Ég er stundum að velta því fyrir mér hvað hægt er að gera í þessu með Torg hins himneska friðar. Það er kannski stærsta torg veraldar en … tja það væri vel hægt að lífga svo lítið upp á það. Í hvert sinn sem ég álpast þangað fæ ég á tilfinninguna að ég sé að skríða út úr neðanjarðarbyrgi daginn eftir kjarnorkuárás eða innrás úr geimnum. Himinn og jörð renna saman í endalausa grárústrauða flatneskju. Aðeins gulir þaktoppar þinghússins standa upp úr og minna helst á logandi rústir sigraðrar borgar.
Og myndin af Maó Zedong hangir yfir Torginu eins og minnisvarði um tapaðan málstað. -- En hvað er þetta? Glottir hann? Hvað er hann að segja? Það setur að mér ugg. Er þetta ekki annars orðið gott hjá kallinum? Það fannst stúdentum í Peking 30. maí 1989. Þá stylltu þeir upp 10 metra hárri styttu andspænis honum og kölluðu hana Gyðju frelsisins. Fimm dögum síðar var hún jöfnuð við jörðu af skriðdreka.
Aldrei aftur Laugardalsvöllur
Ég held ég hafi fylgst með öllum heimsmeistarmótunum í fótbolta síðan HM á Spáni 1982. Hver keppnin annarri stórbrotnari. Í dag sameinar líklega engin viðburður mannkynið betur í tilhlökkun, leik og gleði en HM. Skuggi hefur þó hvílt yfir síðustu árin. Orðrómur hefur verið á kreiki um spillingu innan Alþjóðaknattspyrnusambandsins (FIFA). Þá hefur maður oftar en einu sinni rekist á myndir í fjölmiðlum af ömurlegum aðstæðum verkafólksins sem vinnur að því að byggja upp sviðsmynd mótanna. Hingað til hef ég ekki hugsað um það í mikilli alvöru að kannski ætti ég að hætta að horfa fyrst svona er í pottinn búið - þar til nú á dögunum er bandarískur saksóknari lagði fram kæru á hendur stjórnarmönnum FIFA fyrir stórtæka mútuþægni. Ég hef tekið ákvörðun um að horfa ekki á HM í Katar 2022. Er enn í baráttu við sjálfan mig vegna HM í Rússlandi 2018.
En það er önnur hlið á þessu sem veldur mér jafnvel enn meira hugarangri. Síðustu 2-3 árin hef ég bundið miklar vonir við að fótboltinn geti gert góða hluti hér í Kína. Innleitt frjálslynd viðhorf. Myndað mótvægi við hina yfirþyrmandi nærveru Kommúnistaflokksins í kínversku samfélagi. Orðið fyrirmynd að pólitískum umbótum. En nú renna á mig tvær grímur. Ef satt reynist að spilling og mannvonska hafi grafið um sig í knattspyrnuheiminum hvernig í ósköpunum getur boltinn þá orðið farvegur umbóta í Kína? Sumir halda því meira að segja fram að orsakasamhengið sé í hina áttina. Að það séu lönd eins og Kína - er predíka markaðsvæðingu án lýðræðisumbóta - sem séu smám saman að breyta knattspyrnunni í sína mynd en ekki öfugt. Þegar öllu er á botnin hvolft þá er það ekki svo fráleit kenning að valdhafar rísandi heimsveldis reyni að seilast til áhrifa í alþjóðaskemmtanaiðnaðinum. Að stjórnarmenn FIFA með forsetann Sepp Blatter í fararbroddi hafi einfaldlega gengið á mála hjá þeim.
Æ-ó, þetta er of flókið. Er ekki best að afgreiða boltann bara með einu pennastriki hér og nú í eitt skipti fyrir öll: Hann hefur orðið myrkum öflum að bráð. Þau véla með hann til að brjóta niður siðferðisþrek okkar og þenja út veldi hins illa. Fótboltinn er ópíum fólksins. Segjum nei við FIFA. Segjum nei við HM. Segjum nei við boltanum í hvaða mynd sem hann birtist. Aldrei aftur Upton Park, aldrei aftur Laugardalsvöllur, aldei aftur kínverski boltinn. Þetta er búið að vera skemmtilegt ferðalag. Eftirminnilegasta markið skoraði sjálfur Guð með sinni almáttugu hönd á 51. mínutu leiks Argentínu og Englands í Mexíkó 1986. Það var hápunkturinn. En nú er þetta búið. Nú slekk ég á sjónvarpinu … eða horfi í mesta lagi á smáþjóðaleikana og EM í handbolta (þegar Ísland er með).
Pragmatismi
Í Kína segja menn stundum „huo ran kai lang,“ þegar mikið útsýni lýkst upp þar sem enginn átti von á. Góðir kínverskir leiðsögumenn labba ekki með þig beint inn í aðalgarð musterisins. Nei þeir þreyta þig með röð af tilbreytingalausum forgörðum. Taka síðan óvætan sveig fram hjá vindsorfnum kalksteinshnullungi eða fyrir horn í undnum skuggagöngum -- Bingó! Við þér blasa vötn og fjöll. Fegurra gerist það ekki. Ja-á, þegar gefur á bátinn á maður ekki að fórna höndum eða leggjast flatur undir þóftu. Nei. Og við skulum ekki gleyma að jafnvel þó að allar ávirðingarnar á hendur FIFA reynast réttar þá beinast þær ekki gegn grasrótarstarfinu. Hin sjálfsprottna hreyfing áhugamanna sem laðar fram hæfileikaríka knattspyrnumenn og byggir upp dyggan hóp stuðningsmanna er ólöskuð. Það er einmitt þetta afl sem ég hef bundið vonir við að geti gert góða hluti hér eystra.
Síðustu 20-30 ár hafa Kínverjar verið að reyna að byggja upp gott fótboltalandslið á grunni sömu prinsippa og þeir beita til að knýja fram 10% hagvöxt ár eftir ár (markaðsvæðing án lýðræðisumbóta). Tekin var upp atvinnumennska 1992. Öll helstu liðin eru nú með öfluga styrktaraðila á bak við sig. Miklir fjármunir hafa farið í mannvirki, launagreiðslur, kaup á erlendum leikmönnum o.s.frv. Klúbbastarf hefur hins vegar verið í skötulíki. Skuggi Flokksins hefur hvílt yfir því. Þegar ákvarðanir eru teknar skipta pólitísk tengsl oft meira máli en fagleg sjónarmið. Leikmenn, þjálfarar, dómarar og flokksgæðingar hafa margsinnis orðið uppvísir að því að hagræða úrslitum, taka við mútugreiðslum og öðru svínaríi. Áhugi almennings hefur dalað í samræmi við þetta. Fjöldi ungmenna sem stundar knattspark hrapað. Það þarf því engan að undra þó gæði fótboltans í landinu séu ekki upp á marga fiska.
Hingað og ekki lengra segir núverandi forseti landsins Xi Jinping. Hann hefur tilkynnt að nú eigi grasrótin að fá séns. Fótboltaklúbbarnir eiga að fá frelsi til að skipuleggja sín mál sjálfir án afskipta Flokksins. Vel að merkja þetta frelsi er takmarkað við knattspyrnuna og nær ekki til annarra sviða samfélagsins. Það merkilega er að forsetinn gerir þetta ekki endilega af því hann hafi séð ljósið. Þvert á móti má ætla að hann geri þetta þrátt fyrir að hann telji að félagafrelsi henti alls ekki „sérstökum kínverskum aðstæðum“. Það er hins vegar búið að prófa allt annað til að bæta boltann í Kína. Nú er bara þetta eftir. Þetta er hreinn pragmatismi hjá hr. Xi. Þess má geta að einmitt svona fóru umbæturnar af stað í efnahagslífinu fyrir 30-40 árum síðan. Afskipti Maós af daglegu skipulagi landbúnaðarstarfanna hafði leitt til hungursneiðar um gjörvalt Kína. Þá kom Deng Xiaoping og sagði: „Það skiptir ekki máli hvort kötturinn er svartur eða hvítur -- bara að hann veiði mýs.“ Afhelgun Maós var hafin. Tilraunir með markaðasvæðingu voru gerðar á afmörkuðum svæðum. Síðar útfærðar fyrir allt landið.
Hásumarstemming
Það er komið hásumar hér í Kína. Þau fræ sem sáð var í vor eru orðin að bylgjandi ökrum. Það ríður á að ná inn uppskerunni áður en árviss flóð stórfljótanna skola henni til hafs. Í boltanum hugsa menn um að koma sem flestum stigum í höfn áður en sumarhitarnir fara að há verulega spilamennskunni.
Varðliðarnir mínir hafa spilað vel á leiktíðinni til þessa. Oft sýnt meistaratakta og eftir að þreyta fór að segja til sín gert nóg til að tryggja sigra. Yfirleitt. Í maí féllu þeir reyndar úr Asíukeppni meistaraliða. Enn eru samt tveir titlar inni í myndinni, í deild og bikar.
Kvennalandsliðið stendur í ströngu á HM í Kanada. Í fyrsta leiknum héldu þær jöfnu gegn heimamönnum fram á lokamínútu framlengingar. Þá voru þær að mínu mati óheppnar að fá dæmda á sig vítaspyrnu sem Kanadakonur skoruðu úr. Með glæsilegum sigri á Hollendingum og jafntefli gegn Nýja-Sjálandi tókst þeim samt að komast í 16 liða úrslit. Þar gerðu þær sér lítið fyrir og lögðu lið Kamerún og eru því komnar alla leið í 8 liða úrslit.
Karlarnir hófu þáttöku í undankeppni HM í Rússlandi 2018 með útileik gegn áhugamannaliði konungsríkis Himalæja-fjalla Bhutan (í 159. sæti á styrkleikalista FIFA) þann 16. júní sl. Auðvitað á Kína að vinna svona leik vandræðalaust. Það liðu samt taugastrekkjandi 45 mínútur þar til fyrsta markið kom rétt fyrir hálfleik. Eftir að ísinn var brotinn hlóðust hins vegar mörkin inn og lauk leiknum með yfirburðasigri Kína 0:6.