Vafalítið eru margir furðu lostnir yfir þeim hremmingum sem hafa herjað á viðleitni Reykjavíkurborgar til að vinna lífrænan massa úr úrgangi einnar ríkustu þjóðar heimsins.
Eitt er að framkvæmdin fór svo stórkostlega fram úr áætlunum að margir embættismennirnir þurftu að bugta sig um stund. Enda snérist umframkostnaðurinn á endanum um marga milljarða. Forstjórinn var rekinn og er nú farinn í mál við borgina.
Síðan kemur í ljós að þetta milljarða moltunarferli stenst engar viðteknar kröfur í þessum efnum. Nánar tiltekið er um einhverjar 6.000 milljónir að ræða, svona sirkabát.
Vitanlega hafa margvíslegir sérfræðingar komið að þessu verki, einkum verkfræðingar af ýmsu tagi. Og sannarlega eru þeir búnir að maka krókinn ríkulega.
Nú gæti það komið öllum þessum verkfræðimenntuðu snillingum á óvart, að sveppir eru langsamlegast færasta lífveran til að breyta úrgangi manna í nýtanleg efni. Gerlar og bakteríur hverskonar eru vissulega frábærir liðsmenn í þessu ferli, en sveppirnir leggja grunninn svo um munar.
Til þessa hafa ríflega 140.000 mismunandi tegundir af sveppum verið greindar. Þeir sem best vita telja þetta vera toppinn á ísjakanum. Stærsta þekkta erfðafræðilega einsleita lífveran sem vitað er um er sveppur. Sveppur þessi nær yfir mörg ríki Bandaríkjanna. Hún vegur mörg þúsund tonn, þótt lítil sé í sniðum.
Sveppir sjá um að annar trjágróður, tré, runnar og hvaðeina, geta átt í samskiptum sín á milli, hvort heldur það varðar aðsteðjandi hættur, skort á næringarefnum eða önnur umkvörtunarefni.
Lífvænleg molta er aldrei möguleg án aðkomu sveppa.
Það að kvarta undan því að sveppir hafi gert vart við sig í moltunargerð lýsir svo stórkostlegu skilningsleysi, að ætla mætti að moltugerð snúist fyrst og fremst um verkfræðinga og smíðisgripi þeirra.