Hversu mikil áhrif hafa fyrirsagnir á okkur? Við heyrum af hörmungum frá öllum heimshornum og (að við höldum) frá mörgum hliðum málanna en í rauninni er heimsmyndin okkar mjög einsleit og fréttir alltaf sagðar út frá ákveðnu sjónarhóli. Enginn frétt er hlutlaus. Við heyrum svo margar fréttir af dauða og eyðileggingu að við verðum gjörsamlega dofin fyrir því hvað er raunverulega að gerast. Við tökum því sem við sjáum á prenti sem heilögum sannleika – en fólkið sem skrifar greinarnar er fólk eins og ég og þú. Við sjáum myndir af bæjum sem eru alltaf gráir (Írak, Palestína, Sýrland) án þess nokkurn tímann að sjá fyrirmyndirnar, svo að það er erfitt að samsvara því með okkar friðsæla raunveruleika á Íslandi. Þessir bæir voru líka grænir og fallegir einu sinni. Þar bjuggu læknar og leikskólabörn, bakari og stjórnmálamaður, alveg eins og hér. En tíminn er naumur og það sem er fréttnæmt er ekki það sem gerðist í gær heldur hvað breyttist í dag. Við þurfum samt að minna okkur á að sagan er ekki nema hálf-sögð.
Við heyrum fréttir af flóttafólki sem flýr átök og eyðileggingu en oft eru ákveðin orð notuð sem gera það að verkum að ákveðnar tengingar verða til í huga okkar (eitthvað ólöglegt, óeðlilegt og ógnvekjandi við evrópskan stöðugleika til dæmis). Þessar tengingar eru síðan grundvöllurinn fyrir því að stjórnvöld geti stundað ákveðna pólitík í nafni vilja fjöldans og stöðugleikans. En hvað ef að grundvöllurinn er einfaldlega rangur?
Á tímum félagslegra miðla eins og Facebook og Twitter koma annars konar sögur upp á yfirborðið. Ekki eru allar fréttir þar alltaf réttar, en þær eru oft sagðar frá ”hrárra” sjónarhorni en við eigum að venjast. Og mynd af drukknandi stúlku segir allt aðra sögu en fyrirsögnin ”Talið að yfir 800 flóttamenn hafi farist í miðjarðarhafinu”. Hér er eymdin algjör:
Here she is. One of those gold-diggers. She travelled on a boat to steal our prosperity. She wanted to cause unrest in...Posted by Tom Vandenbosch on Tuesday, April 21, 2015
Lítil stelpa í fallegu fötunum sínum sem liggur drukknuð í vatninu.
Hún er svo hræðileg að engin orð geta lýst því hvernig hún lætur okkur líða.
Hún er svo hræðileg að við sjáum hana ekki á forsíðu dagblaðanna. Sennilega færi það gegn siðareglum flestra fjölmiðla að sýna svona mynd. Reglurnar eiga að hlífa lesendum eða áhorfendum við verstu myndunum af því versta sem fer fram í heiminum, vegna þess að það er einfaldega of hræðilegt.
Myndirnar skipta máli
Ég vann á franskri fréttastöð í nokkur ár þar sem við spurðum okkur stundum af hverju sumar fréttir voru fréttnæmari en aðrar og hvar mörkin lágu. Af hverju við sýndum sumt og annað ekki. Fjölmiðlar heimsins geyma mun hræðilegri myndir en við sjáum á forsíðum dagblaðanna eða í kvöldfréttatímanum. Það er fólk sem síar myndirnar í sérstakri myndadeild, fólkið þar fór stundum grátandi heim. Ég mun líka alltaf muna eftir aftökumyndbandinu af Saddam Hussein, sem var tekið upp á síma og svo dreift á alla heimsins fjölmiðla af einhverjum sem var viðstaddur aftökuna. Allir fjölmiðlarnir sem einn sýndu loka andartök einvaldsins þar sem manneðlið og hræðslan kemur glögglega fram í augum mannsins. Því þó hann hafi framið hræðilegar athafnir þá var hann að lokum maður sem hræddist dauða sinn, en fólki fannst sjálfsagt að dauða hans væri sjónvarpað eins og það væri sjálfsagt að sýna snuff – mynd á háannatíma. Þetta myndband átti sjálfsagt að tákna „sigur” og endalok stríðsins í Írak en við vitum í dag að reyndin var önnur. Svo hvar ligga mörkin? Eigum við að sýna harðstjóra sem eru að ganga stokkinn en ekki þúsundir líka sem liggja í miðjarðarhafinu? Eigum við að sýna svart fólk sem liggur í götunni eftir ebólufaraldurinn en ekki hvíta hermenn einhvers staðar í Miðausturlöndum? Siðferðisspurningarnar eru margar. Og máttur myndarinnar er mikill. Og einmitt þess vegna er kannski mikilvægt að lesendur og áhorfendur sjái það sem raunverulega er að gerast fyrir botni Miðjarðarhafs:
Máttur myndarinnar er mikill og og nóg er til af myndum, nú eða jafnvel myndböndum. Þessar myndir þurfa að sjást. Því að ef fréttaflutningur af því sem er að gerast við miðjarðarhaf heldur áfram jafn ópersónulegur og ómannúðlegur og hann er í dag, er ekki nema von að stefnu evrópska stjórnmálaflokka (að Íslandi meðtöldu) sé haldið til streitu – þar sem fólki er útskúfað og er ekki komið til bjargar því að það er einfaldlega ekki áhugi fyrir því. Í síðustu viku sendi Evrópusambandið frá sér 10 þrepa áætlun þar sem meginmarkmiðin eru aðallega þau að senda fleiri af þeim sem ná leiðarenda aftur heim til sín og að vinna á smygglurunum. Það er hvergi talað um að Evrópa reyni að beita sér fyrir því að finna lausnir í löndunum sem fólkið kemur frá eða jafnvel að opnað verði algjörlega fyrir streymið inn í álfuna til þess að sporna við dauðsföllunum eins og talsmaður Sameinuðu þjóðanna mælir með.
Þangað til nýlega var straumur flóttamanna frá Afríku og Asíu eitthvað sem Evrópumenn gátu lítið samsvarað sér með. Einhverjar tölur og ógn við vestrænan stöðugleika sem bar að taka alvarlega og koma í veg fyrir að næðu landi. Nema að stöðugleikinn er ekki til lengur. Og að við erum ekki eins gott samfélag og við teljum okkur vera, ef að við getum horft á þúsundir manna drukkna fyrir augunum á okkur án þess að aðhafast nokkuð. Og leyfa kjörnu fulltrúunum að komast upp með það. Í rauninni þjóna myndirnar einum tilgangi – að hjálpa þér að setja þig í spor þeirra sem hætta lífi sínu fyrir eitthvað betra.
Hvað ef þú værir frá gráum bæ og engin von væri fyrir fjölskylduna eða börnin þín? Myndir þú ekki reyna við Miðjarðarhafið? Og vona að einhver kæmi þér til bjargar þegar báturinn væri að sökkva?