur Davíð stóð við að greiða niður verðtryggð húsnæðislán.
Í viðtalinu ræddi hann einnig stöðu slitabúa gömlu bankanna og fjármagnshöftin. Sigmundur Davíð sagði að það væru sameiginlegir hagsmunir allra að höftum yrði lyft og að það væri kröfuhafa að sýna frumkvæði að því að koma með tilboð um lausn. Segja má að þeir hafi á endanum gert það, eftir að ríkisstjórnin stillti þeim upp frammi fyrir tveimur möguleikum: að mæta stöðugleikaskilyrðum eða fá á sig stöðugleikaskatt. Því hefur Sigmundur Davíð, á fyrri hluta þessa kjörtímabils, staðið við að koma í framkvæmd lausn á stærsta hagsmunamáli þjóðarinnar, losun hafta og slit gömlu bankanna.
Í næstu kosningabaráttu mun það án nokkurs vafa vera tóninn sem Sigmundur Davíð mun slá: kjósendur geta treyst því að hann standi við það sem hann segir. Hvað það verður sem Sigmundur Davíð og Framsókn munu lofa á svo eftir að koma í ljós.
"kannski svolítill munur á viðhorfi til Landsvirkjunar, hvort hún eigi að líta einvörðungu á eigin niðurstöðu, eða til samfélagslegra áhrifa þegar ákvarðanir eru teknar.
Í viðtalinu við Kjarnann fyrir tæpum tveimur árum ræddi Sigmundur Davíð ýmislegt fleira, meðal annars hvort ríkisstjórnin myndi beita pólitískum þrýstingi á t.d. Landsvirkjun um að gera samninga um orkusölu sem eru ekki gerðir á viðskiptalegum grunni. Þar sagði Sigmundur Davíð að það væri "kannski svolítill munur á viðhorfi til Landsvirkjunar, hvort hún eigi að líta einvörðungu á eigin niðurstöðu, eða til samfélagslegra áhrifa þegar ákvarðanir eru teknar. Ég er þeirrar skoðunar að Landsvirkjun, vegna þess hlutverks sem hún gegnir sem ríkisfyrirtæki með mjög mikilvægt hlutverk fyrir samfélagið, þurfi að líta á heildaráhrif þegar ákvarðanir eru teknar. Að hún þurfi að taka með í reikninginn þann ávinning sem verður af sköpun mörg hundruð starfa þótt þau störf séu ekki hjá Landsvirkjun“.
Í bakherberginu hefur þessi sýn forsætisráðherra verið rifjuð upp að undanförnu í ljósi þess að mikill vilji virðist vera hjá ríkisstjórinni að fjölga virkjunarkostum í nýtingarflokki rammaáætlunar og sökum þess að Sigmundur Davíð var viðstaddur undirskrift viljayfirlýsingar um álver í Skagabyggð í liðinni viku. Í tengslum við það verkefni krefjast aðstandendur að efnt verði áratugagamallt loforð um að orka úr Blönduvirkjun, sem er löngu fullbyggð og öll orka hennar í notkun, verði nýtt í heimabyggð.
Töluverður pólitískur þrýstingur hefur raunar verið á Landsvirkjun að koma að stóriðjuuppbyggingu allt kjörtímabilið. Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, sagði á ársfundi Landsvirkjunar árið 2013 að hún væri„orðin ansi óþreyjufull og ég vil fara að sjá árangur og að verkefnin verði að veruleika. Tækifærin eru svo sannarlega til staðar“.
Þeir sem reka fyrirtækið vilja gera það með sem arðsömustum hætti og selja orkuna til starfsemi sem borgar mest, svo Landsvirkjun geti greitt eigendum sínum, fólkinu í landinu, arð af starfseminni. Aðrir, þar á meðal forsætisráðherra, eru þeirrar skoðunar að taka eigi tillit til „samfélagslegra áhrifa“ þegar Landsvirkjun tekur ákvarðnir um orkusölu
Líkt og forsætisráðherra sagði réttilega í viðtalinu við Kjarnann í águst 2013 er nefnilega svolítill munur á viðhorfi til Landsvirkjunar. Þeir sem reka fyrirtækið vilja gera það með hagkvæmum hætti og selja orkuna til starfsemi sem borgar mest, svo Landsvirkjun geti greitt eigendum sínum, fólkinu í landinu, arð af starfseminni. Aðrir, þar á meðal ýmsir stjórnmálamenn, eru þeirrar skoðunar að taka eigi tillit til „samfélagslegra áhrifa“ þegar Landsvirkjun tekur ákvarðnir um orkusölu, meðal annars starfa sem verða til í stóriðju. Þessi skoðun ráðamanna hefur líka þau áhrif að ráðamennirnir hafa engan áhuga á að ræða mögulegan sæstreng til Bretlands, sem Landsvirkjun er mjög áfram um að kanna lagningu á sökum þess að hann gæti orðið ævintýralega hagkvæmur fyrir þjóðina.
Sá faglegi friður sem ríkt hefur um starfsemi Landsvirkjunar undanfarin ár virðist því úti og búast má við því að stjórnvöld fari að krefjast stóriðjuuppbyggingar á „samfélagslegum forsendum“ til að skapa störf í völdum kjördæmum. Það verður áhugavert hvernig æðstu stjórnendur Landsvirkjunar, Hörður Arnarson forstjóri og Ragna Árnadóttir aðstoðarforstjóri, taka þeim þrýstingi.